Um þessar mundir sendir Bókabeitan frá sér fjórðu bókina í bókaflokknum um krakkana í Rökkurhæðum. Nýja bókin heitir Ófriður og ber það nafn sannarlega nafn með rentu því í Rökkurhæðum veður allt í ofbeldi og … ófriði.

Matthías er nýfluttur í hverfið. Honum gengur illa að fóta sig í nýja skólanum og finnst samnemendur – og kennarar – óþarflega almennilegir. Allir keppast við að bjóða hann velkominn en þess á milli logar allt í slagsmálum og óútskýranlegum óhöppum.

Ingibjörg er vanari lífinu í Rökkurhæðum en þegar hún kynnist Matthíasi og fær að heyra hans hlið á málinu fer hún að sjá nýliðna atburði í nýju ljósi. Þau leggja saman tvo og tvo og fá út niðurstöðu sem þau ætla varla að trúa.

Bókin er sjálfstætt framhald fyrri bóka og tengist hinum gegnum hverfið Rökkurhæðir. Kunnuglegum andlitum bregður fyrir í stærri og minni hlutverkum og þeir sem þekkja til gætu séð atburði fyrri bóka í nýju ljósi.

Bækurnar hafa notið mikilla vinsælda hjá unglingum; og öðrum sem þora!

Ófriður og óróleiki