1. kafli

Góð byrjun

„Filip!“

Filip hrökk við þegar hann heyrði einhvern hvísla. Hann rak sig í stærðfræðibókina sem skall í gólfið. Jörgen stærðfræðikennari gaf honum hornauga. Filip afsakaði sig og flýtti sér að taka bókina upp.

Satína? hugsaði hann og fann hjartað slá örar. Satína, ert þetta þú?

Ekkert svar. Svo var hvíslað aftur: „Filip!“

Hann áttaði sig á að röddin kom alls ekki úr huga hans heldur hvíslaði einhver fyrir aftan hann. Hann sneri sér við og sá að Sabrína reyndi að ná sambandi við hann. Hún benti á Núma sem sat aftast í bekknum. Filip gat ekki að því gert, hann varð svolítið svekktur. Augnablik hafði hann haldið … Þetta hafði hljómað alveg eins og hún …

Númi veifaði strokleðri sem Filip átti greinilega að grípa. Í sömu andrá kom strokleðrið fljúgandi og lenti með smelli í hægri lófa Filips. Síðasta hálfa árið hafði Filip farið mikið fram í ýmsu. Að grípa var merkilegt nokk eitt af því. Það var eins og hann hefði betri stjórn á höndunum.

„Hvað var þetta?“ Jörgen leit á Filip.

„Ekkert,“ svaraði hann og sýndi stærðfræðikennaranum hvað hann var með í hendinni. „Ég fékk bara lánað strokleður.“

„Hmm,“ rumdi Jörgen pirraður. „Næst skaltu fá lánað hjá sessunautnum í stað þess að trufla allan bekkinn. En fyrst þú ert búinn að ná athygli allra skaltu taka næsta dæmi.“

Filip setti upp afsakandi bros. „Ég er því miður ekki búinn að læra heima.“

Jörgen lyfti brúnum. „Aftur, Filip? Þetta er í annað sinn í þessum mánuði. Það er helmingi oftar en allt árið í fyrra. Mér finnst þetta ekki góð byrjun á áttunda bekk. Hvaða afsökun hefurðu í þetta sinn?“

„Ég gleymdi því.“ Það var lygi. Filip var líka orðinn betri í að ljúga. Hann hafði alveg munað eftir heimanáminu þegar Valdi kom og spurði hvort þeir ættu ekki að gera eitthvað. Mamma Filips hafði legið í rúminu með mígreni og sagt að það væri í lagi ef hann væri búinn að læra. Filip sagði að auðvitað væri hann búinn að því.

Jörgen hummaði aftur ergilega og gekk svo að næsta nemanda. Þegar Filip var viss um að stærðfræðikennarinn sæi ekki til dró hann lítinn miða úr gati sem var holað innan úr strokleðrinu.

Peruránsferð eftir skóla – ertu með? stóð á miðanum.

Enn annað sem hafði breyst. Fyrir bara hálfu ári hefði ekki hvarflað að Filip að segja já við svona tillögu. Fyrir utan að honum hefði aldrei verið boðið með. Ef miði hefði lent á borðinu hans hefði staðið eitthvað eins og: Er litli dúxinn búinn að gefa kennaranum epli í dag? eða Er kennarasleikjan ekki aum í tungunni?

En fyrir hálfu ári hafði Filip heldur ekki verið búinn að fara til Helvítis, þar sem Lúsífer – Satan sjálfur – reyndi að þjálfa hann í illsku. Já, síðan þá hafði margt breyst og í sumarfríinu hafði fyrrum fyrirmyndardrengurinn Filip Engils byrjað að eignast vini.

Ósjálfrátt nuddaði hann litlu kúlurnar tvær á enninu. Þær sem einu sinni – á öðrum tíma, í öðru lífi – höfðu verið horn. Þær voru allt sem eftir var af djöflinum sem Lúsífer hafði tekist að kalla fram.

Hann tók blýant úr pennaveskinu. Hikaði á meðan hann hlustaði eftir ákveðinni rödd í huga sínum. En hún skipti sér ekki heldur af í þetta sinn. Svar Filips var hans eigið.

Ég er með, skrifaði hann á miðann, tróð honum inn í strokleðrið og kastaði því aftur til Núma þegar Jörgen sá ekki til.

 

***

„Hvað? Buðuð þið Filip?“ Pirruð röddin barst innan úr stofunni. Filip var að koma af klósettinu í löngufrímínútunum. Hann stoppaði við dyrnar. Hlustaði.

Það var Marteinn sem talaði. Marteinn var sá eini í bekknum sem hafði einu sinni verið leikfélagi Filips. En vinátta þeirra endaði snarlega dag einn þegar þeir höfðu verið að spila fótbolta heima hjá Filip. Þá voru þeir í fimmta bekk. Marteinn hafði óvart sparkað bolta í eldhúsgluggann og brotið hann. Hann hafði grátbeðið Filip að segja að stórir strákar hefðu sparkað boltanum. En Filip laug ekki, aldrei nokkurn tíma, og síðan hataði Marteinn Filip eins og pestina. Óbeit hans hafði ekki minnkað við að hinir krakkarnir voru bæði farnir að vinna með Filip í skólanum og spyrja eftir honum.

„Já,“ svaraði Númi. „Hvað með það?“

„Hvað með það? Þetta er Filip, fjandinn hafi það. Litli englabossinn hennar mömmu sinnar! Ætlið þið virkilega að drösla honum með?“

„Láttu ekki svona, Marteinn.“ Þetta var rödd Valda. „Filip hefur breyst. Hann er ekki svona … svona …“ Hann hikaði í leit að rétta orðinu, „væminn lengur. Og svo er hann fjári flinkur að klifra í trjám.“

„Hann er heimsk lítil klöguskjóða! Og ekkert annað!“

Númi hló. „Ertu enn fúll yfir þessu með eldhúsgluggann? Var það ekki í fimmta bekk eða eitthvað?“

„Það skiptir engu hvenær það var. Hann klagaði, Númi. Hann klagaði!

Það var reyndar ekki alveg rétt. Filip hafði ekki klagað. Hann hafði bara sagt sannleikann þegar hann var spurður.

„Og hann ætlar örugglega að klaga aftur,“ hélt Marteinn áfram. „Þess vegna vill hann vera með.“ Þá getur hann þrammað að dyrunum og hringt bjöllunni þegar þið eruð með vasana fulla af perum.“

Filip fékk hroll þegar hann hugsaði til þess að í Helvíti hafði hann reyndar gert eitthvað svipað. Þar hafði hann truflað tvo djöfladrengi, Aziel og Fluks, í miðju eplaráni. Það hafði verið slæm byrjun á dvöl hans í myrkrinu. Aziel hefndi sín með því að hlekkja Filip við hina fordæmdu og það hafði næstum kostað Filip framhaldslífið.

„Auðvitað gerir hann það ekki,“ sagði Valdi þreytulega. Hann var greinilega orðinn leiður á mótbárum Marteins. „Hvers vegna ætti hann að gera það?“

„Ertu ekki að hlusta? Vegna þess að hann er ennþá litli englabossinn hennar mömmu sinnar. Og ef englabossinn kemur með, þá verð ég eftir.“

„Jæja. Þú ræður því.“

Filip heyrði næstum hvernig Marteinn varð orðlaus. „Ha?“

„Ég sagði að þú réðir því. Við erum búnir að bjóða Filip með og hann sagði já. Svo Filip kemur með. Hvort sem þú kemur eða ekki.“

„Fínt!“ urraði Marteinn. „Munið bara að ég varaði ykkur við!“

Frammi á ganginum reyndi Filip að kæfa hláturinn. Það gat verið að Jörgen fyndist hann byrja áttunda bekkinn illa en Filip sjálfum fannst hann fara virkilega vel af stað.

 

 

 

2. kafli

Sá góði, sá vondi, sá grimmi

Eftir síðasta tímann fóru drengirnir fjórir úr stofunni og niður í hjólageymsluna. Marteinn þagði en Filip sá hvernig hann gjóaði augunum á hann af og til. Og Filip sá ekki betur en það vottaði fyrir brosi á vörum Marteins. Honum missást ekki, Marteinn glotti. Varirnar hreyfðust samt ekki, glottið var aðeins í augunum. Lítill dökkur glampi sem óþjálfað auga hefði ekki komið auga á. Filip var bara ekki hver sem er. Hann hafði verið lærlingur Djöfulsins og þetta blik hafði hann oft séð áður. Meðal annars í sínu eigin augnaráði þegar illskuþjálfun hans var nærri lokið og augu hans voru orðin bleksvört. Marteinn brosti innra með sér og brosið var eitrað.

En hvers vegna?

Svarið við spurningunni leyndist í rökkri hjólageymslunnar.

Dekkin á hjóli Filips voru loftlaus.

„Fjandinn hafi það, maður,“ Númi leit í kringum sig og athugaði hvort hleypt hefði verið úr dekkjum fleiri hjóla en svo var ekki. „Og bæði dekkin!“

Marteinn sagði ekkert en Filip fann hvernig glottið í augum hans læddist hægt niður á varirnar á meðan hann opnaði lásinn á hjólinu sínu.

„Glatað!“ sagði Valdi og hristi höfuðið. „Hver getur hafa gert þetta?“

„Já, hver gæti það hafa verið?“ endurtók Filip og sneri sér að Marteini.

„Hvað?“ Marteinn gnísti tönnum. „Hvers vegna horfirðu á mig?“

„Já, hvers vegna ætli ég geri það?“

„Já, hvers vegna ætli ég geri það?“ apaði Marteinn eftir. Hann lagði frá sér hjólið. „Hvað ertu að reyna að segja, Filip? Að ég hafi gert þetta? Heldurðu að ég hafi sprengt dekkin á hjólinu þínu?“

„Nei, ég held það ekkert. Ég veit það.“

Marteinn stífnaði og reiðin lýsti af honum. Þar ólgaði líka önnur tilfinning sem Filip þekkti allt of vel: Ótti. Marteinn var hræddur. Ekki við Filip heldur óttaðist hann að Filip hefði sannanir. „Og hvernig þykist þú vita það?“

„Er þetta satt, Marteinn?“ spurði Númi. Filip heyrði að hann var næstum sannfærður. „Gerðir þú þetta?“

„Hvern fjandann haldiði? Auðvitað ekki. Hann segir þetta bara svo að þið …“

„Sýndu okkur hendurnar,“ greip Filip fram í.

„Ha?“ Marteinn glápti ringlaður á hann og flýtti sér að stinga höndunum aftur fyrir bak. „Af hverju?“

„Sýndu okkur hendurnar. Ég held nefnilega að þú hafir gleymt að þvo þér.“ Hann hélt reyndar ekkert um það, hann vissi það, þótt hann hefði ekki hugmynd um hvernig. Marteinn fölnaði og Filip brosti enn breiðar. „Ég held að þær séu skítugar eftir að þú fiktaðir í dekkjunum á hjólinu mínu.“

„Gerðu eins og hann segir, Marteinn,“ tók Valdi undir. „Sýndu okkur hendurnar.“

„Ekki séns! Ég er búinn að segja ykkur að ég gerði þetta ekki.“

„Gefstu bara upp, Marteinn,“ sagði Filip. „Þú varst ekki á klósettinu í síðasta tíma. Þú varst hérna niðri að hleypa loftinu úr dekkjunum á hjólinu mínu. Ástæðan? Þú ert reiður yfir því að mér var boðið með í peruránsferðina. Vissirðu annars að reiði er höfuðsynd?“

„Hvað áttu við – höfuðsynd? Á þetta að vera hótun? Ertu að hóta mér, Filip? Ha? Er það?“ Marteinn fleygði frá sér töskunni og stikaði að honum með hnefana á lofti.

Filip hristi höfuðið. „Nei, ég vildi bara segja þér að reiði er höfuðsynd og þeim sem drýgja höfuðsyndir er refsað í Helvíti.“

Marteini brá við þessi harkalegu orð og lét hnefana síga.

„Kannski sleppurðu betur ef þú játar.“

„Ég játa ekki rassgat.“ Marteinn gekk alveg upp að Filip og ýtti við honum. Ekkert sérlega fast, þetta var bara ögrun. „Og þú skalt ekki hóta mér!“

Bæði Númi og Valdi báðu hann að hætta en Marteinn hunsaði þá. Hann starði beint á Filip og augun loguðu af heift. „Heyrirðu það, litla klöguskjóða? Þú skalt ekki hóta mér!“

Filip stóð kyrr.

„Jæja þá! Komdu bara skræfan þín! Heldurðu að ég hafi hleypt úr hjólinu þínu. Og hvað ætlarðu að gera í því? Ha? Hvað ætlarðu að gera?“ Hann ýtti aftur. Og aftur. Og aftur. Filip haggaðist ekki. „Ó já, auðvitað, nú veit ég. Ætlarðu að flýta þér heim til mööömmu? Ó nei, ég gleymdi. Litli fyrirmyndardrengurinn getur ekki flýtt sér heim. Hjólið hans er loftlaust.“

Marteinn hélt áfram að ýta við honum. Hann reyndi sitt besta til að ögra Filip svo hann myndi taka á móti og hefja þannig slagsmálin sem Marteinn þráði. En Filip hamdi sig. Hann var enginn slagsmálahundur. Samt dauðlangaði hann að dúndra hnefanum beint í smettið á Marteini. Það hefði ekki þurft meira en eitt orð. Bara eitt orð.

Hvar ertu, Satína? hugsaði hann.

Kunnugleg vera birtist fyrir aftan Martein. Hún leið hljóðlega innan úr skuggum hjólageymslunnar eins og kolsvartur draugur og Filip sá útundan sér hvernig Valdi og Númi fölnuðu. Þeir hopuðu þar til þeir rákust á hjólagrindurnar. Marteinn tók ekki eftir neinu en hélt bara áfram að ýta í Filip.

„Ég myndi hætta núna ef ég væri þú,“ sagði Filip lágt.

„Annars hvað?“ Marteinn ýtti. „Fer ég kannski til helvítis?“

„Nákvæmlega,“ sagði veran fyrir aftan hann.

Marteinn sneri sér snöggt við og starði beint í brosandi andlit Illuga djöfuls. Stóri drengurinn úr tíunda bekk greip Martein og dró hann svo þétt að sér að nef þeirra snertust næstum. „Velkominn!“

Marteini tókst ekki að bæla niður lítið hræðslukvein. Hann reyndi að losa sig úr greipum Illuga en það var tilgangslaust. Ef maður hafnaði í klóm Illuga djöfuls var útlitið álíka gott og hjá maðki á öngli.

Hrokkinhærði drengurinn í svarta leðurjakkanum leit á Filip. „Er í lagi með þig?“

Hann kinkaði kolli. „Já, allt í fína.“

„Þa-þarna sé-sérðu,“ stamaði Marteinn. Föl húðin glansaði af svita. „Þa-það er í lagi me-me-með ha-hann. Ég ge-gerði honum ekk …“

„Haltu kjafti!“ sagði Illugi og orð Marteins urðu að hálfkæfðu kveini. „Ég sá hvað þú gerðir, þú litli fordæmdi. Það abbast enginn upp á Filip vin minn. Skilurðu það? Enginn!“

Filip vinur minn. Orðin hljómuðu mjög undarlega í eyrum Filips. Hann hafði ekki enn vanist því að Illugi djöfull áliti sig vin hans. En það hafði Illugi gert síðan í vor þegar hann hafði orðið valdur að því að Filip lenti fyrir bíl. Síðan var þessi stóri fantur gerbreyttur. Að minnsta kosti gagnvart Filip vini sínum sem hann hafði tekið undir sinn verndarvæng. Á skólalóðinni og í hjólageymslunni hélt djöfullinn úr tíunda bekk áfram að skelfa jafnt nemendur sem kennara.

„Ekki meiða mig,“ grátbað Marteinn og spennti greipar eins og í bæn. „Gerðu það, slepptu mér.“

„Sleppa þér?“ endurtók Illugi glaðlegri röddu sem gerði hann sérlega óhugnanlegan. „Að sjálfsögðu. Við þurfum bara rétt að skreppa niður að ánni fyrst. Svo skal ég sleppa þér. Meira að segja mörgum sinnum. Nema þú kunnir ekki að synda. Þá verður það sennilega bara einu sinni.“

„Þetta var bara grín!“ Marteinn spriklaði og reyndi að losa sig. „Þetta var ekki í alvöru! Þetta var bara grín, segðu honum það, Filip. Láttu ekki svona, segðu honum það!“

Kannski hefði hann átt að segja eitthvað. Þá hefði Marteinn losnað við dýfur í ána og jafnvel eitthvað enn verra. Á hinn bóginn var Filip, að sögn Marteins, lítill englabossi. Og englabossar ljúga ekki. Var það nokkuð?

Örvæntingaróp Marteins urðu að hvellu bergmáli þegar Illugi dröslaði honum upp úr hjólageymslunni áleiðis til refsingarinnar.


 

3. kafli

Í návist dauðans

„Þú hafðir rétt fyrir þér, Filip,“ sagði Númi, þegar drengirnir þrír yfirgáfu hjólageymsluna og lögðu af stað í átt að perutrjánum. „Ég sá hendurnar á honum þegar Illugi dró hann af stað. Þær voru óhreinar.“

„Spáið í það, hann tæmdi dekkin á hjólinu þínu.“ Valdi hristi höfuðið. „Ég veit að þið voruð engir sérstakir vinir en samt … Þetta er einum of lélegt.“

Númi var sammála. „Ég hefði aldrei trúað að ég ætti eftir að segja þetta en það var gott að Illugi kom einmitt þarna. Þótt ég hafi verið alveg að skíta á mig af hræðslu.“

„Alveg að?“ Valdi veifaði hendinni fyrir framan nefið. „Láttu ekki svona. Við finnum allir lyktina.“

Númi hló og danglaði í hann. „Segir hver!“ Ég sá alveg hvernig þú … Hei, Filip, passaðu þig!“

Filip fann hönd grípa um öxlina á sér og kippa sér aftur á bak. Um leið heyrðist hátt flaut og bíll þaut hjá, svo nálægt að hárið á honum þeyttist aftur. Hliðarspegillinn reif rennilásinn af opnum jakkanum með háum smelli.

Bíllinn hvarf niður götuna. Í gegnum afturrúðuna sá Filip bílstjórann steyta hnefann.

„Ertu bilaður, þetta var tæpt! Er allt í lagi með þig?“ spurði Valdi áhyggjufullur. Filip gat ekki svarað strax. Hjartað sat fast lengst uppi í koki og lokaði á orðin. Eitt skref enn … Eitt skref og hann hefði gengið beint í veg fyrir bílinn.

„Ég er í lagi,“ sagði hann og starði á ónýtan rennilásinn. „Ég slapp.“

„En passaðu þig næst,“ sagði Númi. „Við nennum sko ekki að bera þig heim til mömmu þinnar í líkkistu.“

„Líkkistu?“ Valdi hristi höfuðið hlæjandi. „Ef bíllinn hefði lent á þér hefðirðu komist fyrir í sultukrukku. Þú hefðir slest út um allt.“

„Sjáðu nú hvernig maður gerir, Filip. Þetta er alls ekki flókið.“ Númi leit upp og niður götuna. „Fyrst lítur maður til hægri. Svo til vinstri. Og ef það er enginn bíll á leiðinni, þá fer maður yfir.“

„Haltu þér saman,“ sagði Filip brosandi. Þeir gengu yfir götuna og Valdi og Númi fóru aftur að tala um Martein. Þeir reyndu að reikna út nákvæmlega hvenær Illugi myndi henda honum í ána. Eins og áður hlustaði Filip bara með öðru eyranu. Hugur hans reikaði aftur að því sem hafði átt alla hans athygli þegar hann hafði næstum ætt í veg fyrir bílinn.

Satínu.

Það var orðið langt síðan hann hafði heyrt í henni. Eða réttara sagt heyrt rödd hennar. Satína var ekki mennsk, hún var freistari – freistingadjöfull. Þau gátu ekki talað almennilega saman vegna þess að lífið aðskildi þau. Þegar Satína heimsótti hann var hún aðeins rödd í höfðinu á honum. Lokkandi hugsun sem reyndi að freista hans til að gera hluti sem hann ætti að láta vera. Í dag höfðu verið fjölmörg tækifæri fyrir hana. Filip var viss um að ef hún hefði skipt sér af í hjólageymslunni hefði hann látið undan og gefið Marteini einn á kjammann. En Satína hafði ekki látið í sér heyra. Ekki einu sinni þegar miðinn um peruránsferðina lenti á borðinu hans. Þess þurfti heldur ekki; Filip hefði hvort sem er sagt já.

Þegar Filip var nýkominn frá Helvíti heimsótti Satína hann oft og hann hafði stundum látið undan lokkandi freistingum hennar. Einn daginn þegar Marteinn var sérlega leiðinlegur við hann hafði hún til dæmis talið hann á að taka stóru köngulóna úr búrinu sem stóð í bekkjarstofunni og setja hana í pennaveskið hans Marteins. Marteinn hafði öskrað eins og smábarn þegar köngulóin skreið upp á höndina á honum þegar hann ætlaði að ná í blýant. Þá hlakkaði í Filip.

Hann lét síður en svo tilleiðast í hvert skipti. Það átti eiginlega ekki við hann að haga sér svona. Kannski hafði hún ekki látið heyra í sér svona lengi af því Filip hlustaði svo sjaldan á hana.

Skrölthljóð truflaði hugsanir Filips og hann leit upp. Þeir voru á leiðinni úr miðbænum í átt að einbýlishúsahverfinu sem lá á milli blokkanna og akranna. Þegar hann sá það sem stóð neðar í götunni snarstoppaði hann og fann hvernig hálsinn herptist saman.

Rétt fyrir framan þá, varla meira en þrjátíu metra frá þeim, stóð eitthvað sem átti betur heima í martröð. Fyrirbærið líktist mest vansköpuðum hesti; með þrjá fætur og magurt eins og gamalt hræ. Eiturgul húðin var svo strekkt á beinunum að hún var næstum gegnsæ. Grátt faxið flaksaðist eins og ónýtur köngulóarvefur í síðsumarsgolunni. Ófreskjan starði beint á Filip. Svo kom hún nær.

Filip var of hræddur til að koma upp orði svo hann greip fast í Núma sem gekk við hliðina á honum.

„Á! Slepptu, Filip, þú meiðir mig! Hvað ertu að gera?“

Filip lyfti titrandi fingri og benti á þrífætta hestinn sem nálgaðist þá frýsandi. Þrátt fyrir fjarlægðina sá hann augun sem lágu djúpt í afmyndaðri höfuðkúpunni. Þau voru rauð sem blóð og frystu sál hans.

„Sjáðu!“ sagði hann með rödd sem skalf jafnmikið og fingurinn.

„Hvað á ég að sjá?“ spurði Valdi og leit í áttina sem Filip benti. „Hvað er að?“

Filip leit skelkaður á hann. „Sérðu hann ekki?“

„Um hvað ertu að tala? Áttu við hestinn?“

„Já!“

„Og hvað með hann?“ Númi hristi höfuðið eins og hann skildi ekki hvað gengi að Filip. „Hvað er að hestinum?“

„Hvað meinarðu? Sérðu ekki að hann …“ Filip leit aftur á hræðilegu ófreskjuna og röddin brast.

Ófreskjan var horfin. Fyrir framan þá stóð ósköp venjulegur brúnn hestur. Á baki hans sat lítil stelpa í reiðstígvélum og með hjálm á höfði. Hún rykkti í tauminn og reyndi að fá hestinn til að hlýða. Hesturinn frýsaði einu sinni og gerði svo það sem stelpan vildi. Hann beygði til hægri og hvarf niður lítinn stíg bak við einbýlishúsin.

„Hvað er í gangi, Filip? Það er eins og þú hafir orðið vitni að morði.“ Númi hló. „Ég vissi ekki að það væri hægt að vera svona hræddur við hesta.“

„Ég … ég er ekkert hræddur við hesta. Mér sýndist bara … hann leit út eins og …“ Hann hristi höfuðið, skildi ekki neitt. Hafði hann ímyndað sér þetta? Hesturinn hafði staðið þarna rétt hjá. Og hann hafði verið svo raunverulegur. Var það ekki? „Mér … mér brá bara. Ég er ekki vanur að sjá hesta í miðjum bænum.“

Valdi kinkaði kolli í áttina sem stelpan og hesturinn fóru. „Reiðskólinn er á bak við húsin þarna. Vissirðu það ekki?“

Filip opnaði munninn til að svara en náði ekki lengra. Hjartað missti úr tvö slög þegar eitthvað straukst við höfuðið á honum og ofsafenginn hávaði fylgdi fast á eftir.

Hann leit niður. Á gangstéttarhellunni fyrir framan hann var moldarhrúga, laufblöð og blómapottur í molum.

„Shit, maður!“ hvíslaði Valdi ákafur. Brot úr pottinum stóð upp úr moldarhaugnum eins og legsteinn. Hann talaði sérstaklega hægt, eins og til að leggja áherslu á hvert orð. „Þarna … varst … þú … heppinn … fjandinn … hafi … það …“

„Ef hann hefði lent á þér, Filip …“

Filip leit upp. Þeir voru við blokkina sem stóð næst einbýlishúsahverfinu. Í glugga á fjórðu hæð sat grár köttur og horfði á þá. Það hlaut að hafa verið hann sem rak sig í pottinn. Hálfur metri í viðbót og Filip hefði fengið hann beint í höfuðið.

Valdi beygði sig niður og tók upp eitt af brotunum. Það sem líktist legsteini.

„Kattarræksni!“ hrópaði hann og dúndraði brotinu í áttina að kettinum. Það lenti á gluggakarminum, kötturinn kveinaði og hvarf.

„Drífum okkur áður hann kemur með sjónvarpið og hendir því í okkur,“ sagði Númi. „Mig er farið að langa í perur.“

„Ég veit svei mér ekki hvort ég þori að verða samferða þér lengur, Filip,“ sagði Valdi. Fyrst bíllinn og svo þetta. Það er næstum eins og þú dragir að þér óhöppin.

„Mér heyrðist þú segja rétt áðan að ég væri heppinn,“ sagði Filip.

„Einmitt. Og það þýðir að það séu enn meiri líkur á því að annar okkar hinna lendi í einhverju næst.“

Þeir héldu áfram að tala um það sem hafði gerst og samtalið þróaðist yfir í blóðugar vangaveltur um það sem hefði komið fyrir Filip ef blómapotturinn hefði lent á honum. Valdi var viss um að höfuðið á honum hefði keyrst niður á milli herðablaðanna en Númi var ákveðinn í að heilaslettur hefðu sprautast út um eyrun.

Fljótlega komu drengirnir að fremsta einbýlishúsinu. Þar héngu safaríkar perur yfir limgerðið, á milli grænna laufblaðanna.

„Þær bestu í bænum,“ sagði Númi þegar þeir lögðu frá sér hjólin. „Þær hanga hátt uppi og sá sem býr hérna er uppstökkur eins og gömul geit svo við verðum að gæta okkar. Þarna komumst við í gegnum limgerðið. Einn klifrar og tveir standa vörð.“ Hann rétti fram poka. „Hver tekur tréð?“

Þú yrðir stolt af mér, Satína, hugsaði Filip og hrifsaði pokann. „Ég skal.“

Þar sem limgerðið mætti girðingu nágrannans var lítið op og drengirnir þrír laumuðust inn í garðinn. Númi og Valdi urðu eftir við opið en Filip læddist að perutrénu. Það var hátt upp á fyrstu greinina og hann varð að gera nokkrar tilraunir áður en honum tókst að ná taki á henni. Hann hífði sig upp og spyrnti í stofninn til að komast alla leið.

Númi hafði rétt fyrir sér, það var ekki auðvelt að komast að perunum. Þær sátu bæði hátt og mjög utarlega á greinunum. Filip klifraði hærra og mjakaði sér út á eina greinina sem var þykk og traust og bar hann auðveldlega. Hann tíndi perurnar sem hann náði til og pokinn fylltist fljótt. Það var pláss ennþá fyrir fleiri. Hann klifraði aðeins lengra út á greinina og teygði sig eftir ystu perunum. Náði þeim næstum. Bara aðeins lengra …

Golan bærði blöðin svo himinninn kom í ljós og …

Og beint framundan, fyrir ofan þökin, meðal skýjanna, sá hann hestinn. Hann stökk á himninum og æddi beint í áttina að Filip á horuðu fótunum sínum þremur, eiturgulur og andstyggilegur eins og sjúkdómur. Skepnan hneggjaði og hljóðið var skelfilegt. Eins og samofið öskur úr hræðslu og sársauka. Rauð augun skutu gneistum og Filip, fullur af ærandi skelfingu, opnaði munninn til að ösk …

Honum skrikaði fótur, hann missti jafnvægið og rann til hliðar. Perupokinn datt úr höndunum á honum. Hann baðaði út höndunum og náði taki á greininni á síðustu stundu og ríghélt sér í hana. Fyrir neðan hann heyrðist hátt brothljóð.

Hann leit aftur til himins og átti von á að sjá hryllilega skepnuna koma æðandi. Þar var ekkert að sjá. Aðeins stórt ský, sem gat með góðum vilja líkst þrífættu dýri.

En hann hafði séð veruna svo greinilega! Hafði meira að segja heyrt hana hneggja eða hafði það líka verið ímyndun?

Filip leit niður. Greinin sem hann hafði klifrað út á slútti yfir gróðurhús. Perupokinn hafði lent á glerinu og brotið það í þúsund mola.

Ég hefði getað dáið, hugsaði hann og starði niður á glerbrotin og perurnar sem lágu klesstar á flísalögðu gólfinu. Bílnum og blómapottinum brá fyrir í huga hans. Aftur. Hver fjárinn gengur á?

Þetta var í þriðja sinn sem hann fann kaldan andardrátt dauðans á hnakkanum. Kannski ætti hann bara að hætta við þetta og drífa sig heim áður en … áður en eitthvað fleira gerðist.

Uppi á himninum liðu skýin rólega hjá. Nú líktust þau bara skýjum.

Viðvörunaróp reif hann upp úr hugsunum sínum: „Filip! Filip, flýttu þér niður! Hann kemur! Hann kemur!“