20140817_183226

Ég er snillingur í reddingum – og hef það frá mömmu minni. Við snillingarnir tínum úr skápum og skúffum það sem til er og eldum úr því meistaraverk. Mér til mikillar gleði virðast þessi gen hafa lent í eldri dóttur minni – húrra fyrir því!
Síðasta sunnudag gerði ég óskaplega fína grænmetisböku og þó að mamma sé snillingur í reddingum og bökur í miklu uppáhaldi hjá henni þá þykist hún ekki kunna að búa þær til. Svo að mamma, þessi er fyrir þig – hefði boðið þér í mat værir þú ekki svona langt í burtu.
Á laugardagsmorgun fór ég á grænmetismarkaðinn í Mosfellsbæ. Þar keypti ég ferskt grænmeti í kílóavís og splunkuný egg og borgaði ótrúlega fáa þúsundkalla fyrir. Ég stóð frammi fyrir því að þurfa að elda á sunnudaginn og eftir fáar stundir í eldhúsinu síðustu vikurnar þurfti ég að hafa nokkuð fyrir því að vekja áhugann og sköpunarkraftinn. Þegar þannig stendur á finnst mér gott að fálma í bunkann af Gestgjafablöðunum mínum og fletta í gegnum nokkur. Það klikkaði ekki heldur í þetta skiptið.
Til að fagna lífinu, tilverunni og fersku grænmeti úr Mosó ákvað ég að festa ferlið á … símann minn og deila uppskriftinni (sem er stolin og staðfærð) með þeim sem áhuga kynnu að hafa. Svo gjörið svo vel:

Grænmetisbaka með brokkólí og blómkáli

Frosið bökudeig (líka gott að gera sjálfur en þar sem ég átti nokkrar plötur í frysti í þetta skiptið …)20140817_184143
Ferskt blómkál c.a. 300 g
Fersk brokkólí c.a. 300 g
1 blaðlaukur
3 hvítlauksrif
smjör, olía, kokosolía (frjálst val) til steikingar
salt og pipar
2 egg
1 eggjarauða
300 ml matreiðslurjómi
ostarestar (ég notaði mexíkóost, piparost og örlítið af rjómaosti)

 

20140817_192120

Ofninn hitaður í 180°
Bökudeigið flatt út, lagt í eldfast mót og pikkað með gaffli. Oft forbaka ég deigið en ekki í þetta skiptið.
Blómkál og stilkurinn af brokkólíinu skorið í bita og gufusoðið (eða léttsoðið í botnfylli af vatni) í 2-3 mínútur.
Á meðan er blaðlaukurinn og hvítlaukurinn mýktur í olíu, síðan er hitinn hækkaður og gufusoðna grænmetinu ásamt brokkólíblómum skellt út í í smástund. Þessu er síðan hellt ofan á deigið og saltað yfir með góðu salti. (Ég er algjör saltperri og á öruggleg tíu tegundir af allskonar salti.)
Egg og eggjarauða slegið saman við matreiðslurjómann, rifnum osti bætt útí. Þar sem ég notaði pipar- og mexíkóost þá var það nægilegt krydd í þetta skiptið. Þessu er hellt yfir grænmetið og rjómaosturinn ofan á það.
Sett í heitan ofn og bakað í 25-30 mínútur.

20140817_191308Á meðan þetta var í ofninum gerði ég tómatsalsa til að hafa með.

20140817_192713

Tómatsalsa með avocadó og papriku

3 tómatar
1 avocadó
1 paprika
1/2 rauðlaukur
1 lime
fersk basilika (eða kóríander, eða ekkert)
ólífuolía
salt (t.d. Reykjanessaltið)
Ég lærði á Cafe Sigrún að láta saxaðan lauk liggja í köldu vatni í 30 mínútur til að hann bragðið verði mýkra, mæli með því. Annars bara saxa allt smátt og blanda saman.

Verði ykkur að góðu!
Marta

Hugsað til mömmu