Filip heyrði í honum. Fótatakið, sem hljómaði eins og hvísl í kyrrð hjólageymslunnar. Eftirvæntingarfullt brakið í fingrunum. Já, Filip fannst hann meira að segja heyra brosið sem lék um varir hans.

Filip skreið bak við stóra málmskápinn, þar sem húsvörðurinn geymdi verkfærin sín, og leit varlega fyrir hornið. Hjartað tók kipp þegar skugginn birtist allt í einu á veggnum. Hann virtist óeðlilega stór. Djöfullegur. Og var það bara þetta undarlega ljós eða var skugginn með horn?

„Hvar eeeeertu?“ sönglaði skugginn ánægður. „Sýýýýndu þig!“

Filip lét fara eins lítið fyrir sér og hann gat. Hann fann svitann renna niður bakið. Hér var jafnheitt og í bakarofni. Eða kannski fannst honum það bara, því hann var lokaður inni í hjólageymslu skólans með Illuga.

Hann var líka kallaður Illugi djöfull. Það væri hægt að skrifa þykka doðranta um skelfileg illvirki hans. Ef Fjandinn væri drengur, þá væri hann Illugi. Fórnarlömb hans voru ekki nemendur sem hann greip tilviljanakennt á skólalóðinni eða á tómum göngunum þegar hann skrópaði í tíma. Nei. Illugi djöfull, sem var í níunda bekk, tveimur bekkjum ofar en Filip, var miklu útsmognari en það.

Við upphaf hverrar viku valdi hann nýtt fórnarlamb, nýjan fordæmdan, sem hann eltist við þangað til skólabjallan hringdi inn helgina á föstudeginum. Yrði maður þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera hinn fordæmdi var ekki um annað að ræða en ganga með veggjum og vona að maður lifði vikuna af. Þá beindi Illugi drekalíkum sjónum sínum að öðrum og maður var öruggur. Um sinn.

Þessa viku hafði Filip orðið fyrir valinu. Hann hafði reyndar sloppið nokkuð vel fram að þessu. Illugi þvingaði hann til að éta nokkrar lúkur af sandi, hann hafði verið bundinn við sturturnar í búningsklefa stelpnanna og fékk ekkert að borða í skólanum því Illugi stal bæði nestinu og peningunum hans. Jú, svo var líka pissað í pennaveskið hans. Tvisvar.

En samt – þetta voru smámunir í samanburði við hvað Illugi hafði gert við suma af hinum krökkunum.

Það var reyndar ekki komin helgi ennþá. Þetta var síðasti tími á föstudegi. Filip var enn hinn fordæmdi og akkúrat núna sat hann í hnipri á bak við skápinn í hjólageymslunni og starði á svarta skuggann á veggnum. Sem virtist næstum málaður á. Filip sá hvernig skugginn þefaði og hlustaði eins og rándýr á veiðum og hugsaði með sér að ef lyktin af köldum svita kæmi ekki upp um hann myndi hjartslátturinn gera það. Hávaðinn var eins og í járnbrautarlest.

Hann hefði átt að vera uppi í stofu í stærðfræði. Á þessari stundu ætti hann að sitja með upprétta hönd til að segja Jörgen, stærðfræðikennaranum þeirra, að hann hefði óvart reiknað aðeins of mikið og vonaði að það gerði ekkert til.

Hvernig hafnaði hann þá hér? Með dreng sem hefði fengið sjálf ljónin í gamla Colosseum til að flýja vælandi af hólmi?

Það var Magna að kenna.

Magni hafði gleymt íþróttafötunum sínum í búningsklefanum og spurt Jörgen hvort hann mætti ekki sækja þau. Og hvort Filip mætti ekki koma með. Það myndi bara taka augnablik.

Það voru heilmikil læti í bekknum því nokkrir höfðu slegist í frímínútunum, einn hafði meitt sig og fjórir aðrir tilkynntu að þeir hefðu gleymt að læra heima, sem fékk þrjá aðra til að hrópa að þeir hefðu sko klárað heimaverkefnið. Kennarinn bandaði Magna og Filip pirraður frá sér og gaf þeim þannig leyfi til að fara.

„Fjandans,“ hrópaði Magni þegar þeim komu inn í búningsklefa drengjanna. Það var búið að róta í íþróttatöskunni hans og henda fötunum út um allt. „Af hverju getur fólk aldrei látið neitt í friði?“

Þeir tóku fötin saman en þegar Magni fór yfir innihald töskunnar uppgötvaði hann að handklæðið vantaði.

„Nennirðu að gá hvort hálfvitarnir hafi kastað því niður tröppurnar,“ spurði hann og benti á dyrnar við hliðina á leikfimisalnum. Tröppurnar lágu niður í hjólageymsluna og dyrnar stóðu í hálfa gátt.

Filip var kominn niður tíu tröppur þegar dyrnar skullu skyndilega aftur. Á eftir holum skellinum heyrðist þegar lásinn rann á sinn stað.

„Magni?“ Hann tók í húninn, en dyrnar högguðust ekki. „Magni, þetta er ekkert sniðugt!“

„Fyrirgefðu, Filip,“ heyrði hann Magna segja. „Illugi neyddi mig til þess. Annars verð ég næstur.“ Svo heyrðist fótatak sem fjarlægðist hratt.

„Magni! Magni, komdu aftur!“

Hrópin sem ultu niður tröppurnar hljómuðu eins og örvæntingarfullar bænir frá öðrum heimi. Filip sneri sér að gráum skuggunum.

Uppgangurinn að skólalóðinni var alveg yfir í hinum enda kjallarans en ef hann tæki sig saman í andlitinu, í staðinn fyrir að standa hér eins og skræfa, næði hann kannski þangað áður en Illugi kæmi.

Filip henti sér niður tröppurnar á hvínandi ferð og stormaði í gegnum kjallarann. Hann átti allan tímann von á að Illugi kæmi hlaupandi út úr skuggunum, með djöflaglottið á andlitinu, en ekkert gerðist og útgangurinn kom í ljós fyrir framan hann. Hann hafði komist í gegn.

Næstum …

Því þessar dyr högguðust ekki heldur þegar Filip reyndi að opna þær. Eitthvað lokaði þeim utan frá. Það þýddi að bara breiða trappan var eftir. Þessi sem endaði uppi hjá níunda bekknum.

Brak truflaði hugsanir Filips. Svo fótatak. Þá kunnugleg röddin sem sönglaði: „Hvar eeeeertu? Sýýýýndu þig!“

Nú sat hann hér. Fastur. Króaður af. Hann gat ekkert annað en vonað það besta. Sem var – þegar djöfla-Illugi var annars vegar – nógu slæmt.

„Þú ert svo þögull,“ sagði Illugi glaðlega og skipti yfir í drungalegt urr: „Ég verð snöggur að breyta því.“

Og skyndilega stóð hann fyrir framan Filip, eins og púki særður fram úr dimmustu djúpum vítis.

„Blessaður,“ brosti hann og beraði nikótíngular tennur. Dökkt hárið, sem glansaði af geli, var snúið upp í tvö sveigð horn. Hann tók af sér skólatöskuna og lagði hana á gólfið. Það glamraði ískyggilega í henni. Eins og hún væri full af hnífum en ekki bókum.

„Sumir kennarar segja að ég læri aldrei heima. En það er ekki rétt. Ég er til dæmis að vinna verkefni í sögu og mér datt í hug að þú gætir hjálpað mér með það. Þú veist, með smá rannsóknir og svoleiðis.“

Illugi opnaði töskuna og dró upp eitthvað sem líktist steikargaffli. „Verkefnið fjallar um pyntingar á miðöldum. Ég skal segja þér, Filip litli, að þessir menn gátu fengið fólk til að játa hvað sem var.“

Illugi hélt áfram að taka upp úr töskunni. Kjöthamar, vindlaskera, nokkra öngla, klíputöng, handþeytara. Filip svimaði. Honum fannst gólfið ganga í bylgjum.

„Filip, sjöunda A,“ sagði Illugi og setti upp alvarlegan, næstum hátíðlegan, svip. „Þú ert ákærður fyrir að vera í slagtogi með Djöflinum. Hverju svarar þú þessari ákæru?“

Filip starði á þeytarann og kyngdi kekki á stærð við skápinn sem hafði skýlt honum.

„Það er satt,“ hvíslaði hann. „Ég hef verið í slagtogi með Djöflinum.“

Augnablik virtist Illugi næstum vonsvikinn. Þetta var ekki svarið sem hann bjóst við og Filip fann örla á örlítilli von. Svo breiddist útsmogið bros yfir varir Illuga.

„Filip, Filip, Filip,“ sagði hann. „Þeim sem játuðu var líka refsað.“

Illugi seildist glottandi eftir honum og Filip gat ekki annað gert en að loka augunum og biðja þess að þetta tæki fljótt af. Vonandi myndu foreldrar hans kaupa falleg blóm á leiðið.

Einhver hlaut að hafa bænheyrt hann því allt í einu drundi djúp rödd í kjallaranum, svo hátt að það leið næstum yfir Filip: „Hver andskotinn? Ert þú nú enn að?“

Filip opnaði augun og sá Illuga dreginn aftur á bak af skítugum hnefa sem læsti sig um hnakkann á honum.

Húsvörðurinn var stór sem dreki og jafnógnvekjandi á að líta. Hann var með undarlegan húðsjúkdóm þannig að flögnuð húð hans líktist helst eðluskinni.

Þegar Filip var í fyrsta bekk var hann viss um að hann myndi einhvern tímann sjá eld spúast úr svörtum kjafti mannsins. Húsvörðurinn líktist ekki bara dreka, hann var líka jafnsterkur og dreki og einn af fáum fullorðnum í skólanum sem þorðu að taka Illuga í gegn.

„Slepptu mér!“ veinaði Illugi og barði á trjástofnsþykkan handlegg húsvarðarins. Húsvörðurinn sleppti honum en aðeins til að grípa í eyrað í staðinn. Í hinni hendinni hélt hann á einhverju, sem Filip hélt fyrst að væri svipa, en sá svo að það var upprúlluð rafmagnssnúra.

„Aáááá! Þetta er vont!“

„Auðvitað,“ svaraði maðurinn og brosti til Filips. „Ég er bara að hjálpa þér með rannsóknirnar fyrir söguverkefnið þitt. Ætlarðu ekki að þakka fallega fyrir þig?“

„Ég skal sjá til þess að þitt feita rassgat …“ Illugi greip fram í fyrir sjálfum sér með sársaukagóli þegar húsvörðurinn sneri betur upp á eyrað. „Takk, takk, fjandinn hafi það!“

„Þetta var betra. Komdu nú með mér upp á skrifstofu skólastjórans og segðu frá því hvað þú ert búinn að vera duglegur nemandi í dag.“ Húsvörðurinn dró Illuga af stað en hann varð að valhoppa með til að eyrað rifnaði ekki af.

„Þú sleppur ekki!“ galaði Illugi svo bergmálaði í öllum hjólakjallaranum. Þú ert enn hinn fordæmdi! Heyrirðu? Þú losnar ekki!“

„Nei, það gerir þú ekki, vertu viss,“ heyrðist í húsverðinum og af ópum Illuga að dæma fékk eyrnasnepillinn á sig annan snúning.

Filip sat eftir í kjallaranum í dimmum skugga skápsins, með hnén dregin upp að höku. Hann fór ekki upp fyrr en bjallan hringdi út, helgin var hafin og hjólageymslan fylltist af æpandi börnum.

 


2. kafli

Góðverk

Þegar Filip sneri aftur var stofan tóm, búið að taka til á borðunum og raða stólunum. Aðeins sæti Filips skar sig úr.

Hann tók saman bækurnar sínar. Jörgen hafði skrifað heimaverkefni dagsins á töfluna og þótt Filip væri þegar búinn að klára þau skrifaði hann samt blaðsíðutalið hjá sér í svörtu heimanámsbókina.

Hann gaut augunum að sæti Magna á meðan hann fór í jakkann. Stóllinn var skakkur og blýantur og brotin reglustika lágu á gólfinu. Magni hafði greinilega flýtt sér heim.

Önnur börn í sporum Filips hefðu kannski verið öskureið við Magna og óskað þess að hann myndi smitast af alls konar banvænum sjúkdómum. Kannski hefðu þau skipulagt meiriháttar hefnd, þar sem bæði reipi, brautarteinar og lestaráætlanir væru liðir í áætluninni. Hugsanlega hefðu þau reynt að kæra hann til lögreglunnar, því það hlaut að varða við lög að stinga fólk svona í bakið.

En Filip var ekki æfur út í Magna. Í rauninni var hann ekki einu sinni reiður. Magni hafði bara gert þetta vegna þess að Illugi neyddi hann til þess. Það var auðvitað gremjulegt að einmitt Filip skyldi lenda í þessu, en staðreyndin var sú að það var ekki Magna að kenna. Þar að auki gerðist ekki neitt. Það hafði staðið tæpt, en Filip komst upp úr kjallaranum heill á húfi.

„Hvað í ósköpunum, Filip, ert þú hér enn?“

Jörgen stærðfræðikennari kom inn í stofuna. Hárið á honum var úfið og það voru krítarblettir á skyrtunni og buxunum. Hann virtist vera að leita að einhverju mikilvægu. „Hvar í fjandanum setti ég hann?“

„Já, ég …“ Filip þagnaði og fylgdist með Jörgen, sem horfði rannsakandi í kringum sig.

Hann tók ekki eftir því að ég var ekki viðstaddur, hugsaði Filip. Allur stærðfræðitíminn leið án þess að hann uppgötvaði að sætið mitt var autt.

„Ah, þarna er hann!“ hrópaði Jörgen og nánast hljóp að gluggakistunni. Hann tók kaffifantinn sem stóð á milli kóngulóarbúrsins og stóra kaktussins og andvarpaði feginn. „Að týna kaffibollanum sínum er eins og að tapa öðrum fætinum.“ Hann gekk að dyrunum. „Góða helgi, Filip.“

„Sömuleiðis,“ svaraði Filip og hugsaði með sér að eftir hálftíma myndi Jörgen ekki muna eftir að hafa rekist á hann.

Filip gekk að búrinu og leit í gegnum skítugt glerið. Undan skugganum af grænum blöðum störðu svört augu kóngulóarinnar til baka.

 

* * *

Filip var að hjóla eftir stígnum meðfram almenningsgarðinum þegar hann kom auga á eitthvað sem hann greindi ekki alveg strax. Þremur sekúndum og þrjátíu og fimm metrum seinna rann upp fyrir honum hvað hann hafði séð.

Hann sneri við og hjólaði til baka. Jú, þetta var rétt. Þarna uppi, næstum alveg í toppi beykitrésins, sat svartur köttur.

Filip lagði hjólið frá sér og gekk að trénu. Kötturinn virtist ekki skilja hvernig í ósköpunum hann hafði lent þarna og hvers vegna jörðin var svona langt í burtu.

„Kemstu ekki niður?“ spurði hann og um leið beindust sægræn augu kattarins að honum. Greinin sem kötturinn sat á sveiflaðist í vindinum og klærnar grófust dýpra í börkinn. Hann var greinilega ekki sáttur við aðstæður. Kannski hafði hundur hrakið hann þangað upp.

„Hvers vegna lærið þið kettir aldrei af reynslunni? Hundar geta ekki klifrað í trjám. Þið þurfið bara að klifra tvo metra upp stofninn og þá eruð þið öruggir. Af hverju farið þið alltaf alla leið upp í topp? Komdu nú niður, kisi! Komdu!“ Hann rétti fram höndina og hreyfði fingurna eins og hann hefði mat á lófanum. „Kiskiskiskis.“

Kötturinn mjálmaði, eins og til að segja að það hjálpaði ekki að kalla bara á hann. Filip skildi það alveg. Maður sem er fastur á fjórðu hæð í brennandi húsi kemur ekki niður bara af því að slökkviliðsmennirnir kalla á hann.

„Vertu rólegur,“ sagði Filip og henti töskunni í jörðina. Hann spýtti í lófana, greip í neðstu greinina og sveiflaði sér upp í tréð. „Ég skal ná þér niður. Vertu bara kyrr þar sem þú ert.“

Þegar Filip var hálfnaður upp tók hann sér stutt hlé og naut útsýnisins. Það voru engin önnur tré í nágrenninu svo hann sá vel yfir garðinn og hluta bæjarins. Hann sá bókasafnið, skólann, vatnsturninn og litlu manneskjurnar sem gengu um gangstéttarnar, hver með sitt erindi. Tilhugsunin um að hann sæti hér og fylgdist með þeim, án þess að þær vissu af því, var kitlandi. Honum fannst hann næstum ráða yfir þeim. Eins og allur bærinn tilheyrði honum.

Fyrir ofan hann mjálmaði kötturinn, eins og til að minna á að hann hefði sem sagt ekki allan daginn.

„Já, já, ég kem.“ Filip hélt áfram upp á við. Allt í einu rann hann til og aðeins snöggt viðbragð kom í veg fyrir margra metra fall.

„Úff!“ blés hann móður og leit niður. „Þetta var tæpt.“

Kötturinn mjálmaði aftur.

„Já, já! Vertu svolítið þolinmóður. Ég hefði getað dáið.“ Hann skreið áfram þangað til kötturinn var beint fyrir ofan hann.

Filip rétti hendurnar að honum en kötturinn vék nokkur skref til baka.

„Nei, þetta er vitlaus átt. Þú verður að hjálpa aðeins til sjálfur ef þetta á að heppnast. Komdu nú, ég geri þér ekki neitt. Ég er kominn til að hjálpa þér.“

Augnablik virtist kötturinn ekki ætla að treysta honum. Svo byrjaði hann að færa sig hægt nær.

„Svona já. Þetta er gott.“

Filip hallaði sér eins langt fram og hann gat, án þess að missa jafnvægið, og náði í köttinn. Fingurnir sukku niður í flauelsmjúkan feldinn og lyftu kettinum af greininni.

Hann byrjaði að klifra varlega niður með aðeins aðra höndina lausa. Með hinni hélt hann á kettinum. Svartur feldurinn lyktaði undarlega. Það var eiginlega brunalykt af honum.

Nei, ekki brunalykt, leiðrétti hann sjálfan sig. Brennisteinn. Þetta var brennisteinslykt.

Eftir nokkra metra lagði hann köttinn frá sér, sem nú gat séð um sig sjálfur. Kötturinn stökk grein af grein, eins og svartur skuggi, þar til hann hoppaði að lokum niður á jörðina þar sem hann tók til við að snyrta feldinn.

Filip lenti með skelli við hliðina á honum.

„Nú, hvað segir maður þá?“ spurði hann og burstaði af sér.

„Takk fyrir hjálpina,“ svaraði kötturinn og hvarf hratt inn í græna runna garðsins.

 

3. kafli

Leitað að ketti

Fyrst hjólaði Filip um garðinn þveran og endilangan. Svo vegina í kringum garðinn. Þá vegina í kringum vegina í kringum garðinn. Svo vegina í kringum vegina í kringum vegina í kringum garðinn …

Án árangurs. Kötturinn var horfinn, eins og jörðin hefði gleypt hann, og það eina sem Filip hafði upp úr leitinni var sveitt enni og aum læri.

Takk fyrir hjálpina.

Orðin hringsnerust í höfðinu á honum og sendu kalda strauma niður bakið. Kötturinn hafði talað. Hann heyrði það sjálfur, hafði séð hann tala. Sá varirnar – eða hvað það nú hét á ketti – mynda þessi þrjú litlu orð.

Takk fyrir hjálpina.

Svo var hann horfinn.

Hafði hann ímyndað sér þetta?

Nei, alls ekki. Heyrðu mig nú. Hann hafði meira að segja séð köttinn tala.

En kettir kunna ekki að tala, Filip.

Nei, það vissi hann vel. Þess vegna æddi hann um bæinn að leita að honum. Til að spyrja hvað í ósköpunum gengi á.

En hvar er hann þá núna, Filip? Það ætti að vera hægt að finna talandi kött, ekki satt? Og heyrðu annars, hvers vegna kallar þú ekki bara á hann, það er alveg möguleiki að hann sva …

Filip bremsaði svo snöggt að dekkin teiknuðu tvær svartar slöngur á hjólastíginn og hæðnisleg röddin í höfðinu snarþagnaði.

Þarna, hinum megin við götuna, í skugganum af stórum grátvíði, sat kötturinn. Kolsvartur feldurinn rann inn í skugga trésins en grænu augun voru áberandi. Þau líktust næstum gægjugötum inn í annan heim. Kötturinn horfði beint á Filip.

Rautt ljós hindraði Filip í að hjóla yfir götuna. Það voru engir bílar en Filip fór aldrei yfir á rauðu.

„Ekki hlaupa í burtu,“ hvíslaði hann og trommaði óþolinmóður á stýrið. „Ekki hlaupa í burtu.“

Loksins kom grænt og Filip hjólaði út á götuna til kattarins, sem beið hinum megin. Hann hrukkaði ennið þegar það rann upp fyrir honum ljós.

Hann er ekki að horfa á mig, hugsaði hann. Hann horfir á eitthvað fyrir aftan mig.

Um leið var Filip hrint svo harkalega að hann missti jafnvægið. Hann reif stýrið til vinstri og lenti á miðjum gatnamótunum.

„Ég sagði að þú myndir ekki sleppa!“ æpti Illugi. Röddin var við það að bresta, það hlakkaði svo í honum. „Ég sagði það e …“

Sigurhrópin drukknuðu í hljóðinu frá ískrandi bíldekkjum og skyndilega fannst Filip allt ganga mjög hratt og mjög hægt í senn.

Hann leit upp og það var eins og sú eina hreyfing tæki marga klukkutíma.

Hann sá svarta bílinn sem stefndi beint á hann.

Hann sá gamla manninn sem sat við stýrið.

Hann sá hlutinn sem hékk í keðju um hálsinn á manninum. Sá hvernig hann sveiflaðist fram og til baka. Fram og til baka. Eins og pendúll í gamalli klukku.

Og hann sá að klukkan var að stoppa.

Svo lenti bíllinn á honum og í myrkrinu sem umlukti allt sá hann köttinn. Hann beið eftir honum. Hinum megin.

 


4. kafli

Tröppur og myrkur

Filip opnaði augun. Eða það hélt hann að minnsta kosti en honum skjátlaðist greinilega því allt var enn svart.

Hann reyndi aftur. Án árangurs.

Hann lyfti hendinni að augunum til að þvinga þau upp en uppgötvaði að þau voru opin. Augnablik hélt hann að hann væri kannski orðinn blindur. En það gat ekki verið því hann sá hendurnar þegar hann hélt þeim fyrir framan andlitið. Það var bara þessi staður sem var svona dimmur. Dimmur eins og í dýpsti svefn.

Filip rétti hendurnar fram og sá hvernig skuggarnir gleyptu lófa og fingur. Þeir gripu ekki í annað en hlýtt loft.

„Halló“? sagði hann og röddin hvarf út í sortann eins og steinn sem kastað er niður í botnlaust hyldýpi. Það var ekkert bergmál, enginn herbergishljómur. Það var eins og hann stæði efst uppi á háu, einmanalegu fjalli, umkringdur eilífðinni.

Hvar er ég?

Hann sneri sér við og uppgötvaði hurð beint fyrir aftan sig. Hún leit úr fyrir að vera stór og þung og þegar hann þrýsti sléttum hurðarhúninum niður haggaðist hún ekki. Hann lagðist á hurðina, en hefði alveg eins getað reynt að velta eikartré um koll, dyrnar voru vandlega læstar.

Filip beygði sig niður og kíkti í gegnum skráargatið, sem var jafnstórt þumalfingri á fullorðnum manni. Innan við dyrnar sá hann sjö grófar tröppur sem leiddu upp á við. Eitthvað var höggvið í hverja tröppu. Það virtust vera bókstafir en úr þessari fjarlægð gat Filip ekki lesið hvað stóð.

„Halló? Er einhver þarna,“ hrópaði hann og bankaði á þykkar trédyrnar. „Heyrir einhver í mér?“

Þögn.

Í huganum myndaðist spurningin aftur, í þetta sinn ágengari: Hvar er ég?

„Draumur,“ sagði hann upphátt, en það hljómaði ekki nógu sannfærandi; hann hafði aldrei getað logið. „Þetta hlýtur að vera draumur.“

Filip sneri sér aftur við og uppgötvaði að augun höfðu vanist myrkrinu. Hann sá allavega núna að hann stóð í tröppum. Þær voru ekki eins og tröppurnar sem hann sá í gegnum skráargatið heldur jafnari og breiðari, eins og þar ættu að rúmast fleiri. Auk þess voru þrepin snarbrött niður á við. Filip sá um það bil fimmtán þrep fram fyrir sig. Þar fyrir neðan tóku við ólgandi skuggar.

Það var ekki um annað að ræða en að ganga niður tröppurnar.

Svo hann gerði það.

 

* * *

 

Loftið var heitara hérna niðri. Mun heitara. Eins og í hjólageymslunni. Eins og í höllinni í ævintýrinu um Hans klaufa. Kannski var einhver að steikja kjúkling einhvers staðar. Það myndi að minnsta kosti skýra brunalyktina.

Lengi vel virtist stiginn óendanlegur en eftir fleiri hundruð brött þrep sléttist úr honum og hann varð að þráðbeinum stíg. Beggja vegna stígsins lá þétt myrkrið eins og þykkir múrar. En framundan, rétt framundan … hamingjan sanna!

Stígurinn flaut í gegnum myrkrið eins og frosin á og endaði við risastórt hlið, mitt í mikilfenglegum múrvegg sem hóf sig svo hátt að Filip sá ekki hvar hann endaði.

Tveir kyndlar brunnu í stjökum fyrir framan hliðið, sem var svo gríðarmikið að Filip leið eins og lús fyrir framan hlöðudyr.

Hvað í ósköpunum er þetta? hugsaði hann agndofa.

Næst hliðinu stóð hús, dauflega lýst af bláum eldi kyndlanna. Það var úr svörtu timbri og reykur liðaðist upp úr skökkum skorsteini.

Filip nálgaðist húsið varlega. Honum leið eins og hann ætti að vera hræddur, eins og hann ætti að óttast þennan ógnvekjandi stað, gerðan úr myrkri, bláum eldi og eilífð. En af einhverjum undarlegum ástæðum var hann ekkert hræddur. Bara … forvitinn.

Á miðri tvískiptri hurðinni var stór dyrahamar. Hann var í líki reiðs geithafurs með oddhvöss horn og stóreflis hring í nefinu. Hringurinn hvíldi á skítugri látúnsplötu sem var í laginu eins og höfuð gamals manns. Hvirfillinn var sléttur og sprunginn eftir margra ára bank. Þungar hrukkur héngu undir augunum, sem horfðu sorgmædd á Filip. Andlitið virtist næstum sárbæna hann um að berja ekki að dyrum.

Filip greip í hringinn og sló honum þrisvar í enni látúnshöfuðsins.

„Á, á, á!“ veinaði höfuðið og Filip hrökk skelkaður aftur á bak. „Þarftu að banka svona fast?“

„Fy … fyrirgefðu,“ muldraði Filip og starði steinhissa á gyllt höfuðið sem reyndi árangurslaust að blása á ennið á sér. „Ég vissi ekki að … ég er mjög leiður yfir þessu.“

„Leiður?“ endurtók höfuðið og horfði hissa á hann. „Sagðist þú vera leiður yfir þessu?“

„Öh, já,“ svaraði Filip, óviss um hvort hann hefði aftur gert eitthvað rangt.

Lítið tár myndaðist í öðrum augnkrók andlitsins og rann niður gyllta húðina. „Þetta er í fyrsta sinn í þau tæplega tvö þúsund ár sem ég hef hangið hér að ég hef heyrt þessi orð úr öðrum munni en mínum. Svo oft hef ég sagt að mér þætti það leitt, að ég iðraðist þess sem ég gerði. Þótt það væri alls ekki mér að kenna. Nei, það var hreint ekki mér að kenna. Ég sagði einmitt að mín skoðun væri sú að maðurinn væri ekki sekur um neinn glæp og ég bauð þeim meira að segja að láta hann lausan. En þau vildu ekki hlusta. Þau kröfðust þess að hann yrði dæmdur og þá neyddist ég til að dæma hann! Og nú er ég sjálfur fordæmdur. Ég verð að hanga hér og pínast um alla eilífð og það er enginn sem hlustar á mig, enginn sem vill heyra að það var ekki mér að ke … Á!“

Án þess að nokkur hefði snert hann hafði látúnshringurinn lyft sér og slegið manninn enn einu sinni í ennið.

„Þegiðu!“ skipaði geitin sem hékk yfir höfðinu. „Það blæðir úr eyrunum á mér við að heyra þessa eilífu kveinstafi.“

Allt í einu heyrðist þyngslalegt fótatak fyrir innan dyrnar og svo skerandi marr þegar ryðgaður hurðarhúnninn var þvingaður alla leið niður. Efri hluti hurðarinnar opnaðist og um leið og þessi undarlegi dyrahamar hvarf inn í húsið heyrði Filip látúnshöfuðið hvísla: „Takk fyrir orðin, drengurinn minn. Þau vermdu mitt gamla hjarta, sem ég hef ekki lengur.“

„Hver í heitasta sjóðbullandi Helvíti ber að dyrum svo snemma nætur?“ drundi hrjúf, djúp rödd og skelfileg vera kom í ljós efst í dyrunum. Filip greip andann á lofti. „Ég hélt, fjandinn hafi það, að ég ætti inni verðskuldaða frínótt!“

Skrímslið var næstum þrír metrar á hæð og minnti meira á eðlu en manneskju. Húðin var græn, hrukkótt og flögnuð og yfir logandi gulum augunum voru tvö sveigð horn, jafnlöng og handleggirnir á Filip og eins þykk og lærin á honum. Hökutoppurinn var svo snúinn að hann líktist boginni kló. Á öxlum skrímslisins hékk slitinn náttsloppur.

„Nú, er einhver hér?“ spurði skrímslið og leit í kringum sig. Hann horfði aldrei nógu lágt til að sjá Filip, sem náði honum ekki einu sinni í mjöðm. Hann leit á dyrahamarinn. „Voruð þið að rífast einu sinni enn? Ég er fjandakornið orðinn þreyttur á því að þurfa að fara á fætur, bara vegna þess að þið tveir getið ekki …“

„Ég er hér …“ sagði Filip varfærnislega.

Eðlulegi risinn leit niður og pírði augun.

„Einn?“ fnæsti hann og tveir gráir reykjarstrókar liðuðust úr breiðum nösunum. „Er ég rifinn upp úr mínu mjúka rúmi til að senda einn inn? Nú er ég svo aldeilis! Maður gæti haldið að það ætti að refsa mér! Augnablik.“ Risinn hvarf frá hurðinni og sneri aftur með geysistóra bók, bundna inn í eitthvað sem líktist ljósu leðri. Hann gjóaði gulum augunum á Filip á meðan hann opnaði bókina og fletti.

„Jarðvist þín hefur varla verið mjög löng.“ Klofin tunga bleytti flagnaða fingur sem flettu hverri síðunni á fætur annarri. „Hversu mörg ár?“

„Ég er þrettán.“

„Þrettán?“ muldraði skrímslið, greinilega hrifið. „Við fáum þá sjaldan svo unga. Þú hlýtur að hafa gert þig verulega óvinsælan snemma.“

„Hvað meinarðu?“ Filip hristi höfuðið, „Hvar er ég eiginlega staddur?“

„Hvar ertu staddur?“ Skrímslið lyfti annarri augabrúninni. „Ertu ekki búinn að reikna það út ennþá? O jæja, heimska og illska fara oft saman.“ Skakkt bros beraði hvassar tennur og hrjúf röddin varð að hvísli. „Þetta, drengur minn, er forgarður Helvítis. Og þarna,“ hann benti með boginni nögl á svarta hliðið, „er Helvíti.“

„Helvíti?“ hvíslaði Filip og sá atburðarásina fyrir sér í huganum. Köttinn sem talaði til hans. Þegar honum var hrint út á götuna. Fagnaðarhróp Illuga. Vælið í bremsunum. Bílinn með gamla manninn við stýrið. Og myrkrið sem tók við.

Draumur, hafði hann sagt, þegar hann stóð efst í langa, langa stiganum en innst inni vissi hann að það var ekki satt. Þetta var enginn draumur.

Ég varð fyrir bílnum, hugsaði hann. Ég varð fyrir bíl og ég dó. Ég dó og nú er ég í … í …

„Helvíti?“ sagði hann aftur, alveg ringlaður. Hvernig gat hann verið í Helvíti? Það var bara vont fólk sem lenti í Helvíti. Var það ekki? „Er ég í Helvíti?“

„Það þarf greinilega að endurtaka það þrisvar áður en það byrjar að síast inn,“ sagði demóninn og fletti áfram í bókinni. „Þú skalt ekkert vera að svekkja þig á því. Það eru margir sem þurfa að segja það miklu oftar áður en þeir átta sig. Ah, hér er þetta. Látum okkur nú sjá.“ Skrímslið dró hálfgleraugu í silfurumgjörð upp úr vasanum og setti þau á sig. Með aðstoð vísifingurs renndi demóninn hratt yfir síðuna.

„Sagði ég það ekki?“ hrópaði hann reiðilega og sló í bókina. „Það áttu ekki að koma fleiri í nótt. Ekki fyrr en eftir marga klukkutíma, þá kemur hópur af stjórnmálamönnum! Fjandinn hafi það!“ Veran hristi höfuðið í uppgjöf. „Nú, en fyrst þú ert hér og hefur hvort sem er eyðilagt frínóttina mína get ég alveg eins sent þig inn til refsingar þinnar strax. Hvað heitir þú strákur?“

Filip svaraði ekki, heldur starði bara mállaus á demóninn.

„Vaknaðu! Við höfum ekki alla nóttina. Eilífðin bíður. Nafnið þitt?“

Filip ræskti sig hnugginn. „Filip.“

„Filip, Filip, Filip,“ umlaði demóninn og blaðaði í bókinni, fram og til baka. Hann hrukkaði ennið. „Þetta er undarlegt. Hvað heitir þú meira en Filip?“

Filip stundi upp fullu nafni og demóninn blaðaði aftur í bókinni. Hrukkurnar í enninu dýpkuðu og gular neglurnar klóruðu í höfuðleðrið. Svo hristi hann höfuðið, dæsti og lokaði bókinni. „Þetta nafn er hvergi skráð.“ Einhver bjáni hefur klúðrað málunum, drengur minn. Þú átt alls ekki að fara hingað inn.“

„Er það ekki?“ endurtók Filip og fann hvernig heitur léttir breiddist um hann. Svo leit hann á blekþykkt myrkrið í kringum múrinn og léttirinn hvarf. „Hvað á ég þá að gera?“

„Þú verður að fara til baka, upp tröppurnar,“ svaraði demóninn og benti. Við endann finnur þú dyr. Þú ferð í gegnum þær og að öðrum tröppum með sjö þrepum. Þú ferð upp þær og þá lendirðu á réttum stað. Gangi þér vel, strákur.“ Demóninn geispaði og var við það að loka lúgunni.

„Ég reyndi að opna dyrnar,“ flýtti Filip sér að segja, „en þær voru læstar.“

„Læstar?“ Lúgan flaug upp aftur og Djöfullinn leit stóreygður á hann. Ertu viss?“

„Já.“

„Það skil ég ekki.“

„Nei, en þannig var það samt.“

„Þar fór í verra.“ Skrímslið hristi höfuðið og vætti varirnar með slöngutungunni. „Mistökin ná greinilega lengra en ég hélt í fyrstu. Ég verð að ná sambandi við stjórnina til að leysa málið! Satans vandræði. Hundrað tuttugu og tvö ár án einnar einustu villu. Sex ár í viðbót og ég hefði slegið metið! Þegar ég næ í þann sem á sök á þessari óreiðu ríf ég hornin af höfuðkúpunni á honum!“ Demóninn æsti sig óskaplega og þykkur svartur reykur rann úr nösunum á honum. Eins og ófreskjan brynni að innan. „Ég skal rífa af honum halann og berja hann með honum, svo hann geti aldrei …“

„Ég held ég fari aftur að tröppunum og bíði,“ sagði Filip varlega og steig aftur á bak.

Demóninn deplaði augunum og í stað reiðinnar kom milt og vingjarnlegt augnaráð. Augnablik líktist skrímslið næstum góðlegum gömlum frænda. Með mjög áberandi húðsjúkdóm.

„Ekki til að tala um,“ sagði hann og setti lesgleraugun í vasann. „Þótt þetta sé forgarður Helvítis erum við ekki ruddaleg við sálir sem eiga ekki skilið að vera hér. Þú getur beðið hérna hjá mér. Ég kann að meta félagsskap sem er í ástandi til samræðna og öskrar ekki bara. Komdu inn fyrir og vertu velkominn. Ég heiti Skuggaskeggur.“

Neðri lúgan í dyrunum opnaðist og Skuggaskeggur vék til hliðar. Filip hikaði eitt augnablik, leit inn í þétt myrkrið sem einkenndi þennan heim og þáði boðið.