Afbrigði Morgunblaðið 25. nóvember 2013. Anna Lilja Þórisdóttir

Samfélag í fimm fylkjum

Afbrigði ****

Höfundur: Veronica Roth
Björt 2013. 494 bls.

Þríleikurinn Divergent, sem hlotið hefur nafnið Afbrigði á íslensku, hefur farið sigurför um heiminn frá því að fyrsta bókin kom út í Bandaríkjunum vorið 2011. Síðasta bókin í röðinni kom út í október síðastliðnum og kvikmynd eftir þeirri fyrstu er væntanleg.

Hér er um að ræða dystópíu, sem er útskýrt hér að framan, sögusviðið er Chicago-borg framtíðarinnar þar sem samfélaginu er skipt í fimm fylki sem hvert um sig endurspeglar tiltekna dyggð eða lífsgildi. Í upphafi sögu er aðalpersónan, hin 16 ára Beatrice, að undirbúa sig fyrir valdaginn, þar sem hún og aðrir jafnaldrar hennar velja hvaða fylki þau ætla að tilheyra það sem eftir er ævinnar. Fyrir suma er þetta val auðvelt, en ekki fyrir Beatrice því hún er svokallað afbrigði sem á heima í fleiri en einu fylki.

Heimsmyndin sem upp er dregin er býsna vel smíðuð, yfirbragðið hrátt og óvægið, sögupersónur taka hver aðra engum vettlingatökum og sumar ofbeldisfyllri senurnar hefðu alveg mátt missa sín, þær þjóna litlum tilgangi fyrir framvindu sögunnar og eru þarna einungis ofbeldisins vegna.

Hér er í rauninni flest það sem prýða má góða ungmennabók; hraði, spenna, fyrsta ástin og áhugaverðar persónur. Það er auðvelt að hrífast með og sökkva sér niður í bókina og svo er bókin afar vel þýdd af Magneu J. Matthíasdóttur.

Samfélag í fimm fylkjum