Nýjustu bækur Bókabeitunnar hafa aldeilis fengið góðar viðtökur og hreint frábæra dóma.

Síðast í morgun fékk Kamilla Vindmylla heilar fjórar stjörnur í Fréttablaðinu. Umsögn Brynhildar gagnrýnanda er m.a.: „Ég frussaði af hlátri við lestur bókarinnar, svo illilega að á blaðsíðu 47 er nú risastór kaffiblettur.“

Anna Lilja í Morgunblaðinu hafði þetta um Kamillu að segja: „… í fáum orðum sagt; alveg gríðarlega skemmtileg bók. Bráðfyndin, vel skrifuð og krakkarnir í bókinni ofsalega flottir.“

Við erum hjartanlega sammála, Kamilla Vindmylla og bullorðna fólkið er rækilega fyndin bók!

Í desember fékk nýjasta Rökkurhæðabókin – Ófriður – líka 4 stjörnur í Fréttablaðinu og gagnrýnandi var svo spenntur eftir lesturinn að honum (henni):  „… var svo um og ó að ég hljóp strax og fann fyrstu þrjár bækurnar og gleypti þær í mig. Það er langt síðan unglingabók hefur komið mér jafn mikið á óvart og síðustu blaðsíðurnar í bókinni Ófrið.“

Druslubækur og doðrantar hafa einnig fjallað um Ófrið og segja meðal annars:  „Ógnin er áþreifanleg og sagan er virkilega óhugnanleg; ekki bara fyrir tilstilli einhverra einstakra hryllingstrixa heldur hefur maður á tilfinningunni að hvað sem er geti gerst og ekki sé endilega hægt að afstýra öllu illu (eins og kemur á daginn).“

Í Morgunblaðinu 15. desember var einnig fjallað um Ófrið og þótti gagnrýnanda bókin vera: „… hröð, vel uppbyggð, grimm og fyndin.“

Grimmsystur: Ævintýraspæjarar er fyrsta þýdda bókin sem Bókabeitan gefur út. Bókin fékk ljómandi góðar viðtökur og starfsfólk bókaverslana valdi hana þriðju bestu þýddu barnabókina. Gagnrýnandi Morgunblaðsins gaf henni 3 og hálfa stjörnu og þykir ekki „… að undra að bækurnar hafi fengið jafngóðar viðtökur og raun ber vitni, því fyrir utan ferska nálgun á gömul ævintýri og persónur þeirra, þá er hér á ferðinni skemmtileg, hnyttin, spennandi og snörp saga sem vafalaust skemmtir mörgum, bæði börnum og fullorðnum.“

 

Stjörnum prýddar Bókabeitubækur!