raeduhold

 

Á síðasta degi vetrar voru Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar afhent við hátíðlega athöfn í Höfða. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir hlaut verðlaun fyrir Koparborgina sem var af dómnefnd valin besta íslenska barna- og unglingabókin árið 2015.  Við það tilefni flutti hún þessa ágætu ræðu sem hér má lesa:

 

 

 

Ræða á síðasta vetrardag

Komið þið sæl, mig langar til að byrja á að segja hvað það gleður mig að sjá ykkur öll hér á síðasta degi vetrar. Ég fékk að vita fyrir viku síðan að ég ætti að halda þessa ræðu, en auðvitað beið ég með að skrifa hana þar til í morgun!

Alla vikuna hef ég samt verið að velta fyrir mér svona verðlaunatilnefningum og hvaða þýðingu þær hafi. Það liggur í augum uppi að bókaverðlaun eru gjörólík íþróttaverðlaunum, íþróttamaður hlýtur verðlaun fyrir að vera betri en aðrir sem keppa, en sá mælikvarði á engan veginn við í bókmenntum. Þó að góð bók þurfi að höfða til margra lesenda, þá er allt annað mál hvort hún verði í uppáhaldi hjá þeim öllum og þannig getur ein bók aldrei verið “besta bókin.”

Mikilvægi þessara verðlauna fyrir mig sem höfund felst hins vegar í því að þau eru samræða við lesendur. Maður skrifar jú bækur fyrir lesendurna en sárasjaldan fær maður að vita hvað þeim finnst. Sú staðreynd að einhver hafi fyrir því að skipa í dómnefnd sem síðan les allar nýútgefnar bækur, rökræðir þær sín á milli og gefur álit sitt er viðurkenning á því að öll sú vinna sem höfundur hefur lagt í bók skiptir máli, að við erum ekki að skrifa út í tómið. Það er einhver að hlusta, það er áhugi á því sem við erum að gera.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkur hafa nú verið veitt í meira en 40 ár, sem gerir þau að elstu bókmenntaverðlaunum í landinu, og hefur þessi áhugi og stuðningur vafalaust skipt miklu fyrir barnabókamenningu í landinu. Þó ég sé fædd árið 1988 las ég bæði Öddubækurnar og Eyjuna hans Múmínpabba, sem fyrst hlutu þessi verðlaun árið 1973.

Barnabókamenning einskorðast nefnilega  ekki við nýútgefnar bækur eða hvað kom síðast í Kiljuna, hún byggir á hefð. Og íslenskumælandi börn hafa aðgang að vandaðri bókahefð sem teygir sig yfir marga áratugi. Það er því ekki skrítið að barnabækur séu sú bókmenntagrein sem hefur haft mest áhrif á mig, þær veittu mér  ekki bara innsýn í barnæsku annarra landa og þjóðfélagshópa, heldur líka annarra kynslóða.

En það er ekki bara virðulegur aldur þessara verðlauna sem gerir þau merkileg í mínum augum, heldur líka hver veitir þau, því þegar að er gáð hlýtur Reykjavíkurborg að vera einn stærsti áhrifavaldurinn í lífi reykvískra barna. Starfsfólk Reykjavíkur gætir þeirra í leikskóla, kennir þeim í grunnskóla, byggir leikvelli, mannar frístundaheimili og sér um lestrarkostinn á bókasöfnum. Allt þetta fólk stendur mjög nærri barnamenningu í starfi sínu og kennarar geta til að mynda haft býsna afdrifarík áhrif á nemendur sína.

Því langar mig að nota þetta tækifæri til að kasta kveðju út í alheiminn og vona að hún berist til hennar Maríu sem var umsjónarkennarinn minn í sjö ára bekk. Hún var ekki bara fyrsti kennarinn til að hrósa mér, og láta mér þannig líða eins og ég ætti heima í skólakerfinu, heldur sagði hún einu sinni fyrir framan allan bekkinn að hún hlakkaði til að lesa einn daginn nafn mitt í blöðunum, þegar ég hefði skrifað hryllingssögu sem fengi hárin til að rísa á höfðinu. Aldrei hafði ég upplifað aðra eins upphefð og þetta virkaði sem býsna fjarlægur veruleiki.

En ég meina, ef kennarinn sagði það, þá hlaut það að vera satt, og hér stend ég 20 árum síðar!

20160420_174424
Vinnningshafar ásamt formanni dómnefndar og borgarstjóra.

 

Koparborgin hlýtur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar