FYRSTI KAFLI
HEIMA HJÁ MÉR er einn spegill. Hann er á bak við renniþil á ganginum á efri hæðinni. Fylkið okkar leyfir að ég standi fyrir framan hann annan daginn í þriðja hverjum mánuði, daginn þegar mamma klippir mig.
                Ég sit á kollinum og mamma stendur fyrir aftan mig með skærin og snyrtir á mér hárið. Skollitir lokkar falla í hring í kringum stólinn.
                Þegar mamma hættir að klippa tekur hún hárið frá andlitinu á mér og snýr það í hnút. Ég dáist að rólyndissvipnum á henni og hvað hún virðist einbeita sér algjörlega að verkinu. Hún er þrautþjálfuð í listinni að gleyma sjálfri sér. Ég get ekki sagt það sama um mig.
                Ég laumast til að skoða spegilmynd mína þegar hún sér ekki til – ekki af hégómaskap heldur forvitni. Útlit fólks getur breyst mikið á þremur mánuðum. Í speglinum sé ég mjótt andlit, stór, kringlótt augu og langt og mjótt nef – ég lít enn út eins og lítil stelpa þótt ég hafi orðið sextán ára einhvern tíma á síðustu mánuðum. Hin fylkin halda upp á afmælisdaga en við gerum það ekki. Slíkt væri sjálfsdekur.
                „Svona,“ segir hún og nælir hnútinn fastan. Augu okkar mætast í speglinum. Það er of seint að líta undan en mamma skammar mig ekki heldur brosir að spegilmynd okkar. Ég gretti mig dálítið. Af hverju ávítar hún mig ekki fyrir að glápa á sjálfa mig?
                „Í dag er komið að því,“ segir hún.
                „Já,“ svara ég.
                „Ertu kvíðin?“
                Ég horfi snöggvast í augun á sjálfri mér. Í dag verður hæfnisprófið sem sýnir hvert af fylkjunum fimm hentar mér best. Og í Valinu á morgun kýs ég fylki, ákveð hvernig ég ætla að verja lífinu, hvort ég ætli að vera kyrr hjá fjölskyldu minni eða segja skilið við hana.
                „Nei,“ segi ég. „Niðurstöðurnar úr prófinu þurfa ekki að breyta ákvörðun okkar.“
                „Alveg rétt.“ Hún brosir. „Fáum okkur morgunmat.“
                „Takk. Fyrir að klippa mig.“
                Hún kyssir mig á kinnina og rennir þilinu fyrir spegilinn. Ég held að mamma gæti verið falleg í öðruvísi umhverfi. Hún er tággrönn undir gráa kuflinum. Hún hefur há kinnbein og löng augnhár og hárið fellur í bylgjum yfir axlirnar þegar hún leysir það úr hnútnum á kvöldin. En þá fegurð þarf hún að fela í Ósérplægni.
                Við göngum saman niður í eldhús. Morgnana þegar bróðir minn sér um morgunverðinn og pabbi klappar mér létt á kollinn og heldur áfram að lesa blaðið sitt og mamma raular á meðan hún tekur af borðinu – þá morgna kvelur samviskubitið yfir að vilja fara frá þeim mig mest.
Það er útblástursstybba í strætisvagnunum. Á holóttum vegarköflum hristist ég alltaf til og frá þótt ég haldi mér í sætið til að reyna að vera kyrr.
                Stóri bróðir minn, Caleb, stendur á ganginum milli sætanna og heldur um stöng í loftinu til að missa ekki jafnvægið. Við erum ekkert lík. Hann er dökkhærður og með arnarnef eins og pabbi og grænu augun og spékoppana hefur hann frá mömmu. Þegar hann var yngri kom þetta sérkennilega út en núna er hann mjög myndarlegur. Ég er viss um að stelpurnar í skólanum myndu glápa á hann ef hann væri ekki Ósérplæginn.
                Hann hefur líka erft hæfileika mömmu til sjálfsafneitunar. Hann eftirlét geðstirðum karli frá Bersögli sætið sitt í strætó án þess að hugsa sig um.
                Bersöglismaðurinn er í svörtum jakkafötum og með hvítt bindi, sem er hálfgerður einkennisbúningur Bersögli. Fylkið metur heiðarleika og hreinskilni mest og skiptir sannleikanum í svart og hvítt, svo að þess vegna klæðast þau svona.
                Bilið á milli húsanna minnkar og göturnar verða sléttari eftir því sem við komum nær hjarta borgarinnar. Húsið sem hét einu sinni Sears Tower – við köllum það Ásinn – gnæfir upp úr þokunni, svartur stólpi sem nær til himins. Strætisvagninn ekur undir upphækkaða lestarteinana. Ég hef aldrei komið upp í lest þótt þær séu stöðugt á ferðinni og lestarspor út um allt. Enginn nema Hugprýði ferðast með þeim.
                Fyrir fimm árum gerðust byggingaverkamenn frá Ósérplægni sjálfboðaliðar og endurlögðu hellurnar á sumum götunum. Þeir byrjuðu í miðborginni og unnu sig í áttina að borgarmörkunum þangað til efniviðurinn var á þrotum. Göturnar í hverfinu mínu eru enn sprungnar og holóttar og það er ekki óhætt að aka á þeim. Við eigum hvort eð er ekki bíl.
                Svipurinn á Caleb er friðsæll þó að strætisvagninn ruggi og hnykkist til og frá á götunni. Hann heldur sér í stöngina og því renna gráar ermarnar niður handleggina á honum. Augu hans hvika til og frá og þannig veit ég að hann er að fylgjast með farþegunum í kringum okkur – reyna að sjá ekki annað en þá og gleyma sjálfum sér. Bersögli hefur hreinskilni í hávegum en fylkið okkar, Ósérplægni, metur sjálfsafneitun mest.
                Strætisvagninn stansar fyrir framan skólann og ég stend upp og skýst framhjá Bersöglismanninum. Ég gríp í handlegginn á Caleb um leið og ég hrasa um skó mannsins. Buxurnar mínar eru of síðar og ég hef aldrei verið sérlega þokkafull í hreyfingum.
                Efstastigshúsið er elst af skólunum þremur í borginni, Grunnstigi, Miðstigi og Efsta stigi. Það er úr gleri og stáli eins og öll hin húsin í kringum það. Fyrir framan skólann er stór höggmynd úr málmi sem Hugprýðikrakkarnir klifra í eftir skólann og þá skora þau hvert á annað að klífa hærra og hærra. Í fyrra sá ég eina stelpuna detta niður og fótbrotna. Það var ég sem hljóp að sækja hjúkrunarkonuna.
                „Hæfnisprófið er í dag,“ segi ég. Caleb er ekki alveg heilu ári eldri en ég, svo að við erum á sama ári í skólanum.
                Hann kinkar kolli um leið og við göngum inn um dyrnar. Ég spennist öll upp strax og við komum inn. Hungrið liggur í loftinu, eins og allir sextán ára krakkarnir reyni að gleypa í sig eins mikið og þau geta af þessum lokadegi. Eftir Valið göngum við líkast til aldrei framar um þessa ganga – þegar við höfum tekið ákvörðun er ábyrgðin á frekari menntun okkar á hendi nýju fylkjanna sem við völdum okkur.
                Í dag eru tímarnir okkar helmingi styttri en venjulega svo að við getum mætt í þá alla fyrir hæfnisprófið, sem verður eftir hádegi. Hjartað í mér er strax farið að slá hraðar.
                „Hefurðu engar áhyggjur af því hvað þér verður sagt?“ spyr ég Caleb.
                Við stöldrum við þar sem gangarnir mætast og hann fer aðra leiðina, í æðri stærðfræði, en ég í hina, í fylkjasögu.
                Hann lyftir annarri augabrúninni. „Hefur þú það?“
                Ég gæti sagt honum að ég hafi kviðið því vikum saman hvað kæmi út úr hæfnisprófinu – verður það Ósérplægni, Bersögli, Fjölvísi, Samlyndi eða Hugprýði?
                Í staðinn brosi ég og segi: „Eiginlega ekki.“
                Hann brosir á móti. „Jæja … gangi þér vel í dag.“
                Ég fer í fylkjasögu og japla á neðri vörinni á leiðinni. Hann svaraði ekki spurningunni minni.
                Á göngunum er þröng á þingi þótt birtan sem berst inn um gluggana blekki augað og láti þá sýnast rúmbetri en þeir eru. Þetta er einn af fáum stöðum þar sem krakkar á okkar aldri úr öllum fylkjum koma saman. Í dag geislar nýstárleg orka af mannþrönginni, sannkallað lokadagsæði.
                Stelpa með síða lokka æpir „Hæ!“ við hliðina á mér og veifar vini í fjarska. Jakkaermi slæst í kinnina á mér. Svo stjakar Fjölvísistrákur í blárri peysu við mér. Ég missi jafnvægið og skell harkalega á gólfið.
                „Drullastu frá, Stjarfi,“ hreytir hann út úr sér og heldur áfram eftir ganginum.
                Mér hitnar í vöngum. Ég stend upp og dusta af mér rykið. Nokkrir krakkar stönsuðu þegar ég datt en enginn þeirra bauðst til að hjálpa mér. Þeir elta mig með augunum út í endann á ganginum. Aðrir í fylkinu mínu hafa lent í svona atvikum hvað eftir annað mánuðum saman – Fjölvísi fór að senda frá sér fjandsamlegar skýrslur um Ósérplægni og þær eru farnar að hafa áhrif á samskipti okkar í skólanum. Gráu fötin, látlausa hárgreiðslan og hlédræg framkoman sem fylkið mitt tileinkar sér á að gera mér léttara fyrir að gleyma sjálfri mér og auðvelda öllum öðrum að gleyma mér líka. En nú gerir þetta mig að skotmarki.
                Ég doka við hjá glugga í E-álmu og bíð eftir að Hugprýði mæti. Ég geri þetta á hverjum morgni. Á slaginu klukkan 7:25 sanna Hugprýðikrakkarnir hugrekki sitt með því að stökkva úr lest á ferð.
                Pabbi kallar Hugprýðikrakkana „villinga“. Þau eru götuð, húðflúruð og svartklædd. Helsta markmið þeirra er að verja girðinguna í kringum borgina. Ekki veit ég fyrir hverju.
                Ég ætti að furða mig á þeim. Ég ætti að velta því fyrir mér hvernig hugrekki – sú dyggð sem þau meta mest – tengist málmhring í nös. Í staðinn elti ég þau með augunum hvert sem þau fara.
                Lestarflautan blæs og hávært flautið bergmálar í brjóstinu á mér. Ljósið framan á lestinni kviknar og slokknar til skiptis á meðan hún æðir ískrandi framhjá skólanum eftir járnteinum. Og um leið og síðustu vagnarnir aka framhjá á fleygiferð stekkur út heil hjörð af ungum körlum og konum í svörtum fötum. Sumir fleygja sér niður og velta sér eftir jörðinni en aðrir hrasa nokkur skref og ná svo jafnvæginu aftur. Einn strákurinn leggur handlegginn yfir herðarnar á stelpu og hlær.
                Það er kjánalegt af mér að glápa svona á þau. Ég sný mér frá glugganum og geng í gegnum mannþröngina inn í fylkjasögustofuna.
ANNAR KAFLI
PRÓFIÐ HEFST eftir hádegi. Við sitjum við löng borðin í mötuneytinu og prófstjórarnir kalla upp tíu nöfn í einu, einn í hvern prófklefa. Ég sit við hliðina á Caleb, beint á móti Susan nágranna okkar.
                Pabbi Susan ferðast um alla borgina vegna vinnunnar svo að hann hefur bíl til umráða og ekur henni í skólann og sækir hana á hverjum degi. Hann bauð okkur líka far en við viljum frekar leggja seinna af stað og viljum alls ekki ómaka hann, eins og Caleb segir.
                Auðvitað ekki.
                Prófstjórarnir eru flestir sjálfboðaliðar úr Ósérplægni þótt fulltrúi frá Fjölvísi sé í einum prófklefanum og annar frá Hugprýði í öðrum til að prófa okkur úr Ósérplægni, því reglurnar kveða svo á að fulltrúar okkar fylkis megi ekki prófa okkur. Reglurnar banna okkur líka að búa okkur sérstaklega undir prófið svo að ég veit ekki við hverju má búast.
                Ég lít af Susan á Hugprýðiborðin hinum megin í salnum. Krakkarnir hlæja og kallast á og spila á spil. Við önnur borð rabba Fjölvísikrakkarnir saman yfir bókum og dagblöðum, ævinlega að bæta við þekkingu sína.
                Samlyndisstelpur í gulum og rauðum fötum sitja í hring á gólfi mötuneytisins og eru í einhverjum leik sem snýst um að klappa saman höndum í takt við þulu. Á nokkurra mínútna fresti kveða við hlátrasköll þegar einhver þeirra er úr leik og þarf að setjast í miðjan hringinn. Við hliðina á stelpunum sitja strákar úr Bersögli, baða út höndunum og pata í allar áttir. Þeir virðast vera að þræta um eitthvað en það er varla alvarlegt því sumir þeirra eru brosandi.
                Við Ósérplægniborðið sitjum við öll hljóðlát og bíðum. Siðvenjur fylkjanna ná meira að segja yfir frístundir og ganga fyrir persónulegri löngun. Ég efast um að Fjölvísikrakka langi til að vera alltaf að læra og að allir í Bersögli hafi gaman af líflegum rökræðum en þau geta ekki brotið í bága við það sem tíðkast í fylkinu þeirra frekar en ég.
                Caleb er í næsta hópi sem er kallaður upp. Hann gengur öruggur í bragði að dyrunum. Ég þarf ekki einu sinni að óska honum góðs gengis eða hughreysta hann og segja honum að vera ekki kvíðinn. Hann veit hvar hann á heima og ég veit ekki betur en að hann hafi alltaf vitað það. Fyrsta minningin mín um hann er frá því að við vorum fjögurra ára gömul. Hann skammaði mig fyrir að eftirláta ekki sippubandið mitt lítilli stelpu sem hafði ekkert að leika sér að. Hann les sjaldan yfir hausamótunum á mér núna en ég man vel vanþóknunarsvipinn á honum.
                Ég hef reynt að útskýra fyrir honum að ég sé í eðli mínu ólík honum – það hvarflaði ekki einu sinni að mér að bjóða Bersöglismanninum sætið mitt í strætó – en hann skilur mig ekki. „Gerðu bara það sem þér ber að gera,“ segir hann alltaf. Svona auðvelt er það fyrir hann. Það ætti að vera eins auðvelt fyrir mig.
                Maginn í mér herpist saman. Ég loka augunum og opna þau ekki fyrr en tíu mínútum síðar, þegar Caleb sest aftur við borðið.
                Hann er náfölur. Hann strýkur lófunum eftir fótleggjunum eins og ég þegar ég þurrka af mér svita og fingur hans skjálfa þegar hann lyftir höndunum aftur. Ég opna munninn til að spyrja hann um eitthvað en orðin koma ekki. Ég má ekki spyrja hann um niðurstöðurnar og hann má ekki segja mér þær.
                Sjálfboðaliði úr Ósérplægni þylur upp næstu nöfn. Tveir úr Hugprýði, tveir úr Fjölvísi, tveir úr Samlyndi, tveir úr Bersögli og svo: „Frá Ósérplægni: Susan Black og Beatrice Prior.“
                Ég stend upp af því að ég á að gera það en ef ég fengi að ráða myndi ég ekki hreyfa mig úr sætinu fyrr en þetta væri allt saman yfirstaðið. Mér finnst loftbóla þenjast út í brjóstinu á mér og stækka með hverju andartaki eins og hún ætli að sprengja mig í tætlur. Ég elti Susan að dyrunum. Fólkið sem við göngum framhjá þekkir okkur sjálfsagt ekki í sundur. Við erum eins klæddar og ljóst hárið á báðum greitt á sama hátt. Eini munurinn er að Susan líður kannski ekki eins og hún þurfi að gubba og að því er ég best fæ séð skjálfa hendurnar á henni ekki svo mikið að hún þurfi að halda dauðahaldi í blússufaldinn til að leyna því.
                Þegar við komum út úr mötuneytinu bíða okkar tíu klefar í röð. Þeir eru eingöngu notaðir í hæfnisprófið svo að ég hef aldrei áður komið inn í neinn þeirra. Þeir eru frábrugðnir öðrum stofum skólans að því leyti að skilveggirnir eru ekki úr gleri heldur speglum. Ég horfi á sjálfa mig ganga föla og skelfingu lostna að einum dyrunum. Susan brosir taugaóstyrk til mín um leið og hún fer inn í klefa 5 og ég geng inn í klefa 6 þar sem Hugprýðikona bíður eftir mér.
                Hún er ekki eins ströng að sjá og Hugprýðikrakkarnir sem ég hef séð. Augun í henni eru lítil og dökk og hún er í svörtum jakka – eins og karlmenn nota við jakkaföt – og gallabuxum. Það er ekki fyrr en hún snýr sér við til að loka að ég sé húðflúrið aftan á hálsinum á henni, svartan og hvítan fálka með rautt auga. Ef ég væri ekki með hjartað í hálsinum myndi ég spyrja hana hvað fuglinn táknar. Hann hlýtur að tákna eitthvað.
                Speglar þekja alla veggi klefans. Ég sé spegilmynd mína úr öllum áttum: grá fötin sem leyna lögun baksins, langan hálsinn, hnúastórar hendur, rauðar af blóðstreymi. Loftið er hvítglóandi af ljósum. Í miðjum klefanum er stillanlegur stóll eins og hjá tannlækni og vél við hliðina á honum. Þetta lítur út fyrir að vera staður þar sem skelfilegir hlutir gerast.
                „Bara róleg,“ segir konan. „Þetta er ekkert sárt.“
                Hárið á henni er svart og slétt en hér er svo bjart að ég sé líka gráa lokka.
                „Fáðu þér sæti og láttu fara vel um þig,“ segir hún. „Ég heiti Tori.“
                Ég sest klunnalega í stólinn, halla mér aftur og legg höfuðið á hnakkapúðann. Ljósið sker í augun. Tori fæst eitthvað við tækið hægra megin við mig. Ég reyni að horfa á hana en ekki vírana í höndunum á henni.
                „Hvers vegna ertu með fálka?“ hrekkur upp úr mér þegar hún festir rafskaut á ennið á mér.
                „Ég hef aldrei áður hitt forvitinn Ósérplæging,“ segir hún og lyftir brúnum.
                Hrollur fer um mig og ég fæ gæsahúð á handleggina. Forvitnin var fljótfærni og svik við gildin sem Ósérplægni hefur í heiðri.
                 Hún raular lágt, festir annað rafskaut við ennið á mér og útskýrir málið. „Til forna var fálkinn táknmynd sólarinnar í sumum heimshlutum. Þegar ég fékk mér þennan hugsaði ég með mér að ef sólin væri alltaf hjá mér yrði ég ekki myrkfælin.“
                Ég reyni að stilla mig um að spyrja meira en ræð ekki við mig. „Ertu myrkfælin?“
                „Ég var myrkfælin,“ leiðréttir hún mig. Hún festir næsta rafskaut á ennið á sjálfri sér og tengir svo vír við það. Hún ypptir öxlum. „Núna minnir hann mig á óttann sem ég sigraðist á.“
                Hún tekur sér stöðu fyrir aftan mig. Ég kreisti stólarmana svo fast að hnúarnir hvítna og hætta að vera rauðir. Hún togar til sín víra, festir þá við mig, við sjálfa sig, við tækið fyrir aftan sig. Svo réttir hún mér lyfjaglas með glærum vökva.
                „Drekktu þetta,“ segir hún.
                „Hvað er þetta?“ Mér finnst hálsinn vera bólginn. Ég kyngi ákaft. „Hvað gerist svo?“
                „Ég get ekki sagt þér það. Treystu mér bara.“
                Ég anda djúpt frá mér og helli innihaldi lyfjaglassins upp í mig. Augu mín lokast.
Þegar þau opnast andartaki seinna er ég stödd annars staðar. Ég er komin aftur í mötuneytið en enginn situr við löngu borðin og ég sé út um glerveggina að það er farið að snjóa. Á borðinu fyrir framan mig standa tvær körfur. Í annarri er stór ostbiti en í hinni hnífur, álíka langur og framhandleggurinn á mér.
                „Veldu,“ segir kvenmannsrödd fyrir aftan mig.
                „Af hverju?“ spyr ég.
                „Veldu,“ endurtekur hún.
                Ég lít um öxl en þar er enginn. Ég sný mér aftur að körfunum. „Hvað á ég að gera við þetta?“
                „Veldu!“ æpir hún.
                Þegar hún öskrar á mig gufar óttinn upp og þrjóskan kemur í staðinn. Ég set í brýnnar og krosslegg handleggina.
                „Þú um það,“ segir hún.
                Körfurnar hverfa. Ég heyri ískra í hjörum og sný mér við til að gá hver sé að koma inn. Ég sé ekki mann heldur dýr. Hundur með frammjótt trýni stendur nokkra metra frá mér. Hann leggur niður kviðinn, læðist að mér og lætur skína í hvítar tennurnar. Urr berst djúpt úr koki hans og ég skil hvers vegna osturinn hefði komið sér vel. Eða hnífurinn. En nú er það orðið of seint.
                Mér dettur í hug að hlaupa burt en hundurinn væri fljótari en ég. Ég get ekki snúið hann niður. Það dynur í höfðinu á mér. Ég verð að ákveða mig. Ef ég gæti stokkið yfir eitt borðið og skýlt mér á bak við það – nei, ég er of lágvaxin til að stökkva yfir borð og ekki nógu sterk til að velta því á hliðina.
                Hundurinn urrar og mér finnst hljóðið næstum bergmála í höfðinu á mér.
                Í líffræðibókinni minni stóð að hundar finni lykt af ótta út af efnum sem kirtlar mannslíkamans gefa frá sér þegar hætta steðjar að, sömu efnasamböndum og myndast hjá bráð hundanna. Þeir gera árás þegar þeir finna lykt af ótta. Hundurinn mjakar sér nær mér og klærnar á honum skrapast eftir gólfinu.
                Ég get ekki flúið. Ég get ekki barist. Í staðinn anda ég að mér ólyktinni út úr hundinum og reyni að hugsa ekki um hvað hann át síðast. Í augum hans sést engin hvíta, bara glampandi sorti.
                Hvað veit ég fleira um hunda? Ég á ekki að horfa í augun á þeim. Það er til marks um árásarhneigð. Ég man að ég bað pabba um að gefa mér hund þegar ég var lítil en þegar ég horfi núna á gólfið fyrir framan hundslappirnar get ég ómögulega munað hvers vegna. Hundurinn færir sig nær og urrar enn. Ef það gefur til kynna árásarhneigð að horfast í augu við hann, hvað táknar þá undirgefni?
                Andardráttur minn er hávær en reglulegur. Ég læt fallast á hnén. Mig langar síst af öllu til að leggjast flöt fyrir framan þennan hund – þá verða tennurnar í honum í sömu hæð og andlitið á mér – en það er besti kosturinn við þessar aðstæður. Ég rétti úr fótunum og halla mér fram á olnbogana. Hundurinn læðist nær og nær þangað til ég finn heitan andardrátt hans á andliti mínu. Handleggirnir á mér skjálfa.
                Hundurinn geltir í eyrað á mér og ég bít saman tönnunum til að fara ekki að æpa.
                Eitthvað hrjúft og blautt kemur við vanga minn. Hundurinn er hættur að urra og þegar ég lyfti höfðinu og lít aftur á hann situr hann másandi með lafandi tungu. Hann sleikti mig í framan. Ég hnykla brýnnar og sest á hælana. Hundurinn leggur framfæturna á hnén á mér og sleikir á mér hökuna. Ég hrökklast undan, þurrka slefuna af mér og hlæ.
                „Þú ert þá ekki sérlega grimmur þegar allt kemur til alls.“
                Ég stend hægt upp til að honum bregði ekki en þetta er allt annað dýr en ég stóð frammi fyrir rétt áðan. Ég rétti höndina varlega fram til að geta kippt henni að mér ef þörf krefur. Hundurinn hnubbar við henni með hausnum. Ég verð allt í einu fegin að hafa ekki valið hnífinn.
                Ég depla augunum og þegar ég opna þau aftur stendur telpa í hvítum kjól hinum megin í herberginu. Hún breiðir út faðminn og skríkir: „Voffi!“
                Hún hleypur af stað í áttina að hundinum við hliðina á mér og ég opna strax munninn til að vara hana við en það er of seint. Hundurinn snýr sér við. Í stað þess að urra geltir hann og glefsar froðufellandi og vöðvarnir hnyklast eins og vírrúllur. Hann ætlar að ráðast á telpuna. Ég hugsa mig ekki um, ég stekk bara. Ég kasta mér á hundinn og vef handleggjunum um digran svírann.
                Höfuðið á mér skellur á jörðinni. Hundurinn er horfinn og það er litla telpan líka. Núna er ég ein – ennþá stödd í prófunarklefanum sem nú er mannlaus. Ég sný mér hægt í hring en sé ekki sjálfa mig í neinum af öllum speglunum. Ég opna dyrnar og geng fram á gang en þetta er ekki gangur heldur strætisvagn og öll sætin eru upptekin.
                Ég stend á ganginum milli sætanna og held mér í stöng. Skammt frá mér er maður með dagblað. Ég sé ekki framan í hann fyrir blaðinu en ég sé hendurnar á honum. Þær eru öróttar eins og hann hafi brennt sig og halda fast um blaðið eins og hann vilji helst kuðla því saman,
                „Þekkirðu þennan mann?“ spyr hann. Hann bendir á myndina á forsíðunni. Fyrirsögnin er „Harðsvíraður morðingi loksins handsamaður!“. Ég stari á orðið „morðingi“. Það er langt síðan ég sá það síðast en jafnvel stafagerðin gerir mig óttaslegna.
                Á myndinni fyrir neðan fyrirsögnina er ungur maður með hversdagslegt andlit og skegg. Mér finnst ég þekkja hann en man samt ekki hvernig. Mig grunar líka að það sé ekki ráðlegt að segja manninum það.
                „Jæja?“ Ég heyri reiðihljóminn í rödd hans. „Þekkirðu hann?“
                Ekki ráðlegt – nei, afskaplega vond hugmynd. Hjartað hamast í brjóstinu á mér og ég held fast um stöngina til að hendurnar á mér skjálfi ekki og komi þannig upp um mig. Ef ég segi honum að ég þekki manninn úr fréttinni kemur eitthvað voðalegt fyrir mig. En ég get sannfært hann um að svo sé ekki. Ég get ræskt mig og yppt öxlunum – en það væri lygi.
                Ég ræski mig.
                „Þekkirðu hann?“ endurtekur hann.
                Ég yppti öxlum.
                „Nú?“
                Það fer um mig hrollur. Ótti minn er út í hött; þetta er bara próf, það er ekki raunverulegt. „Nei,“ segi ég kæruleysislega. „Ég hef ekki hugmynd um hver þetta er.“
                Hann stendur upp og ég sé loksins framan í hann. Hann er með dökk sólgleraugu og munnurinn er afmyndaður í reiðilegri geiflu. Kinnarnar eru alsettar örum, alveg eins og hendurnar. Hann hallar sér nær mér. Það er tóbaksþefur út úr honum. Ekki raunverulegt, áminni ég sjálfa mig. Ekki raunverulegt.
                „Þú lýgur því,“ segir hann. „Þú lýgur!“
                „Ég geri það ekki neitt.“
                „Ég sé það í augunum á þér.“
                Ég rétti betur úr mér. „Þú sérð það ekki neitt.“
                „Ef þú þekkir hann,“ segir hann lágt, „gætirðu bjargað mér. Þú gætir bjargað mér!“
                Ég kipra augun. „Jæja,“ segi ég. Ég rek fram hökuna. „Ég þekki hann ekki.“
ÞRIÐJI KAFLI
ÉG RANKA VIÐ MÉR með sveitta lófa og sting í brjóstinu af samviskubiti. Ég ligg í stólnum í speglaherberginu. Þegar ég halla höfðinu aftur á bak sé ég Tori fyrir aftan mig. Hún herpir saman varirnar og tekur af okkur rafskautin. Ég bíð eftir að hún segi eitthvað um prófið – að því sé lokið eða að ég hafi staðið mig vel, en hvernig gæti ég svo sem staðið mig illa á svona prófi? – en hún segir ekki neitt og losar bara vírana af enninu á mér.
                Ég sest upp og þurrka lófana á buxunum. Ég hlýt að hafa gert eitthvað rangt, þótt þetta hafi allt saman gerst í huga mínum. Stafar skrítni svipurinn á Tori af því að hún veit ekki hvernig hún á að segja mér hvað ég sé voðaleg manneskja? Ég vildi óska þess að hún segði það bara hreint út.
                „Þetta var sérkennilegt,“ segir hún. „Afsakaðu snöggvast, ég verð enga stund.“
                Sérkennilegt?
                Ég dreg hnén upp að bringu og grúfi andlitið í þeim. Ég vildi að mig langaði til að gráta því tárin gætu fært mér einhvern létti en mig langar ekki til þess. Hvernig er hægt að falla á prófi sem maður má ekki undirbúa sig fyrir?
                Óróleiki minn eykst eftir því sem hún er lengur í burtu. Ég neyðist til að þurrka lófana í sífellu af því að ég svitna svo mikið – eða kannski geri ég það af því að það róar mig. Hvað ef þau segja mér að ég henti ekki fyrir neitt fylki? Þá yrði ég að búa á götunni hjá hinum fylkisleysingjunum. Ég gæti það ekki. Þeir sem standa utan fylkjanna búa ekki bara við fátækt og illan aðbúnað, þeir standa einnig utan samfélagsins, fjarri því sem skiptir mestu máli í lífinu: mannlegu samneyti.
                Mamma sagði mér einu sinni að við gætum ekki bjargað okkur ein og þótt við gætum það kannski myndum við ekki vilja það. Ef við ættum ekkert fylki hefðum við engan tilgang og enga ástæðu til að lifa.
                Ég hristi höfuðið. Ég má ekki hugsa svona. Ég verð að halda ró minni.
                Loksins opnast dyrnar og Tori kemur aftur inn. Ég gríp um stólarmana.
                „Fyrirgefðu að ég skuli hafa gert þig órólega,“ segir Tori. Hún stendur við fæturna á mér og hefur hendur í vösum. Henni virðist órótt og hún er föl.
                „Beatrice, niðurstöður úr prófinu þínu voru ekki afdráttarlausar,“ segir hún. „Yfirleitt eru eitt eða fleiri fylki útilokuð á hverju stigi hermingarinnar en í þínu tilviki voru bara tvö sem komu ekki til greina.“
                Ég glápi á hana. „Tvö?“ spyr ég. Ég er með svo þykkan kökk í hálsinum að ég kem varla upp orði.
                „Ef þú hefðir sýnt eðlislæga óbeit á hnífnum og valið ostinn hefði hermingin leitt þig inn í annað atriði sem hefði staðfest að Samlyndi hentaði þér vel. Það gerðist ekki og þar af leiðandi er Samlyndi úr sögunni.“ Tori klórar sér í hnakkagrófinni. „Oftast heldur hermingin áfram stig af stigi og ákveður eitt fylki með því að útiloka hin. Kostirnir sem þú valdir leyfðu ekki einu sinni útilokun á Bersögli, sem er næst í röðinni, svo að ég varð að breyta hermingunni og setja þig í strætisvagninn. Og þar með var Bersögli úr sögunni því þú þráaðist við að segja ósatt.“ Hún brosir lítillega. „Hafðu engar áhyggjur af því. Í því atriði segir enginn satt nema Bersöglingar.“
                Einn af hnútunum í brjóstinu á mér raknar upp. Kannski er ég þá ekki eins hræðileg manneskja og ég hélt.
                „Það er reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Þeir sem segja satt eiga heima í Bersögli … og Ósérplægni,“ segir hún. „Og þá er okkur vandi á höndum.“
                Ég gapi.
                „Annars vegar stökkstu á hundinn fremur en að leyfa honum að ráðast á telpuna, og þau viðbrögð sýna Ósérplægni … en hins vegar þrjóskaðistu við að segja sannleikann þótt maðurinn segði þér að það gæti bjargað honum.“ Hún andvarpar. „Þú flýðir ekki frá hundinum og það bendir til Hugprýði en sama máli gegnir um hnífinn sem þú tókst ekki.“
                Hún ræskir sig og heldur áfram. „Skynsamleg viðbrögð þín við hundinum gefa til kynna sterkan samhljóm með Fjölvísi. Ég hef ekki hugmynd um hvernig ég á að túlka hvað þú varst óákveðin á fyrsta stigi en –“
                „Bíddu aðeins,“ gríp ég fram í. „Þú hefur sem sagt ekki hugmynd um hvaða fylki hentar mér?“
                „Já og nei,“ segir hún. „Niðurstaða mín er að þú sért jafnhæf fyrir Ósérplægni, Hugprýði og Fjölvísi. Fólk sem fær svona niðurstöður er …“ Hún lítur um öxl eins og hún eigi von á að einhver birtist fyrir aftan sig. „Það er kallað … Afbrigði.“ Hún segir síðasta orðið svo lágt að ég heyri það naumast og órólegi áhyggjusvipurinn kemur aftur á hana. Hún gengur meðfram hliðinni á stólnum og hallar sér að mér.
                „Beatrice,“ segir hún. „Þú mátt ekki undir neinum kringumstæðum segja nokkrum manni frá þessu. Það er afskaplega mikilvægt.“
                „Við megum ekki segja frá niðurstöðunum okkar.“ Ég kinka kolli. „Ég veit það.“
                „Nei.“ Núna beygir Tori sig niður að stólnum og leggur handleggina á arminn. Hún rekur andlitið alveg upp að mér. „Þetta er öðruvísi. Ég átti ekki við að þú mættir ekki segja frá niðurstöðunni núna. Ég meinti að þú ættir aldrei að segja hana neinum, aldrei nokkurn tímann, sama hvað á dynur. Það er stórhættulegt að vera Afbrigði. Skilurðu það?“
                Ég skil ekki neitt – hvernig geta ófullnægjandi niðurstöður úr prófi verið hættulegar? – en kinka samt kolli. Mig langar hvort eð er ekkert til að segja frá niðurstöðunni úr prófinu mínu.
                „Allt í lagi.“ Ég sleppi takinu á örmum stólsins og stend upp. Ég er völt á fótunum.
                „Ég legg til að þú farir heim,“ segir Tori. „Þú þarft að velta mörgu fyrir þér og það er kannski ekki gott fyrir þig að bíða með hinum krökkunum.“
                „Ég þarf að segja bróður mínum hvert ég ætla.“
                „Ég læt hann vita.“
                Ég strýk hendinni yfir ennið og einblíni á gólfið á leiðinni út. Ég afber ekki að mæta augnaráði hennar. Ég afber ekki að hugsa um Valið á morgun.
                Núna þarf ég að velja, þrátt fyrir niðurstöðuna úr prófinu.
                Ósérplægni. Hugprýði. Fjölvísi.
                Afbrigði.
Ég ákveð að fara ekki heim með strætó. Ef ég kæmi snemma heim sæi pabbi það þegar hann fer yfir hússkrána um kvöldið og þá yrði ég að útskýra hvað gerðist. Ég vil frekar ganga. Ég þarf að ná tali af Caleb áður en hann segir foreldrum okkar eitthvað en Caleb kann að þegja yfir leyndarmáli.
                Ég geng á miðri götunni. Strætisvagnarnir halda sig yfirleitt við gangstéttarbrúnina svo að það er öruggara. Á sumum götunum í grennd við heimili mitt hef ég tekið eftir leifum af gulum línum sem voru málaðar á þær áður fyrr. Við þurfum þær ekki lengur því bílarnir eru svo fáir. Við þurfum ekki heldur umferðarljós en sums staðar hanga þau enn og dingla yfir götunni eins og þau gætu hrapað niður á hverri stundu.
                Endurreisn borgarinnar gengur hægt og bítandi og hún er eins og klútateppi úr nýjum, hreinum byggingum og gömlum, hálfhrundum húsum. Flestar nýbyggingarnar eru í grennd við mýrina sem var einu sinni stöðuvatn. Sjálfboðaliðamiðlun Ósérplægni, þar sem mamma vinnur, stendur fyrir megninu af endurbótunum.
                Þegar ég skoða lífshætti Ósérplægni utan frá finnst mér þeir fallegir. Þegar ég sé hvað fjölskylda mín er samhent, þegar við förum í kvöldverðarboð og allir hjálpast óbeðnir að við fráganginn á eftir, þegar ég sé Caleb hjálpa ókunnugu fólki að bera varning heim, verð ég aftur yfir mig hrifin af þessari tilveru. Hún veldur mér engu hugarangri nema þegar ég reyni að tileinka mér hana sjálf. Mér finnst það alltaf vera uppgerð.
                En ef ég vel annað fylki þýðir það að ég snúi baki við fjölskyldu minni. Fyrir fullt og allt.
                Skammt frá Ósérplægnihverfi borgarinnar er hverfi með húsarústum og brotnum gangstéttum og þar er ég stödd núna. Gatan hefur hrunið alveg saman á köflum svo að ég þarf að vara mig á holum þar sem skín í fráveiturör og ónotuð neðanjarðarlestargöng og sums staðar er svo stækur óþefur af skolpi og rusli að ég þarf að taka fyrir nefið.
                Hérna búa fylkisleysingjarnir. Þeim tókst ekki að ljúka inntökuferlinu í fylkið sem þeir völdu sér og þess vegna búa þeir við fátækt og vinna verkin sem enginn annar vill sinna. Þeir eru ræstingafólk og byggingarverkamenn og öskukarlar, þeir spinna efni og stjórna lestum og aka strætó. Í skiptum fyrir vinnuna fá þeir mat og föt en af hvorugu nóg, eins og mamma segir alltaf.
                Ég sé fylkisleysingja standa á horninu fyrir framan mig. Hann er í tötralegum, brúnum fötum og með slapandi húðfellingar á hökunni. Hann glápir á mig og ég glápi á hann á móti og get engan veginn litið undan.
                „Afsakaðu,“ segir hann. Röddin er rám. „Ertu með eitthvað sem ég gæti borðað?“
                Ég fæ kökk í hálsinn. Ströng rödd í huga mínum segir: Líttu niður fyrir þig og haltu áfram.
                Nei. Ég hristi höfuðið. Ég ætti ekki að vera hrædd við þennan mann. Hann þarf hjálp og mér ber að hjálpa honum.
                „Ööö … jú,“ segi ég. Ég sting hendinni í töskuna. Pabbi skipar mér að hafa alltaf eitthvað matarkyns í töskunni af einmitt þessari ástæðu. Ég rétti manninum lítinn poka af þurrkuðum eplasneiðum.
                Hann teygir sig eftir pokanum en í stað þess að taka við honum grípur hann um úlnliðinn á mér. Hann brosir til mín. Hann er með gap á milli framtannanna.
                „Mikið hefurðu falleg augu,“ segir hann. „Það er synd að þú skulir að öðru leyti vera svona ófríð.“
                Hjarta mitt slær ótt og títt. Ég reyni að toga höndina til mín en hann herðir takið. Ég finn ramma og vonda lykt út úr honum.
                „Þú virðist vera of ung til að vera svona ein á ferli, væna,“ segir hann.
                Ég hætti að streitast á móti og rétti úr mér. Ég veit að ég er barnaleg, það þarf ekki að minna mig á það. „Ég er eldri en ég sýnist,“ svara ég. „Ég er sextán ára.“
                Varir hans galopnast svo að skín í gráan jaxl með svartri holu öðrum megin í munninum. Ég er ekki viss hvort hann er að brosa eða gretta sig. „Er þá ekki alveg sérstakur dagur fyrir þig í dag? Dagurinn áður en þú velur?“
                „Slepptu mér,“ segi ég. Það syngur í eyrunum á mér. Mér heyrist rödd mín vera skýr og ströng – alls ekki eins og ég bjóst við. Mér finnst hún tilheyra einhverjum öðrum en sjálfri mér.
                Ég er viðbúin. Ég veit hvað ég á að gera. Ég sé mig í anda keyra olnbogann aftur og í manninn. Ég sé eplapokann þeytast úr hendinni á mér. Ég heyri fótatak mitt á hlaupum. Ég er reiðubúin að láta til skarar skríða.
                En þá sleppir hann takinu um úlnliðinn á mér og tekur við eplunum. „Veldu skynsamlega, litla stúlka,“ segir hann.