Ágúst 1986

1

park

 

Hljómsveitin XTC dugði ekki til að drekkja hávaðanum frá hálfvitunum aftast í rútunni.

Park þrýsti heyrnartólunum inn í eyrun.

Á morgun ætlaði hann að koma með Skinny Puppy eða The Misfits. Hann gæti líka búið sér til sérstaka rútukassettu með öllum mögulegum öskrum og kveinum.

Svo gæti hann skipt aftur yfir í nýbylgjuna í nóvember þegar hann fengi bílprófið. Foreldrar hans höfðu lofað að hann mætti eiga gömlu Impöluna hennar mömmu og hann var búinn að vera að safna sér fyrir nýjum græjum með kassettutæki. Þegar hann færi að keyra í skólann gæti hann hlustað á hvað sem hann vildi eða bara ekki neitt, fyrir utan að hann gæti sofið tuttugu mínútum lengur.

„Það er ekki til!“ hrópaði einhver fyrir aftan hann.

„Andskotans, víst!“ hrópaði Steve á móti. „Drunken Monkey-bragðið, maður, það er andskotans til í alvörunni. Maður getur drepið með því …“

„Þú röflar tóma steypu.“

Þú röflar tóma steypu,“ sagði Steve. „Park! Hey, Park.“

Park heyrði í honum en svaraði ekki. Stundum virkaði að hunsa Steve og þá sneri hann sér að öðrum. Þetta var áttatíu prósent af því sem maður þurfti að vita til að lifa það af að búa við hliðina á Steve. Tuttugu prósent fólust einfaldlega í því að láta lítið fyrir sér fara …

Sem Park hafði gleymt. Bréfkúla lenti í hnakkanum á honum.

„Þetta voru glósurnar mínar úr Vöxtur og þroski mannsins, fæðingarhálfvitinn þinn,“ sagði Tína.

„Sorrí beibí,“ sagði Steve. „Ég skal kenna þér allt um vöxt og þroska mannsins – hvað þarftu að vita?“

„Kenndu henni Drunken Monkey,“ sagði einhver.

„PARK!“ öskraði Steve.

Park tók niður heyrnartólin og sneri sér að Steve sem drottnaði yfir hirðinni í öftustu sætaröðinni. Jafnvel þótt Steve sæti náði höfuð hans næstum upp undir loft. Það var eins og hann væri alltaf umkringdur dúkkuhúsgögnum. Hann hafði virst fullorðinn síðan í sjöunda bekk og það var áður en hann lét sér vaxa alskegg. Rétt áður.

Stundum velti Park því fyrir sér hvort Steve væri með Tínu af því að við hlið hennar minnti hann enn meira á skrímsli. Flestar stelpur úr Flötunum voru smávaxnar en Tína náði varla einum og hálfum metra. Að meðtöldu fyrirferðarmiklu hárinu.

Einu sinni, þegar þau voru yngri, hafði einhver reynt að stríða Steve á því að hann mætti ekki gera Tínu ólétta vegna þess að hún gæti dáið við að fæða af sér risabörnin hans. „Þau myndu sprengja sér leið út úr maganum á henni eins og skrímslið í Aliens,“ hafði strákurinn sagt. Steve braut litla fingurinn á sér á andliti hans.

Þegar pabbi Parks heyrði þetta hafði hann sagt: „Einhver ætti að kenna Murphy-stráknum að kreppa hnefann.“ Park hafði hins vegar vonað að það myndi enginn gera, strákurinn sem Steve kýldi hafði ekki getað opnað augun í heila viku.

Park henti heimaverkefnisbréfkúlunni til Tínu, sem greip.

„Park,“ sagði Steve, „segðu Mikey frá Drunken Monkey-karate.“

„Ég veit ekkert um það.“ Park yppti öxlum.

„En það er til, er það ekki?“

„Ég held að ég hafi heyrt um það.“

„Sko!“ sagði Steve. Hann leitaði að einhverju til að henda í Mikey en fann ekki neitt. Hann benti í staðinn. „Ég sagði þér það, andskotinn hafi það.“

„Hvað í andskotanum veit Sheridan um kung fu?“ sagði Mikey.

„Ertu þroskaheftur?“ sagði Steve. „Mamma hans er kínversk.“

Mikey leit íhugandi á Park. Park brosti og pírði augun. „Jú, ég sé það,“ sagði Mikey. „Ég hélt alltaf að þú værir mexíkóskur.“

„Andskotinn, Mikey,“ sagði Steve, „þú ert svo djöfull mikill rasisti.“

„Hún er ekki kínversk,“ sagði Tína. „Hún er frá Kóreu.“

„Ha, hver?“ spurði Steve.

„Mamma Parks.“

Mamma Parks hafði klippt hárið á Tínu síðan í barnaskóla. Þær voru með nákvæmlega eins hár: sítt slöngulokkapermanent með úfnum tjásulegum toppi.

„Hún er drulluflott, það er það sem hún er,“ sagði Steve og hló hátt að eigin fyndni. „Ekki illa meint, Park.“

Park kreisti fram annað bros og sökkti sér aftur niður í sætið, setti upp heyrnartólin og hækkaði í botn. Hann heyrði samt í Steve og Mikey fjórum sætaröðum aftar.

„En til hvers í andskotanum?“ spurði Mikey.

„Gaur, myndir þú vilja slást við fullan apa? Þeir eru risastórir. Eins og í Every Which Way But Loose, maður. Pældu, ef sá andskoti missti sig.“

Park tók eftir nýju stelpunni á sama tíma og allir aðrir. Hún stóð fremst í rútunni, við fyrsta auða sætið.

Þar sat nýnemi, einn í sætaröð. Hann skellti töskunni í auða sætið við hlið sér og leit undan. Allir sem sátu einir færðu sig út að enda sætisins. Park heyrði að það hlakkaði í Tínu; hún lifði fyrir svona lagað.

Nýja stelpan dró djúpt andann og gekk inn eftir ganginum. Enginn virti hana viðlits. Park reyndi að gera slíkt hið sama en þetta var eins og yfirvofandi stórslys.

Stelpan leit út fyrir að vera einmitt manneskja sem lenti í svona hlutum.

Ekki bara ný – heldur stór og klunnaleg. Með brjálað hár, ekki bara eldrautt heldur líka krullað. Og hún var klædd eins og … eins og hún vildi að fólk tæki eftir henni. Eða kannski fattaði hún ekki hvað hún var glötuð. Hún var í köflóttri karlmannsskyrtu með fullt af skrítnum hálsmenum um hálsinn og klúta vafða um úlnliðina. Hún minnti Park á fuglahræðu eða eina af áhyggjudúkkunum sem mamma hans geymdi á kommóðunni sinni. Eins og eitthvað sem hefur enga möguleika á að lifa af.

Rútan stöðvaðist aftur og fleiri krakkar komu inn. Þeir ruddust harkalega fram hjá stelpunni og hentu sér í sætin sín.

Það var nefnilega málið – allir í rútunni áttu sitt sæti. Þau höfðu öll gert tilkall til sætis fyrsta skóladaginn. Þau sem voru jafnheppin og Park og höfðu sætaröðina út af fyrir sig voru ekki tilbúin að gefa það upp á bátinn. Allra síst fyrir einhvern svona útlítandi.

Park leit aftur á stelpuna. Hún stóð bara hreyfingarlaus.

„Hey, þú,“ öskraði bílstjórinn, „sestu niður!“

Stelpan fikraði sig aftar í rútuna. Nær gini ljónsins. Nei, hugsaði Park, stoppaðu. Snúðu við. Hann fann hvernig Steve og Mikey biðu í ofvæni eftir að hún nálgaðist. Hann reyndi aftur að líta undan.

Þá rak stelpan augun í laust sæti hinum megin gangsins við Park. Það lifnaði yfir henni og hún flýtti sér þangað.

„Hey,“ sagði Tína hvasst.

Stelpan hélt áfram.

„Hey,“ sagði Tína, „trúður.“

Steve fór að hlæja. Vinirnir tóku undir andartaki síðar.

„Þú mátt ekki setjast þarna,“ sagði Tína. „Mikayla á þetta sæti.“

Stelpan nam staðar og leit á Tínu, síðan aftur á auða sætið.

„Sestu,“ gargaði bílstjórinn úr framsætinu.

„Ég verð að setjast einhvers staðar,“ sagði stelpan við Tínu, ákveðið og yfirvegað.

„Ekki mitt mál,“ hreytti Tína út úr sér.

Rútan rykktist til og stelpan tók skref aftur á bak til að detta ekki. Park reyndi að hækka í vasadiskóinu sínu en það var þegar í botni. Hann leit aftur á stelpuna; hún virtist vera að fara að gráta.

Áður en hann hafði svo mikið sem ákveðið það færði Park sig yfir í gluggasætið.

„Sestu,“ sagði hann. Það hljómaði reiðilega. Stelpan sneri sér að honum eins og hún væri ekki viss um hvort hann væri enn eitt fíflið. „Andskotinn hafi það,“ sagði Park lágt og kinkaði kolli í átt að auða sætinu, „sestu bara niður.“

Stelpan settist. Hún sagði ekkert – Guði sé lof að hún þakkaði honum ekki fyrir – og hún skildi eftir fimmtán sentímetra af sæti á milli þeirra.

Park sneri sér að plexíglersrúðunni og beið eftir að allt yrði vitlaust.

 

 

2

eleanor

 

Eleanor íhugaði stöðuna:

  1. Hún gæti gengið heim úr skólanum. Kostir: Hreyfing, smá litur í kinnarnar, hún fengi tíma ein með sjálfri sér. Gallar: Hún vissi ekki nýja heimilisfangið sitt, hvað þá í hvaða átt hún ætti að ganga.
  2. Hún gæti hringt í mömmu og beðið um far. Kostir: Margir. Gallar: Mamma átti ekki síma. Hvað þá bíl.
  3. Hún gæti hringt í pabba. Einmitt.
  4. Hún gæti hringt í ömmu. Bara til að segja hæ.

Hún sat á steinsteyptum þrepunum fyrir framan skólann og starði á röð af gulum skólarútum. Þarna var rútan hennar. Númer 666.

Jafnvel þótt Eleanor gæti komið sér hjá því að taka rútuna í dag, jafnvel þótt álfadísin góða birtist með graskersvagn, yrði hún samt að komast aftur í skólann á morgun.

Það var ekkert sem benti til þess að djöflabörnin í rútunni myndu fara réttum megin fram úr á morgun. Í alvörunni. Það kæmi Eleanor ekki á óvart þótt þau færu úr kjálkaliðnum næst þegar þau sæju hana. Ljóshærða stelpan þarna aftast í snjóþvegna gallajakkanum? Maður sá næstum hornin sem voru falin undir toppnum. Kærastinn hennar var örugglega einn af hinum risavöxnu Nephilim.

Stelpan, reyndar þær allar, hafði hatað Eleanor áður en hún svo mikið sem leit hana augum. Eins og þær hefðu verið ráðnar til að drepa hana í fyrra lífi.

Eleanor var ekki viss hvort asíski gaurinn sem leyfði henni loksins að setjast væri einn af þeim eða hvort hann var bara virkilega heimskur. (En ekki samt svona heimsk-heimskur – hann var með henni í tveimur hraðferðartímum.)

Mamma hafði farið fram á að Eleanor yrði skráð í hraðferðartíma í nýja skólanum. Hún hafði fríkað út þegar hún sá hversu slæmar einkunnirnar voru úr níunda bekknum árið áður. „Þetta getur nú varla komið þér á óvart, frú Douglas,“ sagði ráðgjafinn. Einmitt, hugsaði Eleanor, það kæmi þér á óvart hvað gæti komið á óvart í þessu tilfelli.

Ekki eins og það býttaði einhverju. Eleanor gat allt eins starað út um gluggann í hraðferðartímum. Það voru alveg jafnmargir gluggar þar.

Ef hún færi yfir höfuð einhvern tíma aftur í þennan skóla.

Ef hún kæmist yfir höfuð einhvern tíma aftur heim.

Eleanor gat hvort eð er ekki sagt mömmu frá uppistandinu í rútunni af því að mamma var búin að segja að hún þyrfti ekki að taka rútuna. Í gærkvöldi þegar hún var að hjálpa Eleanor að taka upp úr töskunum …

„Richie sagðist geta skutlað þér,“ sagði mamma. „Það er alveg í leiðinni í vinnuna.“

„Lætur hann mig þá sitja á pallinum?“

„Hann er að reyna að sættast, Eleanor. Þú lofaðir að reyna líka.“

„Það er auðveldara fyrir mig að sættast úr fjarlægð.“

„Ég sagði honum að þú værir tilbúin til að verða hluti af fjölskyldunni.“

„Ég er nú þegar hluti af fjölskyldunni. Ég er einn af stofnmeðlimunum.“

„Eleanor,“ sagði mamma. „Gerðu það.“

„Ég fer bara með rútunni,“ hafði Eleanor sagt. „Það er ekkert mál, ég kynnist einhverjum.“

Einmitt, hugsaði Eleanor. Risastórt dramatískt einmitt.

Rútan hennar færi fljótlega. Nokkrar voru þegar lagðar af stað. Einhver hljóp niður tröppurnar við hlið Eleanor og rakst óvart í töskuna hennar. Hún tók hana úr gangveginum og ætlaði að fara að biðjast afsökunar – en þá var þetta asnalegi asíski strákurinn. Hann yggldi sig þegar hann sá að þetta var hún. Hún yggldi sig á móti og hann hljóp af stað.

Ojæja, hugsaði Eleanor með sér. Krakkarnir úr helvíti munu ekki svelta meðan mín nýtur við.

 

 

3

park

 

 

Hún talaði ekkert við hann á heimleiðinni.

Park hafði eytt öllum deginum í að hugsa upp leiðir til að forðast nýju stelpuna. Hann yrði að skipta um sæti. Það var það eina í stöðunni. En í hvaða sæti ætti hann að fara? Hann vildi ekki neyða sjálfan sig upp á einhvern annan. Og bara það að skipta um sæti vekti athygli Steves.

Park hafði búist við skotum frá Steve um leið og hann bauð stelpunni að setjast en Steve hélt bara áfram að tala um kung fu. Reyndar vissi Park heilmikið um kung fu en ástæðan var sú að pabbi hans var með bardagaíþróttir á heilanum en ekki að mamma hans var frá Kóreu. Park og yngri bróðir hans, Josh, höfðu stundað taekwondo síðan þeir byrjuðu að labba.

Skipta um sæti, hvernig

Hann gæti líklega fundið sæti fremst hjá nýnemunum en það væri yfirgengilegt veikleikamerki. Svo hataði hann næstum tilhugsunina um að skilja skrítnu nýju stelpuna eftir eina aftast í rútunni.

Hann hataði sjálfan sig fyrir að hugsa svona.

Ef pabbi hans vissi að hann hugsaði svona myndi hann kalla Park aumingja. Upphátt, til tilbreytingar. Ef amma hans vissi það myndi hún slá hann í hausinn. Kanntu enga mannasiði? myndi hún segja. Á maður að koma svona fram við þann sem á bágt?

En Park var ekki í nokkurri aðstöðu – og átti enga innistæðu – til að sýna rauðhausnum samúð. Hann átti rétt nóg til að halda sjálfum sér utan vandræða. Hann vissi vel að það var glatað en var samt hálfþakklátur fyrir að fólk eins og hún var til. Af því að fólk eins og Steve og Mikey og Tína voru líka til og þau þurftu sína næringu. Ef það væri ekki rauðhausinn þá væri það einhver annar. Og ef það var ekki einhver annar þá yrði það Park.

Steve hafði sleppt honum í morgun en hann myndi ekki láta hann sleppa endalaust …

Park heyrði rödd ömmu sinnar aftur: Í alvöru talað, drengur, ertu með magapínu yfir að hafa gert góðverk á meðan aðrir sáu til?

Það var ekki einu sinni góðverk, hugsaði Park. Hann hafði leyft stelpunni að setjast en blótað henni um leið. Þegar hún birtist svo í enskutíma seinnipartinn var eins og hún væri að ásækja hann …

„Eleanor,“ sagði herra Stessman. „En kröftugt nafn. Þú veist að þetta er drottningarheiti?“

„Það er nafnið á feitu jarðíkornastelpunni,“ hvíslaði einhver fyrir aftan Park. Einhver annar hló.

Herra Stessman benti á autt borð fremst í stofunni.

„Við ætlum að lesa ljóð í dag, Eleanor,“ sagði hann. „Dickinson. Má kannski bjóða þér að hefja leikinn?“

Hann opnaði bókina hennar á réttri síðu og benti. „Gjörðu svo vel,“ sagði hann, „hátt og snjallt. Ég læt vita þegar þú mátt hætta.“

Nýja stelpan horfði á herra Stessman líkt og hún vonaði að hann væri að grínast. Þegar það var augljóst að hann var ekki að grínast – hann grínaðist eiginlega aldrei – byrjaði hún að lesa.

„Ég hafði einatt hungurs kennt,“ byrjaði hún. Nokkrir krakkanna hlógu. Dísess, hugsaði Park, það myndi enginn annar en herra Stessman láta þybbna stúlku, á fyrsta degi í skólanum, lesa ljóð um að borða.

„Haltu áfram, Eleanor,“ sagði herra Stessman.

Hún byrjaði aftur á byrjuninni, sem Park fannst hræðileg hugmynd.

„Ég hafði einatt hungurs kennt,“ sagði hún, enn hærra í þetta skiptið.

 

Nú var hádegi – matarvon.

Og bráðlát dró ég borðið nær

og bragðaði furðuvín.

Ég hafði séð þar svigna borð

sem soltin mændi ég inn

um glugga og auð þann augum leit

sem aldrei skyldi minn.

 

Herra Stessman stöðvaði hana ekki svo hún las allt ljóðið þessari rólegu ögrandi röddu. Þeirri sömu og hún hafði notað á Tínu.

„Þetta var yndislegt,“ sagði herra Stessman þegar hún lauk lestrinum. Hann ljómaði. „Hreint út sagt yndislegt. Ég vona að þú verðir með okkur í vetur, Eleanor, allavega þangað til við förum í Medeu. Þessi rödd mætir á staðinn í stríðskerru sem er dregin af drekum.“

Þegar stelpan birtist í sögutíma gerði herra Sanderhoff ekkert úr því. En hann sagði „ó, Eleanor drottning af Aquitaine“ þegar hún rétti honum pappírana sína. Hún settist nokkrum sætum fyrir framan Park og hann sá ekki betur en hún eyddi öllum tímanum í að stara á sólina.

Park datt ekkert í hug til að losna við hana í rútunni. Eða til að losna við sjálfan sig. Svo hann setti upp heyrnartólin áður en stelpan settist niður og hækkaði í botn.

Hún var sem betur fer ekkert að reyna að tala við hann.

 

 

4

eleanor

Hún kom heim á undan litlu krökkunum sem var ágætt þar sem hún var ekki tilbúin að hitta þau aftur. Þetta hafði verið eins og gripasýning þegar hún gekk inn í gærkvöldi …

Eleanor hafði varið löngum stundum í að hugsa um hvernig það yrði að koma loksins aftur heim og hversu mikið hún saknaði allra – hún bjóst við að henni yrði fagnað með lúðrasveit og látum. Hún bjóst við heljarinnar knúsveislu.

En þegar Eleanor gekk inn í húsið var eins og systkini hennar þekktu hana ekki.

Ben rétt gjóaði á hana augum og Maisie – Maisie sat í kjöltunni á Richie. Eleanor hefði ælt ef hún hefði ekki verið búin að lofa mömmu að haga sér vel það sem hún átti eftir ólifað.

Það var bara Músi sem kom hlaupandi til að faðma Eleanor. Hún tók hann þakklát í fangið. Hann var orðinn fimm ára, og þungur.

„Hæ, Músi,“ sagði hún. Þau höfðu kallað hann Músa síðan hann var smábarn en hún mundi ekki hvers vegna. Hann minnti eiginlega meira á stóran sjúskaðan hvolp – alltaf spenntur, alltaf að reyna að hoppa upp í fangið á manni.

„Sjáðu, pabbi, Eleanor er komin,“ sagði Músi og stökk úr fanginu á henni. „Þekkir þú Eleanor?“

Richie þóttist ekki heyra. Maisie fylgdist með og saug þumalinn. Eleanor hélt að hún væri löngu hætt því. Hún var orðin átta ára en með þumalinn í munninum var hún eins og smákrakki.

Yngsta barnið gæti ekki munað eftir Eleanor. Hann var tveggja ára … þarna sat hann á gólfinu með Ben. Ben var ellefu. Hann starði á vegginn fyrir aftan sjónvarpið.

Mamma tók pokann með dótinu hennar Eleanor inn í svefnherbergi inn af stofunni og Eleanor elti hana. Herbergið var pínulítið, rétt nógu stórt fyrir kommóðu og kojur. Músi hljóp inn á eftir þeim. „Þú færð efri kojuna,“ sagði hann, „og Ben þarf að sofa á gólfinu hjá mér. Mamma var búin að segja okkur það og þá fór Ben að grenja.“

„Hafðu ekki áhyggjur af því,“ sagði mamma lágt. „Við þurfum öll að aðlagast.“

Það var ekki pláss í þessu herbergi til að aðlagast. (En Eleanor ákvað að minnast ekki á það.) Hún fór í háttinn um leið og hún gat svo hún þyrfti ekki að fara aftur fram í stofu.

Þegar hún vaknaði upp um miðja nótt sváfu allir þrír bræðurnir á gólfinu. Það var ekki möguleiki að komast fram úr án þess að stíga á einhvern þeirra og hún vissi ekki einu sinni hvar klósettið var …

Hún fann það. Það voru bara fimm herbergi í húsinu og baðherbergið taldist varla með. Það var áfast eldhúsinu – bókstaflega áfast, og hurðarlaust. Húsið hlýtur að hafa verið hannað af tröllum, hugsaði Eleanor með sér. Einhver, líklega mamma hennar, hafði fest lak með blómamynstri á milli ísskápsins og klósettsins.

Þegar Eleanor kom heim úr skólanum opnaði hún útidyrnar með lyklinum sínum. Húsið var enn meira niðurdrepandi í björtu – sóðalegt og tómlegt – en Eleanor hafði það samt, og mömmu, út af fyrir sig.

Það var skrítið að koma heim og sjá mömmu í eldhúsinu eins og … eins og venjulega. Hún var að gera súpu, saxa lauk. Eleanor langaði að gráta.

„Hvernig var í skólanum?“ spurði mamma.

„Fínt,“ svaraði Eleanor.

„Var fyrsti dagurinn góður?“

„Já já. Eða, þú veist, bara skóli.“

„Þarftu að vinna mikið upp?“

„Ég held ekki.“

Mamma hennar þurrkaði hendurnar á gallabuxunum, setti hárið aftur fyrir eyrun og Eleanor var slegin, í tíuþúsundasta skiptið, yfir fegurð hennar.

Þegar Eleanor var lítil stelpa fannst henni mamma sín vera eins og drottning, eins og aðalpersóna í ævintýri.

Ekki prinsessa – prinsessur voru bara sætar. Mamma Eleanor var fögur. Hún var hávaxin og tilkomumikil, með breiðar axlir og tignarlegt mitti. Hvert bein virtist hafa meiri tilgang en í öðru fólki. Eins og þau væru ekki eingöngu til að halda henni uppi, heldur til að sýna fram á eitthvað.

Hún var með sterklegt nef, ákveðna höku og há og breið kinnbein. Þegar maður horfði á mömmu Eleanor var ekki annað hægt en velta fyrir sér hvort eftirmynd hennar væri einhvers staðar útskorin á stefni víkingaskips eða jafnvel máluð á flugvélarskrokk …

Eleanor líktist henni heilmikið.

En ekki nóg.

Eleanor var eins og mamma hennar séð í gegnum fiskabúr. Kringlóttari og mýkri. Óskýr. Þar sem móðir hennar var tilkomumikil var Eleanor mikil. Þar sem móðir hennar var dregin fínum dráttum var Eleanor klessuverk.

Móðir hennar var með brjóst og mjaðmir eins og kona í sígarettuauglýsingu þrátt fyrir að hafa fætt af sér fimm börn. Sextán ára var Eleanor í laginu eins og hún ræki miðaldakrá.

Hún var með of mikið af öllu og of lágvaxin til að fela það. Brjóstin byrjuðu rétt fyrir neðan hökuna, mjaðmirnar voru … léleg eftirlíking. Meira að segja hárið á mömmu, sítt, loftkennt og rauðbrúnt, var sannari útgáfa af eldrauðum krullum Eleanor.

Eleanor teygði höndina meðvituð að höfðinu á sér.

„Ég þarf að sýna þér svolítið,“ sagði mamma og setti lok á pottinn, „en ég vildi ekki gera það fyrir framan litlu krakkana. Hérna, komdu.“

Eleanor elti hana inn í barnaherbergið. Mamma opnaði skápinn, tók út handklæðastafla og þvottakörfu fulla af sokkum.

„Ég gat ekki tekið allt dótið þitt með þegar við fluttum,“ sagði hún. „Eins og þú sérð er ekki eins mikið pláss hérna og var í gamla húsinu …“ Hún teygði sig inn í skápinn og tók út svartan ruslapoka. „En ég pakkaði eins miklu og ég gat.“

Hún rétti Eleanor pokann. „Þú verður að fyrirgefa mér það sem ég skildi eftir.“

Eleanor hafði haldið að Richie hefði hent öllu dótinu hennar fyrir ári, tíu sekúndum eftir að hann henti henni út. Hún tók pokann í fangið. „Það er allt í lagi,“ sagði hún. „Takk.“

Mamma rétti fram höndina og snerti öxl Eleanor, örstutt. „Litlu krakkarnir koma heim eftir tuttugu mínútur eða svo,“ sagði hún, „og það er kvöldmatur um hálffimm. Mér finnst gott að allt sé komið í ró áður en Richie kemur heim.“

Eleanor kinkaði kolli. Hún opnaði pokann um leið og mamma fór út úr herberginu. Hana langaði að sjá hvað hún átti …

Það fyrsta sem hún sá voru dúkkulísurnar. Þær voru lausar í pokanum og krumpaðar og búið að krota á sumar með vaxlitum. Það voru mörg ár síðan Eleanor hafði leikið sér með þær en hún var samt ánægð að sjá þær aftur. Hún sléttaði úr þeim og lagði til hliðar.

Undir dúkkulísunum voru bækur, ein tylft eða svo, sem mamma hafði gripið af handahófi; hún hafði ekki haft hugmynd um hverjar voru í uppáhaldi hjá Eleanor. Eleanor var ánægð að sjá Garp og Watership Down. Það var ömurlegt að Oliver‘s Story hafði sloppið í gegn en ekki Love Story. Og þarna var líka Little Men en hvorki Little WomenJo‘s Boys.

Í pokanum var fullt af pappír. Eleanor hafði verið með skjalaskáp í gamla herberginu sínu og það var eins og mamma hefði gripið flestar möppurnar með. Eleanor reyndi að koma öllu fyrir í snyrtilegum stafla, öllum einkunnaspjöldunum, skólamyndunum og bréfum frá pennavinum.

Hún velti fyrir sér hvað hefði orðið um afganginn af dótinu úr gamla húsinu. Ekki bara hennar dóti, heldur allra. Eins og húsgögnin og leikföngin og allar plönturnar og málverkin hennar mömmu. Dönsku plattarnir sem amma hafði fengið í brúðargjöf … Litli rauði UFF DA!-hesturinn sem hékk alltaf fyrir ofan vaskinn.

Kannski var þetta í kössum einhvers staðar. Kannski vonaði mamma að tröllahellirinn væri bara til bráðabirgða.

Eleanor vonaði enn að Richie væri bara til bráðabirgða.

Á botni svarta ruslapokans var kassi. Hjartað tók örlítið aukaslag þegar hún sá hann. Frændi hennar í Minnesota var vanur að senda fjölskyldunni áskrift að Ávexti mánaðarins um hver jól. Eleanor og systkini hennar rifust alltaf um kassana sem ávextirnir komu í. Frekar asnalegt en þetta voru samt góðir kassar; traustir með fallegu loki. Þessi var undan greipávöxtum, orðinn sjúskaður eftir mikla notkun.

Eleanor opnaði hann varlega. Ekkert hafði verið snert. Þarna var bréfsefnið hennar, trélitirnir og tússlitirnir (líka gjöf frá frænda). Stafli af auglýsingaspjöldum úr verslunarmiðstöðinni sem ilmuðu enn eins og dýrt ilmvatn. Og þarna var vasadiskóið hennar. Ósnert. Batteríslaust en það var þó þarna. Og þar sem var vasadiskó, þar var möguleiki á tónlist.

Eleanor hallaði höfðinu yfir kassann. Hann lyktaði eins og Chanel No. 5 og blýantsydd. Hún andvarpaði.

Hún hafði engan stað fyrir þessar endurheimtu eignir eftir flokkun og röðun. Það var ekki einu sinni pláss fyrir fötin hennar í kommóðunni. Hún geymdi kassann og bækurnar en raðaði öllu hinu aftur ofan í ruslapokann. Svo tróð hún pokanum eins aftarlega og hún gat í efstu hilluna í skápnum, á bak við handklæði og rakatæki.

Hún klifraði upp í kojuna sína og rakst þar á sjúskaðan gamlan kött sem lá og hvíldi sig. „Farðu,“ sagði Eleanor og ýtti við honum. Kötturinn stökk niður á gólf og út um svefnherbergisdyrnar.