ÞrösturMorgunblaðið 5.desember 2013. Einar Falur Ingólfsson

Fjölskylduvandi og sjóræningjar

“Sem slíkur er heimur Jóa ævintýri, því á heimili alkóhólista gerast ævintýralegir hlutir – en það er ekki fallegt ævintýri,” segir Þröstur. 

Það eru komin ein tuttugu ár síðan ég byrjaði á þessari bók,” segir Þröstur Jóhannesson, netagerðar- og tónlistarmaður á Ísafirði, um nýja skáldsögu sína fyrir börn og unglinga, Söguna af Jóa. “Hún byrjaði sem lítil saga sem ég las fyrir elsta son minn og svo hélt ég áfram að breyta henni jafnóðum og ég las. Hann var orðinn frekar þreyttur á því, eðlilega,” segir hann og hlær.

Sagan fjallar um Jóa sem er 11 ára stákur með ríkt ímyndunarafl. Í huga hans flýgur sjóræningjaskip og er för þess heitið til London að bjarga pabba Jóa úr ógöngum. Í raunveruleikanum er pabbi Jóa sífellt að koma sér í vandræði og koma fjölskyldunni jafnframt í vanda. Því hefur Jói tekið afdrifaríka ákvörðun, sem mun hafa afleiðingar, og ekki bætir úr skák þegar veruleikinn og hinn ímyndaði sjóræningjaheimur fara að renna saman.

Þröstur vildi takast á við raunverulegt vandamál á þennan ævintýralega hátt. “Mig langaði að skrifa sögu sem væri svona blönduð, með köldum raunveruleika sem fantasía blandaðist saman við,” segir hann. “Sagan blundaði alltaf í mér en tækifæri gafst ekki til að skrifa hana fyrr en ég kviðslitnaði fyrir ári. Þá hafði ég nægan tíma, þurfti að bíða eftir aðgerð í tvo mánuði og byrjaði þá að skrifa. Síðan tók mig ár að ljúka verkinu. Og í raun er ég búinn að skrifa fjórar útgáfur sögunnar.”

Synirnir hjálpuðu með söguna.
Þröstur ólst upp í Keflavík og vann í saltfiskverkun föður síns samhliða námi. Hann fór snemma að fást við laga- og textasmíðar og hefur sent frá sér hljómdiska. Hann hefur lengi dreymt um að skrifa meira. “Ég hef lengi verið að skrifa texta og smásögur. Það lá beint við að fara í lengri sögu,” segir Þröstur. Um heim sögunnar segir hann að Jói búi við erfiðar heimilisaðstæður og faðirinn sé drykkfelldur. “Mig langaði til að lýsa því vel og því hvernig hann flýr síðan veruleikann inn í sinn eigin heim. Hann finnur skjól í ævintýrinu. Sem slíkur er heimur Jóa ævintýri, því á heimili alkóhólista gerast ævintýralegir hlutir – en það er ekki fallegt ævintýri.”

Þröstur á fjóra syni og segir það hafa hjálpað sér mikið þegar hann var að skrifa söguna því hann hafi alltaf lesið mikið fyrir þá. “Lokasprettinn tók ég með yngsta stráknum mínum sem nú er tólf ára. Ég hef unnið talsvert með hliðsjón af viðbrögðum hans. Svo man ég líka vel hvað virkaði á mig á þessum árum; sjóræningjar hafa lengi verið mér hugleiknir,” segir hann og brosir. “Þeir eru flottar týpur en um leið var áhugavert að láta þá standa við hlið drykkjumannsins. Það má finna samasemmerki þar á milli.”

Sagan af Jóa er nær 200 blaðsíður, gefin út af Bókabeitunni og fylgir rafbók þeirri prentuðu. Hún er prýdd myndum eftir Pétur Guðmundsson. “Þeir sem lesa bókina kunna að sjá að hún gerist í Keflavík, þótt ég kalli hana Skálavík. Ég fékk Pétur félaga minn til að teikna og hann setti vestfirsku fjöllin, þar sem hann ólst upp, á myndirnar; það er gott bland. En ég leit á Keflavík sem sögusviðið.”

Persónurnar vaknaðar
“Nei, alls ekki,” svarar Þröstur þegar spurt er hvort hann sé nú hættur að skrifa. “Ég ætla ekki að skrifa framhald Jóa en þessar persónur eru vaknaðar til lífsins og ég á meira efni, hliðarsögur og vangaveltur um persónurnar sem mig langar að vinna úr.”

Þröstur vinnur sem netagerðarmaður á Ísafirði og segir erfitt að finna samfelldan tíma til að skrifa. “Því til að gera þetta vel þarf góðan tíma og ná törnum, en svona er þetta. Ég finn mér tíma, einhvernveginn, því ég verð að halda áfram að skrifa.”

Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is

Fjölskylduvandi og sjóræningjar