Rökkurhæðir

rokkur

Bókabeitan var upphaflega stofnuð utan um Rökkurhæðabækurnar. Bækurnar sem við Birgitta höfðum svo mikla trú á að við vildum sjálfar fá að ákveða allt í kringum þær. Allt frá leturstærð til kápuhönnunar og þaðan yfir í tímasetningu á útgáfu. (Okkur hafði reyndar ekki órað fyrir öllu umstanginu sem fylgir því að koma út einni bók eða öllu fólkinu sem kemur að ferlinu eftir að rithöfundur hefur lokið sínu en það er önnur saga).
Nú erum við að leggja lokahönd á sjöttu bókina í flokknum en erum jafnframt að skrifa þá sjöundu og lokaþríleikinn. Það var nefnilega ákveðið, strax í byrjun, að flokkurinn hefði upphaf og endi. Því var mikilvægt að fá kápu og útlit sem við værum sáttar við og sem myndi henta öllum bókunum, ekki bara Rústunum og Óttulundi heldur einnig þeim sem enn voru óskrifaðar. Kápurnar fyrir Vökumanninn (2014) og Atburðinn (2015) voru til dæmis unnar á sama tíma og kápan á Gjöfina, sem kom út í október 2013.
En það er ekki flóknasti hlutinn. Utanumhald í kringum kápur er kökubiti í samanburði við utanumhald samfélagsins í Rökkurhæðum. Hverjir eru saman í bekk? Hvaða foreldri er læknir, hver vinnur á leikskólanum. Hvað gerðist eiginlega í Rústunum og er einhver ástæða til að leggja nafn Runólfs á minnið … eða Nonna í Nonnabúð? Við settum okkur nefnilega tvö markmið í upphafi sem hefur satt best að segja verið svolítil áskorun að samræma:
1 – Hver bók er sjálfstæð
2 – Bækurnar tengjast innbyrðis
Það á semsagt að vera hægt að lesa hverja bók staka, hún á að hafa upphaf og endi og vera óháð öðrum bókum í flokknum, en með því að lesa fleiri getur lesandi búið sér til stærri mynd af samfélaginu og atburðunum í Rökkurhæðum. Við lýsum þessu stundum eins og púsluspili þar sem hver bók geymir nokkra bita úr heildarmyndinni.

Það sem er erfiðast er þó kannski að allar þessar 10 bækur spanna mjög stutt tímabil … minna en eitt og hálft ár! Sem þýðir að tíminn í þeim skarast og þar sem aðalpersóna í einni bók getur verið aukapersóna í annarri þá þýðir það jafnvel sitt hvort sjónarhornið á sama atburðinn. Risastór excel skjöl halda utan um öll þessi smáatriði. En … persónur og atburðir eiga það til að þróast og taka völdin af ritaranum – excel á fá svör við því …
Gagnabanki Rökkurhæða er svo til tilbúinn og það eina sem okkur Birgittu skortir er nægur tími og friður til að ljúka við síðustu fjórar bækurnar. Listamannalaun í 8-12 mánuði kæmu sér einstaklega vel 🙂

Frankfurt 2014

Við Birgitta ákváðum í fyrra að tímabært væri að mæta á þessa risastóru bókamessu sem allir eru að tala um. midarEiginmönnum okkar fannst tilvalið að þar yrðum við ekki bara til skrauts heldur reyndum jafnframt að koma bókunum okkar á framfæri hjá erlendum útgefendum. Birgitta snaraði því kynningartexta um íslensku útgáfuna okkar yfir á ensku og við fengum svo yndislega, enskumælandi konu, Julian, til að yfirfara hann og laga, og snillinginn hann Villa Warén til að setja hann upp þannig að úr varð þessi flotti bæklingur.
Eins og það hefur marga kosti að vera bæði útgefandi og rithöfundur þá hefur það einnig sína ókosti. Við erum með eindæmum hógværar konur og ekki mikið fyrir að hampa okkar eigin bókum. Til að mynda var ekki haldið útgáfupartý fyrr en Ófriður kom út, fjórða bókin í flokknum, og þá vegna þess að Hilmar Örn, Kamillupabbi stakk upp á sameiginlegri gleði.

En – bæklingurinn er kominn úr prentun, með Rökkurhæðir á forsíðu, og lagður af stað til Frankfurt ásamt sýnishornum af útkomnum bókum. Fyrir áhugasama (trúlega allir sem þetta lesa *blikk*) má nálgast rafræna útgáfu  HÉR – endilega kíkið.

Kveðja frá Mörtu, yfirbloggara!

Rökkurhæðir