Rökkurhæðir 5: GjöfinMorgunblaðið 19. nóvember 2013. Anna Lilja Þórisdóttir

Óhugnaður fyrir unglinga

Gjöfin ***–

Höfundar: Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir.
Bókabeitan 2013. 192 bls.

Gjöfin er fimmta bókin í Rökkurhæðabókaflokknum sem eru bækur fyrir unglinga sem þora, að því er segir á bókarkápu. Eins og í fyrri bókunum er sögusviðið Rökkurhæðir, sem virðast við fyrstu sýn afar venjulegt úthverfi, en á bak við hverdagsleikann leynist ýmis óhugnaður.

Aðalpersóna Gjafarinnar er unglingspilturinn Þórhallur sem á erfitt með að sætta sig við skilnað foreldra sinna. Hann vonast til að þau bæti honum vanlíðanina með veglegum jólagjöfum, en verður fyrir vonbrigðum þegar gjafirnar eru ekki í takt við það sem hann hafði óskað sér. En þegar óskirnar fara að rætast á hann sér þá ósk heitasta að þær hefðu ekki ræst. (Einhverjum gæti kannski þótt þetta fyrirtaks lexía fyrir heimtufreka krakka).

Gjarnan hefði mátt draga persónur skýrari dráttum, Þórhallur er kannski helst til auðtrúa og ginnkeyptur fyrir því að lenda í klandri miðað við aldur, en það er nú einu sinni það sem gerist í ævintýrum; aðalpersónan lendir í ógöngum sem hún þarf að komast út úr. Hann lærir af reynslunni og stendur uppi sem þroskaðri piltur, reyndar er lexían nokkuð dýrkeypt. Yfir atburðarásinni er raunsæislegur blær, þrátt fyrir býsna yfirnáttúrlega atburði á köflum þar sem kunnugleg stef úr hryllingsmyndum kallast á við minni úr þjóðsögum. Í heildina má segja að bókin sé býsna vel heppnuð eins og aðrar Rökkurhæðabækur, spennandi og býsna vel upp byggð. Með bókinni fylgir svo kóði þannig að hægt er að sækja hana sem rafbók og er það ákaflega vel til fundið.

Óhugnaður fyrir unglinga