Kamilla Vindmylla og leiðinn úr EsjunniMorgunblaðið 19. nóvember 2013. Anna Lilja Þórisdóttir

Hoppandi og skoppandi skemmtun

Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni ***½-

Höfundur: Hilmar Örn Óskarsson

Bókabeitan 2013. 183 bls.

Frumraun Hilmars Arnar Óskarssonar um Kamillu og vini hennar fékk góðar og verðskuldaðar móttökur í fyrra, enda sérlega skemmtilega skrifuð barnabók þar á ferð. Nú er Kamilla mætt aftur.

Í bókinni undirbúa Kamilla og vinir hennar skemmtigarð sem þau hyggjast setja á stofn og kljást að auki við óprúttinn vísindamann sem reynir að ganga í augun á félögum sínum í óþokkareglunni með því að ræna fólk allri lífsgleði.

Alls konar skondnar uppfinningar og persónur krydda söguna, t.d. nýju ávaxtategundirnar bangó og kívanas, njósnakrummarnir Hrafn og Krummi og þá eru tíðar vangaveltur um náttborðslampa úr súkkulaðikexi býsna áhugaverðar. Sagan er vaðandi í skemmtilegum líkingum og orðatiltækjum; t.d. að vera svipað vel falinn og áramótabrenna í skál af rjómaís. Þá eru myndirnar skemmtilegar og falla vel að sögunni.

Hilmari Erni tekst að skapa einstaklega létta og skemmtilega stemningu í bókinni. Sagan er hnitmiðuð og skoppar hnökralaust áfram, þetta er óskaplega skemmtileg bók og á án efa eftir að skemmta mörgum ungum lesandanum og ekki síður fullorðnum. Svo fylgir kóði til að sækja bókina sem rafbók.

 

Hoppandi og skoppandi skemmtun