Nielsen listinnÞessi áhugaverði listi var birtur af Nielsen greiningafyrirtækinu á dögunum. Hann sýnir 20 mest seldu bækurnar í Bandaríkjunum það sem af er árinu 2014 – nánar hér.

Það sem vekur mesta athygli okkar (og þeirra reyndar líka) er að í sjö efstu sætunum eru svokallaðar Young Adult bækur. Þetta er athygliverð þróun og áhugavert að velta fyrir sér hvort það þýði að ungt fólk sé farið að lesa meira en það gerði áður, að aðrir (en unga fólkið) séu farnir að lesa minna en áður eða að YA-bækur séu lesnar af fleirum en bara ungu fólki.

Okkur Bókabeitum þykir síðasta skýringin sú líklegasta – að bækur sem eru flokkaðar sem Young Adult séu lesnar af fleirum en þeim sem eru nýskriðnir á fullorðinsárin. Okkar reynsla af því að gefa út Afbrigði (Divergent) er nefnilega sú að lesendahópurinn sé ansi breiður eða allt frá 12 og upp í 82 (elsti lesandinn sem við vitum um).

Þessi aukning í lestri YA bóka hefur verið greinileg undanfarin ár og sitt sýnist hverjum um það! Margir segja það merki um almenna forheimskun og hnignun andans að fullorðið fólk lesi bækur fyrir ungmenni en aðrir segja að það sé engin skömm að því að lesa bækur sem ætlaðar eru yngri lesendahópi en þú tilheyrir, það auki víðsýni og textinn sé ekki eins einfaldur og “grunnur” og margir haldi.

Við blásum að sjálfsögðu á það að það sé á einhvern hátt skammarlegt að lesa bækur sem eru skrifaðar (eða markaðssettar kannski frekar?) fyrir ungt fólk. Eða unglinga. Eða börn. Að okkar mati er langbest að lesa sem allra allra flest, því fjölbreyttari sem staflinn á náttborðinu er, því betra.

Eitt þykir okkur þó slæmt og það er að það vanti ennþá almennilegt hugtak fyrir „Young Adult“ bókmenntir á íslensku. Bækur fyrir ungt fólk? Einhver stakk upp á Ungaldinbækur? Ungmennabækur?

Hvað um að kalla þær bara Yndisbækur (til yndislestrar)?

Bækur fyrir unga fólkið …