LaerlingurinnMorgunblaðið 20.desember 2013. Anna Lilja Þórisdóttir

Unglingabók frá helvíti

Lærlingur djöfulsins eftir Kenneth Bøgh Andersen.

Þýðandi: Harpa Jónsdóttir

Björt, 2013. 304 bls.

Djöfullinn sjálfur er lífshættulega veikur og þarf því að huga að eftirmanni sínum. Til starfans finnur hann sérlega slæman pilt, en vegna mistaka verður prúðmennið Filip Engils fyrir valinu. Sá þægi og sannsögli piltur er þar með lentur í helvíti hjá þeim svarta sjálfum þar sem hann þarf að tileinka sér ýmsa illsku til að geta tekið við af honum.

Í neðra er býsna skrautlegt persónugallerí; krökkt af fordæmdum mannverum, djöflum og demónum og þar þarf Filip meðal annars að leysa dularfulla gátu og læra að treysta öðrum. Svo er ýmsum þörfum spurningum velt upp, t.d. er aldrei nokkurn tímann réttlætanlegt að ljúga?

Bókin er sú fyrsta í röð fjögurra bóka danska rithöfundarins Kenneth Bøgh Andersen um Djöflastríðið mikla sem hefur fengið afbragðs viðtökur í Danmörku og hún lofar býsna góðu. Undirrituð hefur aldrei nokkurn tímann lesið barna- eða unglingabók sem gerist í helvíti og átti satt best að segja ekkert endilega von á að einhver myndi skrifa slíka bók. En það er gott að Bøgh Andersen lét verða af því, því hér er á ferðinni afar frumleg, bráðfyndin, vel skrifuð og hressileg bók með vænum skammt af óhugnaði, þar sem menn láta fara vel um sig í rafmagnsstólum, dreypa á blóði og gæða sér á leðurblökum.

Sagan er vel upp byggð, mætti að ósekju fara aðeins hraðar í gang en grípur síðan býsna fljótt og heldur fast til enda. Ekki kæmi á óvart að Lærlingur djöfulsins myndi höfða til breiðs hóps barna og fullorðinna, líka þeirra sem lesa sjaldan sér til skemmtunar. Og það hlýtur að vera ansi gott, einkum í ljósi nýjustu Pisa-niðurstaðna.

Unglingabók frá helvíti