Þú ert á leið í vinnuna þegar ókunnug kona hringir og tilkynnir að hún hafi rænt dóttur þinni. Konan útskýrir að hennar barni hafi einnig verið rænt. Það eina sem þú getur gert til að fá dóttur þína aftur heila á húfi er að ræna öðru barni. Þínu barni verður ekki sleppt fyrr en foreldrar barnsins sem þú rændir, ræna enn öðru barni.
Og það allra mikilvægasta, útskýrir konan, er að ef þú rænir ekki barni, eða foreldrar þess barns ræna ekki barni, verður dóttir þín myrt.

Þú ert hluti af Keðjunni.

Adrian McKinty er írskur spennusagnahöfundur. Bækur hans hafa unnið til ýmissa verðlauna, meðal annarra the Edgar Award og the Ned Kelly Award. Þær hafa verið þýddar á yfir tuttugu tungumál en Keðjan er fyrsta bók hans á íslensku.
Adrian starfar sem gagnrýnandi fyrir The Sidney Morning Herald, The Irish Times og The Guardian.

Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell þýddu.