endalokin

 

 

Endalokin 2: Gjörningaveður eftir Mörtu Hlín og Birgittu Elínu:

Eftir þungan vetur er loksins komið að hinni árlegu skíðaferð 9. og 10. bekkjar Rökkurhæðaskóla. Hæðin tekur á móti krökkunum með glampandi sól og frábæru skíðafæri – en skjótt skipast veður í lofti. Óvænt skellur á versta veður í manna minnum. Sannkallað gjörningaveður. Skíðaskálinn skelfur í rokinu og er sambandslaus við umheiminn. Svo er bankað …

Í framhaldi hefst lokauppgjör íbúa Rökkurhæða við það sem hefur haldið hverfinu í heljargreipum.

Gjörningaveður er beint framhald af bókinni Útverðirnir og jafnframt allra síðasta bókin í bókaflokknum um krakkana í Rökkurhæðum.

endalokin3Endalokin 1: Útverðirnir eftir Mörtu Hlín og Birgittu Elínu:
Hallgerður Evudóttir er nýflutt til ömmu sinnar í Rökkurhæðum. Hún fer að púsla saman sögusögnum af dularfullum atburðum sem þar eiga að hafa gerst og skilur ekkert í að nokkur þori yfir höfuð að búa á staðnum. Þegar Hallgerður kemst á slóðir undarlegs safnaðar sem kallar sig Útverði er hún sannfærð um að hún sé búin að finna uppsprettu illskunnar í Rökkurhæðum.

Endalokin eru sjálfstæður tvíleikur sem slær botninn í bókaflokkinn um krakkana í Rökkurhæðum. Fyrri bókin nefnist Útverðirnir og seinni bókin, sem kemur út 2017, kallast Gjörningaveður.

Heimkaup logo PNGBMMforlagid2Eymundssonebaekur-logoamazon

 

rokkurhaedirRökkurhæðir eru úthverfi borgarinnar Sunnuvíkur, algjört draumahverfi í augum aðkomufólks.

Í upphafi var hverfið lítið þorp sem kúrði í skjóli hæðarinnar sem það dregur nafn sitt af. Í dag er þetta litla þorp uppistaðan í gamla hluta Rökkurhæða þar sem  hlykkjóttar götur vefja sig utan um misjafnlega skökk hús, flest hulin háum trjám sem veita skjól fyrir veðri og vindum. Nýi hlutinn er algjör andstæða. Þó að einbýlis- og raðhúsin þar séu lágreist veita trén þeim enga forsælu þegar sólin skín miskunnarlaust og ekki veitir Hæðin þeim nokkurt skjól. Fjölbýlishúsin, sem standa neðst í hlíðum Rökkurhæða, kallast Skuggadalir. Þau bera nafn með rentu því þau standa í skugga næstum allan daginn, allan ársins hring.

Efst á Hæðinni standa Rústirnar. Áður var þetta nýjasti angi hverfisins þar sem stóðu vegleg blokkarlengja og vísir að stórum einbýlishúsum með útsýni yfir hverfið og fjörðinn. Í dag eru þarna rústir einar sem náttúran keppist við að ná aftur í faðm sinn. Stundum hvíslar fullorðna fólkið sín á milli um það sem á að hafa gerst þar – yfirnáttúrulegir atburðir segja sumir, hryðjuverk segja aðrir – en enginn veit það með vissu.

Að minnsta kosti ekki krakkarnir.
Upphátt talar fólk ekki um Rústirnar nema til að banna krökkunum sínum að fara þangað en þeir óhlýðnast því flestir og stelast uppeftir.
Það er ýmislegt á seyði í Rökkurhæðum.

Sumt harla ótrúlegt.
Sumt heldur óhugnanlegt.
Sumt hræðilegt …

Þeir sem hafa fylgst með bókunum um Rökkurhæðir vita að í Rökkurhæðum er eitthvað afar undarlegt að gerast.
Nú er komið að endalokunum …