Nú skella skóladyrnar aftur og námsbækurnar með. Það vita örugglega allir hvað það er mikilvægt (og notalegt!) að lesa yfir sumarið (sjá t.d. Hér). Það er því fagnaðarefni hversu margir skólar og bókasöfn ætla að leggja sitt af mörkum með alls konar sumarlestrarhvatningu fyrir börn og unglinga.

Okkur hjá Bókabeitunni langar til að taka þátt með því að skora á foreldra að hvetja börn sín til lesturs og lesa meira sjálf í leiðinni.

SL

*** Vegleg verðlaun í boði ***

Áskorunin hefst strax í dag, 11. júní  2017 og lýkur 11. ágúst 2017. Áskorunin felst í því að lesa að minnsta kosti fjórum sinnum í viku, minnsta kosti fimm blaðsíður í hvert skipti. Þetta gera tuttugu blaðsíður á viku sem er ALGJÖRT LÁGMARK.

Til að halda utan um átakið þarf að setja upp skráningarblað þar sem hver fjölskyldumeðlimur getur skráð sinn lestur yfir sumarið. Skráningarblöðin er hægt að gera á einfaldan hátt, t.d. í Excel eða Word – sjá t.d. hérna Lestrarátak. Skráningarblaðið má annað hvort prenta út eða skrá lesturinn beint inn í skjalið og vista þá nýtt skjal fyrir alla þátttakendur.

Til að eiga möguleika á verðlaunum þarf að senda okkur í tölvupósti annað hvort mynd af lestrarátaksskráningarblaðinu útfylltu eða senda okkur skjalið útfyllt ef skráningin fer fram í tölvu. Netfangið er bokabeitan@bokabeitan.is. 

Verðlaun verða veitt í tveimur aldursflokkum – fyrir 15 ára og yngri og 16 ára og eldri, tvenn verðlaun í hvorum flokki:

  • Flestar lesnar bækur
  • Flestar lesnar blaðsíður

Að auki verða veitt sérstök fjölskylduverðlaun til þeirrar fjölskyldu sem stendur sig best.

Ef þátttakendur eru hugmyndasnauðir og vantar enn frekari hvatningu til lestrarins þá má t.d. styðjast við lista eins og þennan:
Bók sem er …
Markmiðið er þá að haka við sem flestar gerðir bóka af listanum.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

BókastafliHugmyndin að þessari áskorun fæddist þegar við Bókabeitur áttum spjall um lestur (aldrei þessu vant) og blöskraði satt að segja hversu lítið dætur okkar lásu. Þessir bókaormar höfðu smátt og smátt lagt frá bækurnar sér og tekið upp símana í staðinn.
Eftir að hafa þusað aðeins yfir þessari „símakynslóð“ og tekið „heimurversnandifer“ umræðuna í nokkra hringi þá ákváðum við að hætta að þusa og byrja að bæta.

En hvað?

Svona fyrir ykkur sem ekki þekkið til þá eru dætur okkar 17, 19 og 23 ára. Það er hægara sagt en gert að skikka ungar dömur til að lesa þegar mútur og fortölur eru hættar að hafa áhrif.

Eða hvað?

Við ákváðum að prófa að skora á þær allar þrjár í sameiginlegt lestrarátak. Settum fram viðmið, ákváðum verðlaun og lögðum fyrir þær. Við bjuggum til skjal á google docs þar sem hver fyllir inn sinn lestur og getur í leiðinni fylgst með hvað hinar eru að lesa og hversu mikið. Í skjalinu er að sjálfsögðu líka flipi fyrir mæðurnar og þeirra lestur – þær þurfa jú líka að standa sína plikt. Núna, 2 vikum síðar, eru 6 bækur lesnar (um 1700 bls.). Staflinn á náttborðinu er dágóður en fjölbreyttur og skemmtilegur og óvíst hverjar eru ánægðari – dætur eða mæður.

Áskorun – Vegleg verðlaun í boði
Tagged on: