Kamilla Íris Hörpudóttir Thomsen,
betur þekkt sem Kamilla Vindmylla, er sniðug stelpa sem þrammar sínar eigin leiðir í lífinu. Hún velur ekki alltaf auðveldustu leiðirnar og stundum þyrfti hún helst á jarðýtu að halda til að þramma áfram veginn. Hún er engu að síður ákaflega blíð og ein besta vinkona sem völ er á í allri búðinni. Hún er málglöð í meira lagi og það kemur fyrir að annað fólk þarf að flýja orðastorminn sem hún sendir frá sér. Viðurnefnið Vindmylla hlaut hún einmitt út af þessari náðargáfu. Uppáhalds liturinn hennar er röndóttur með stjörnum og hún borðar ekki banana enda handviss um að sá ávöxtur sé ekkert annað en dulargervi fyrir köngulær.

Jakob er besti vinur Kamillu og þau hafa staðið saman í gegnum þykkt og þunnt svo árum skiptir. Hann hefur sérstaklega gaman af öllu óútskýranlegu en er þó handviss um að geimverur úr samliggjandi víddum standi á bak við allt sem fer úrskeiðis. Geimverur eða draugar. Eða geimverudraugar.

Katla og Kamilla voru einu sinni óvinkonur. Atburðarásin í fyrstu bókinni varð þó til þess að þær þurftu að grafa stríðsöxina. Þær höfðu síðan engan áhuga á að grafa hana upp aftur þegar bókinni var lokið því þær áttuðu sig á því að báðum líkaði hin skrambi vel. Katla er kattliðug og eldsnögg þannig að allar íþróttir eru hennar ær og kýr. Ær og kýr heilla hana hins vegar ekki neitt.

Anton er ekkert sérlega snöggur. Hvorki í höfðinu né skrokknum en hann er þó nautsterkur og fróður um það sem vekur áhuga hans sérstaklega. Hann er til dæmis mjög flinkur í að slappa af og láta hugann reika. Anton og Katla voru erkióvinir þeirra Kamillu og Jakobs en það breyttist allt þegar þau þurftu að sameinast gegn stærri ógn. Líkt og Katla þá er Anton fyrir löngu búinn að gleyma stríðsöxinni.

Felix var hrokafullur einfari þar til hann kynntist Kamillu og hinum krökkunum. Núna er hann bara hrokafullur. Hann hefur svakalega greindarvísitölu og er svakalega meðvitaður um það. Fyrir utan greindarvísitöluna sína þá þykir honum vænst um hárgreiðsluna sína sem hann gætir líkt og hún sé síðasta hárgreiðslan í öllum heiminum. Hann fær martraðir þar sem hann er sköllóttur. Hann vinnur því reglulega að sérstakri leyniformúlu sem á að lengja líftíma hárgreiðslna út í hið óendanlega.

Líkt og allar almennilegar persónur bókmenntasögunnar þá á Kamilla Vindmylla sér höfund. Sá heitir Hilmar Örn Óskarsson.

BullorðnaLeiðinnSvikamillurkamilla Vindmilla kapa copy