Rökkurhæðir

Fyrsta skref okkar Birgittu inn í heim bókmenntanna var hugmyndin að Rökkurhæðum. Í dag rekum við fyrirtæki, þýðum, lesum yfir handrit, ritstýrum, tökum til á lager og markaðssetjum jöfnum höndum, semjum um erlend og innlend réttindi, veljum handrit til útgáfu erum í samskiptum við umbrotsmenn, hönnuði, prentara, teiknara, rithöfunda og bóksala og eins og nú þegar sé ekki nóg upp talið þá erum við líka farnar að hafa skoðun á bókhaldskerfum!

Rithöfundurinn er dreginn fram svona spari og oftast hleypt út fjarri mannabyggðum, skrifstofunni, lagernum og fjölskyldunni. Til að hann ryðgi ekki um of á milli spretta þá höfum við ákveðið að byrja að blogga hérna á heimasíðunni okkar en Bókabeitan er jú ekki bara barnið okkar heldur jafnframt okkar annað heimili. Við stefnum á að henda inn bloggi um allt milli himins og jarðar: góða daga á skrifstofunni jafnt og slæma (sem eru reyndar mjög fáir), skemmtilegar heimsóknir og hugmyndir og aldrei að vita nema ein og ein uppskrift og/eða kisumynd fái að fljóta með. 

Svo gæti jafnvel farið að hernaðarleyndarmálum yrði uppljóstrað hér í framtíðinni, en þeir sem til þekkja vita að bókaútgáfa er mjög svo prívat bissness, það gæti því borgað sig að fylgjast með frá byrjun!

Kveðja frá Mörtu!

 

 

Raunir rithöfunda sem leiðast út í bókaútgáfu