Bókabeitur eru afskaplega stoltar að tilkynna að útrás Rökkurhæða er hafin. Eins og flestir Íslendingar vita eru Rökkurhæðabækurnar spennu- og hrollvekjur ætlaðar unglingum „sem þora“ á öllum aldri en stærsti lesendahópurinn er á aldrinum 11 – 15 ára. Bækurnar hafa verið feikivinsælar á Íslandi en voru fyrst kynntar fyrir erlendum útgefendum á bókamessunni í Frankfurt síðastliðið haust.

RökkurhæðirNú hafa þau kynni aldeilis borið ávöxt en hið þýska Arena Verlag GmbH keypti í vikunni útgáfuréttinn að fyrstu þremur bókunum um krakkana í Rökkurhæðum. Arena er rótgróið útgáfufyrirtæki á sviði barna- og unglingabók en það var stofnað árið 1949. Forlagið er í eigu Westermann Gruppe, stofnað 1838 af George Westermann, sem er fimmta stærsta útgáfufyrirtæki Þýskalands.

Fulltrúi frá Arena Verlag greip okkur Bókabeitur á íslenska básnum, þar sem við hvíldum lúin bein milli funda, og átti við okkur örstutt spjall. Hún hafði verið að leita að spennu- og hrollvekjum fyrir unglinga í aðra röndina og í hina einhverju íslensku fyrir börn- og/eða unglinga. Hún taldi sig hafa himin höndum tekið að finna þetta í sama pakkanum – í Rökkurhæðum. Þegar heim var komið sendum við henni eintök af bókunum sem hún fól í hendur prufulesara sem gaf þeim afar jákvæða umsögn. Það dugði þó ekki til heldur þurfti annar prufulesari að leggja blessun sína yfir bækurnar áður en þær voru samþykktar fyrir næsta skref. Þá hófst vinnan hjá fulltrúanum að setja saman útgáfuáætlun, markaðsgreiningu og markaðsplan sem hún lagði fyrir sinn yfirmann. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögð hans voru þau sömu – tvær flugur í einu höggi!

Tilboðið er afar gott og gefur vel í aðra hönd (og hina líka) fyrir utan hvað þetta er mikil viðurkenning fyrir okkar unga bókaforlag okkar og ekki síður okkur sjálfar, Birgittu og Mörtu, sem rithöfunda.
Nú bíðum við spenntar eftir að fá að vita hvaða þýska nafn verður fyrir valinu á litla, alíslenska úthverfabæinn okkar – verða Rökkurhæðir Die DämmerungHöhe?

Rökkurhæðir í útrás