Grimmsystur 2Morgunblaðið 21. desember 2013. Silja Björk Huldudóttir.

Frumleg sýn á ævintýrin

Grimmsystur: Úlfur í sauðargæru ****

Texti: Michael Buckley 
Teikningar: Peter Ferguson.

Íslensk þýðing: Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir. Bókabeitan, 2013. 289 bls.

Hér komin önnur bókin í níu bóka seríu Michaels Buckley um Grimmsysturnar Sabrínu og Dagnýju sem kom út í Bandaríkjunum á árunum 2005-2012 við afar góðar viðtökur. Systurnar búa hjá ömmu sinni, Reldu, í Álftavík eftir að foreldrar þeirra hurfu sporlaust. Eina vísbendingin var blóðrautt handarfar sem mun vera merki Skarlatsrauðu handarinnar, sem er uppreisnarflokkur Eilífinga, en þeir eru ævintýra- og þjóðsagnapersónur sem Vilhjálmur Grimm, forfaðir Sabrínu og Dagnýjar, fangaði með galdri í Álftavík með aðstoð galdranornarinnar Böbu Jögu.

Úlfur í sauðargæru segir frá upphafi skólagöngu Sabrínu og Dagnýjar í grunnskóla Álftavíkur. Þegar einn kennari skólans finnst myrtur og allt virðist benda til þess að risa könguló sé þar að verki er úr vöndu að ráða og stórhættulegt verkefni bíður systranna.

Buckley vinnur í þessum vandaða og skemmtilega bókaflokki sínum á skapandi hátt með ævintýra- og þjóðsagnaarfinn og mega lesendur seríunnar búast við því að sjá sumar af ástsælustu sem og alræmdustu ævintýrapersónum bókanna í nýju ljósi. Höfundur er lunkinn við að halda uppi spennu með hæfilegu magni af eltingarleikjum og átökum. Ekki er nauðsynlegt að lesa bækur seríunnar í réttri röð, því höfundi tekst vel að rifja á hnitmiðaðan hátt upp það sem á undan er gengið, en vissulega er ánægjulegast að lesa bækurnar í réttri röð og fylgjast þannig með þróun systranna í afstöðu þeirra til ævintýraheimsins.

Myndir Peters Ferguson eru skemmtilegar. Þýðing Birgittu Elínar Hassell og Mörtu Hlínar Magnadóttur er sérlega vönduð og frágangur allur á bókinni til mikillar fyrirmyndar. Enginn áhugamaður um klassísk ævintýri ætti að láta Grimmsystur framhjá sér fara, enda sannkallaður yndislestur hér á ferð.

Frumleg sýn á ævintýrin