Aðalsteinn Stefánsson
Aðalsteinn fæddist í Reykjavík, í efri Blesugróf, þar sem hann ólst upp sín fyrstu ár.
Elliðaárdalurinn og hólminn voru hans leiksvæði auk þess að skemmta sér á skautum á frosnu lóninu ofan Árbæjarstíflu.
Hann varð snemma læs og reyndist bókhneigður mjög, enda átti hann til að týnast, og fannst þá iðulega inní búri eða uppá háalofti niðursokkinn við lestur umkringdur bókum.
Aðalsteinn var til sveita flestöll sumur og undi sér vel. Hann fór þó að vinna á unglingsárunum og fékkst við ýmis störf, svosem járnsmíði, sjómennsku og byggingavinnu. Hann lærði síðan húsasmíði, varð Húsasmíðameistari og starfaði við það í tvo áratugi. Þá sneri hann sér að innflutningi og sölu og hefur starfað við það síðan, auk smíðavinnu.
Aðalsteinn hefur alltaf verið iðinn við lestur, en stundaði ekki mikið skriftir, nema stöku ljóð og dægurlagatexta. Það var ekki fyrr en hans fyrsta barnabarn fæddist að rifjuðust upp fyrir honum allir ævintýraheimarnir úti í náttúrinni og hann tók að festa þá á blað.