Eftirfarandi fréttatilkynning var samin fyrir fjölmiðla vegna undirritunar samnings Bókabeitunnar við ArenaVerlag:

„Bókaútgefendurnir og rithöfundarnir Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir undirrituðu í dag samning við Arena Verlag, einn umsvifamesta útgefanda barna- og unglingabóka í Þýskalandi, um útgáfu þriggja fyrstu bókanna um Rökkurhæðir á árinu 2016.

Þýska forlagið hyggst jafnframt gefa út hinar þrjár Rökkurhæðabækurnar, sem út eru komnar hérlendis, og þá sjöundu og síðustu, sem verður skrifuð og gefin út á næsta ári hjá Bókabeitunni, forlagi sem Birgitta Elín og Marta Hlín stofnuðu 2011 til að gefa út eigin sögur og bækur eftir aðra höfunda, íslenska og erlenda.

Samningurinn við Arena Verlag markar tímamót í starfsemi Birgittu Elínar og Mörtu Hlínar sem höfunda og útgefenda. Fulltrúi þýska forlagsins hafði samband við þær á bókamessunni í Frankfurt í ár og í kjölfarið hófust viðræður sem lyktaði með samningi. Forlagið skyggndist á messunni annars vegar eftir spennu- og ævintýraefni fyrir unga lesendur og hins vegar eftir íslensku efni fyrir börn og unglinga. Það fann hvoru tveggja í Rökkurhæðabókunum.

Arena Verlag hyggst gefa út fyrstu Rökkurhæðabókina, Rústirnar, í janúar 2016 og síðan þær næstu, Óttulund og Kristófer, þremur og sex mánuðum síðar. Forlagið fylgir útgáfunni eftir með miklu kynningarstarfi og auglýsingum á öllum þýska markaðinum.

Sögusviðið Rökkurhæðir er úthverfi borgarinnar Sunnuvíkur, samfélag sem höfundarnir hafa skapað. Þar lifir og starfar ósköp venjulegt fólk á öllum aldri en þar gerist líka sitthvað óvenjulegt eða undarlegt, jafnvel óhugnanlegt og hryllilegt.

Anika Wolff þýðir bækurnar. Hún hefur komið áður við sögu þýðinga íslenskra skáldsagna á þýsku, m.a. eftir Guðrúnu Helgadóttur, Guðrúnu Evu Mínvervudóttur og Kristínu Steinsdóttur.

Birgitta Elín og Marta Hlín luku meistaraprófi í náms- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands, með íslensku og íslenskukennslu sem sérgrein. Þær kynntust í kennaranáminu og skrifuðu saman B.Ed. ritgerðina Bókabeitan 2009 og hvor sína meistaraprófsritgerð um bókmenntakennslu árið 2011. Þær komust báðar að þeirri niðurstöðu að hægt væri að nota barna- og unglingabækur í mun meira mæli til kennslu en í stað þess að fara út í kennslu ákváðu þær að hefja samstarf, stofna bókaforlag og skrifa bækur.

Þær segjast sækja hugmyndir sínar í samtímann og í íslenska þjóðsagnaarfinn og skrifa fyrir venjulega krakka um venjulega krakka. Markmiðið var einfalt: að skrifa sögur sem krakkar nenna að lesa! Það tókst, sem sést best á því að bækurnar seljast vel, eru mjög eftirsóttar á bókasöfnum og eru nú síðast orðnar útflutningsvara.

Birgitta Elín og Marta Hlín gefa út bækur undir þremur merkjum sem höfða til ungra lesenda á mismundandi aldri: Björt bókaútgáfa er hugsuð fyrir unglinga og eldri lesendur, Töfraland fyrir þá yngstu en Bókabeitan fyrir þá sem eru þar á milli, 11-14 ára eða þar um bil. Þær eru með alls 11 nýja titla á jólabókamarkaðinum.

Rökkurhæðabækurnar eru gefnar út í nafni Bókabeitunnar. Sömuleiðis bókaflokkurinn um Kamillu vindmyllu eftir Hilmar Örn Óskarsson. Þriðja Kamillubókin er nýkomin út.

Tímamótasamningur!