FYRSTI KAFLI
ÉG VAKNA með nafn hans á vörunum.
                Will.
                Áður en ég opna augun sé ég hann hníga aftur niður á gangstéttina. Dáinn.
                Fyrir minni hendi.
                Tobias situr á hækjum sér fyrir framan mig með aðra höndina á vinstri öxlinni á mér. Lestarvagninn hossast eftir sporinu og Marcus, Peter og Caleb standa við dyrnar. Ég dreg djúpt að mér andann og held honum niðri í mér til að reyna að losa dálítið um þrýstinginn sem eykst stöðugt í brjóstinu.
                Fyrir klukkutíma fannst mér ekkert sem gerðist raunverulegt. Núna finnst mér það.
                Ég anda frá mér en þrýstingurinn er enn á sínum stað.
                „Jæja, Tris,“ segir Tobias og horfir rannsakandi í augun á mér. „Við þurfum að stökkva.“
                Ég sé ekki hvar við erum stödd í myrkrinu en við hljótum að vera nálægt girðingunni fyrst við eigum að fara. Tobias hjálpar mér á fætur og alla leið að dyrunum.
                Hinir stökkva út einn af öðrum: fyrst Peter, svo Marcus og loks Caleb. Ég tek í höndina á Tobiasi. Það hvessir um leið og við erum komin í gættina og mér finnst hönd ýta mér til baka, aftur í öryggið.
                Við stökkvum samt út í myrkrið og lendum harkalega. Mig verkjar í skotsárið á öxlinni þegar ég skell niður. Ég bít á vörina til að æpa ekki upp yfir mig og gái að bróður mínum.
                „Er allt í lagi?“ spyr ég þegar ég kem auga á Caleb í grasinu skammt frá mér. Hann situr og nuddar á sér hnéð.
                Hann kinkar kolli. Ég heyri að hann snöktir eins og hann berjist við grátinn og finnst ég verða að snúa mér undan.
                Við lentum í grasinu hjá girðingunni, nokkra metra frá fjölförnum vegarslóðanum þar sem bílar Samlyndis aka með matarsendingar til borgarinnar að hliðinu sem hleypir þeim út – hliðinu sem er núna læst og heldur okkur innilokuðum. Girðingin gnæfir yfir okkur, of há og eftirgefanleg til að hægt sé að klifra yfir hana og of rammgerð til að hægt sé að fella hana.
                „Hérna eiga að vera Hugprýðiverðir,“ segir Marcus. „Hvar eru þeir?“
                „Þeir voru örugglega á valdi hermingarinnar,“ segir Tobias. „Þá hljóta þeir að vera …“ Hann þagnar. „Hamingjan veit hvar, eða hvað þeir eru að gera.“
                Við stöðvuðum herminguna – þyngslin af harða diskinum í rassvasanum minna mig á það – en við biðum ekki nógu lengi til að sjá eftirleikinn. Hvað varð um vini okkar, félaga okkar, foringjana okkar, fylkin okkar? Það er engin leið að vita það.
                Tobias gengur að litlum málmkassa hægra megin við hliðið og opnar hann svo að talnaborð kemur í ljós.
                „Við skulum vona að Fjölvísi hafi gleymt að breyta kóðanum,“ segir hann og slær inn talnarunu. Hann hættir eftir átta tölur og hliðið fer úr lás.
                „Hvernig vissirðu þetta?“ spyr Caleb. Hann er loðmæltur af geðshræringu, svo loðmæltur að ég yrði ekki hissa þótt orðin stæðu í honum.
                „Ég vann í stjórnstöð Hugprýði og fylgdist með öryggiskerfinu. Við breyttum talnaröðinni ekki nema tvisvar á ári,“ svarar Tobias.
                „En sú heppni,“ segir Caleb. Hann horfir tortrygginn á Tobias.
                „Heppni kemur málinu ekkert við,“ segir Tobias. „Ég vann þar bara af því að ég vildi vera viss um að ég slyppi út.“
                Ég hrylli mig. Þegar hann talar svona um að sleppa út er engu líkara en hann telji að við séum læst inni. Ég hef aldrei séð aðstæður okkar í því ljósi og núna finnst mér kjánalegt að hafa ekki gert það.
                Litli hópurinn okkar leggur af stað, Peter heldur blóðugum handleggnum upp að bringunni – handleggnum sem ég skaut – og Marcus með höndina á öxl hans til að styðja hann. Caleb strýkur vangana í sífellu og ég veit að hann er að gráta en kann engin ráð til að hugga hann og veit ekki af hverju ég græt ekki sjálf.
                Þess í stað tek ég forystuna með Tobias þegjandi við hliðina á mér og hann veitir mér styrk þótt hann komi ekki við mig.
Ljósdeplar eru fyrsta vísbendingin um að við nálgumst höfuðstöðvar Samlyndis. Þeir verða að lýsandi ferningum og loks að uppljómuðum gluggum. Þyrpingu húsa úr timbri og gleri.
                Áður en við komumst þangað göngum við í gegnum aldingarð. Fæturnir á mér sökkva í moldina og trjágreinar fléttast saman fyrir ofan mig og mynda eins konar göng. Dökkir ávextir hanga á milli laufblaða, að því komnir að falla til jarðar. Rammur og sætur þefur af ofþroskuðum eplum rennur saman við lykt af blautri mold í vitum mínum.
                Þegar við erum komin nær skilur Marcus við Peter og gengur fram fyrir okkur. „Ég veit hvert við eigum að fara,“ segir hann.
                Hann vísar okkur framhjá fyrsta húsinu að öðru húsi til vinstri. Allar byggingar aðrar en gróðurhúsin eru úr sama dökka viðnum, ómáluðu og hrjúfu timbri. Ég heyri hlátur út um opinn glugga. Hláturinn stingur óþægilega í stúf við grafarþögnina sem ríkir innra með mér.
                Marcus opnar einar dyrnar. Mér myndi blöskra það kæruleysi að læsa ekki útidyrum ef við værum ekki í höfuðstöðvum Samlyndis. Þau feta oft einstigið á milli trúnaðartrausts og heimsku.
                Ekkert heyrist í húsinu nema ískrið í skósólunum okkar. Mér heyrist Caleb vera hættur að gráta en gráturinn áðan var svosem hljóður líka.
                Marcus nemur staðar við opnar dyr að herbergi þar sem Johanna Reyes, talsmaður Samlyndis, situr og horfir út um gluggann. Ég þekki hana strax því það er erfitt að gleyma andliti Johönnu hvort sem maður hefur séð hana einu sinni eða óteljandi sinnum. Breitt ör liggur yfir andlitið frá enninu fyrir ofan hægri augabrúnina og niður að munninum svo að hún er blind á öðru auga og dálítið smámælt. Ég hef bara heyrt hana tala einu sinni en man það vel. Hún væri falleg kona ef hún hefði ekki þetta ör.
                „Guði sé lof,“ segir hún þegar hún sér Marcus. Hún gengur til hans með útbreiddan faðminn. Í staðinn fyrir að faðma hann að sér leggur hún hendurnar laust á axlirnar á honum eins og hún muni að Ósérplægni hefur andstyggð á óþarfa snertingu.
                „Hinir í hópnum þínum komu fyrir nokkrum klukkustundum en voru ekki vissir um að þið hefðuð komist lífs af,“ segir hún. Hún er að tala um hópinn frá Ósérplægni sem var í felum með pabba og Marcusi. Ég hafði ekki einu sinni haft rænu á að hafa áhyggjur af þeim.
                Hún lítur yfir öxlina á Marcusi, fyrst á Tobias og Caleb, svo á mig og loks á Peter.
                „Æ, æ,“ segir hún og horfir lengi á skyrtu Peters sem er gegndrepa af blóði. „Ég skal senda eftir lækni. Ég get gefið ykkur öllum leyfi til að gista hérna í nótt en á morgun þarf fylkið okkar að taka sameiginlega ákvörðun um það.“ Hún horfir á okkur Tobias. „Mér finnst ólíklegt að fólk verði mjög hrifið af því að hafa Hugprýðinga í Samlyndi. Ég fer þess að sjálfsögðu á leit við ykkur að þið afhendið öll vopn sem þið kunnið að hafa undir höndum.“
                Ég furða mig snöggvast á því að hún skuli vita að ég er Hugprýðingur. Ég er ennþá í grárri skyrtu. Skyrtunni hans pabba.
                Á sömu stundu gýs upp lyktin af honum, sambland af sápu og svita fyllir á mér vitin og síðan fyllist höfuðið á mér af tilhugsuninni um hann. Ég kreppi hnefana svo fast að neglurnar skerast inn í holdið. Ekki hérna. Ekki hérna.
                Tobias afhendir henni byssuna sína en þegar ég teygi höndina aftur fyrir bak til að sækja þá sem ég hef innanklæða grípur hann um höndina á mér og togar hana burt. Svo spennir hann við mig greipar til að leyna því sem hann gerði.
                Ég veit að það er skynsamlegt að halda eftir byssu. Ég hefði samt fegin viljað losa mig við hana.
                „Ég heiti Johanna Reyes,“ segir hún og heilsar mér fyrst með handabandi og svo Tobiasi. Eins og Hugprýðingar heilsast. Mér þykir talsvert koma til þekkingar hennar á siðvenjum annarra fylkja. Ég gleymi því alltaf hvað Samlyndingar eru tillitssamir þangað til ég sé það með eigin augum.
                „Þetta er To-“ byrjar Marcus en Tobias grípur fram í fyrir honum.
                „Ég heiti Fjarki,“ segir hann. „Þetta eru Tris, Caleb og Peter.“
                Fyrir fáeinum dögum var ég sú eina í Hugprýði sem vissi að hann héti Tobias; það var hluti af honum sjálfum sem hann hafði gefið mér. Nú vorum við ekki lengur á yfirráðasvæði Hugprýði og ég mundi hvers vegna hann leyndi nafninu fyrir öllum öðrum. Það tengdi hann við Marcus.
                „Velkomin til Samlyndis.“ Johanna horfir framan í mig og brosir skakkt. „Leyfið okkur að annast um ykkur.“
Við leyfum þeim það. Hjúkrunarkona lætur mig fá áburð til að bera á öxlina – smyrsli sem Fjölvísi fann upp til að sár greru fyrr – og svo fer hún með Peter á sjúkradeild til að gera að handleggnum á honum. Johanna fylgir okkur í mötuneytið og þar hittum við fyrir fólk úr Ósérplægni sem hafði verið í felum með Caleb og pabba. Susan er þarna og nokkrir af fyrrverandi nágrönnum okkar og margar raðir af tréborðum sem ná eftir endilöngum salnum. Allir heilsa okkur – aðallega þó Marcusi – og bæla niður bæði tár og bros.
                Ég held fast í handlegginn á Tobiasi. Ég er að kikna undan þunga fólksins úr fylki foreldra minna, tilveru þess og tárum.
                Einn af Ósérplægingunum rekur bolla af sjóðheitum vökva upp að nefinu á mér. „Drekktu þetta,“ segir hann. „Það hjálpar þér að sofna eins og það hefur hjálpað okkur hinum að sofa. Draumlausum svefni.“
                Vökvinn er rauðbleikur eins og jarðarber. Ég tek við bollanum og flýti mér að tæma hann. Við fyrstu sopana af heitum vökvanum finnst mér aftur að ég sé orðin full af einhverju. Um leið og ég drekk síðustu dropana er ég farin að slaka vel á. Einhver leiðir mig eftir gangi að herbergi með rúmi. Það er allt og sumt.
ANNAR KAFLI
ÉG OPNA augun skelfingu lostin og held dauðahaldi í rúmfötin. En ég er ekki á hlaupum eftir götum borgarinnar eða göngunum í höfuðstöðvum Hugprýði. Ég ligg í rúmi á Samlyndissvæðinu og loftið er mettað lykt af sagi.
                Ég bylti mér og gretti mig þegar eitthvað grefst í bakið á mér. Ég teygi mig aftur fyrir mig og fingur mínir vefjast um byssuna.
                Rétt sem snöggvast sé ég Will standa fyrir framan mig og byssur okkar beggja á milli okkar – höndin á honum, ég hefði getað skotið hann í höndina, af hverju gerði ég það ekki, af hverju? – og það liggur við að ég hrópi nafn hans.
                Svo er hann horfinn.
                Ég fer fram úr, lyfti dýnunni með annarri hendi og styð við hana með hnénu. Svo treð ég byssunni undir dýnuna og fel hana þar. Mér finnst ég hugsa skýrar þegar hún er horfin sjónum og kemur hvergi við mig.
                Nú er adrenalínvíma gærdagsins horfin og líka áhrif hvers sem það nú var sem svæfði mig, svo að nístandi verkurinn og sársaukastingirnir í öxlinni eru yfirþyrmandi. Ég er í sömu fötum og í gærkvöldi. Hornið á harða diskinum stingst fram undan koddanum þar sem ég faldi hann áður en ég sofaði. Á diskinum eru hermingargögnin sem stjórnuðu Hugprýðingum og sannanir fyrir illvirkjum Fjölvísi. Mér finnst hann of mikilvægur til að ég eigi einu sinni að snerta hann en get ekki geymt hann þarna svo að ég tek hann og treð honum á milli kommóðunnar og veggjarins. Að sumu leyti finnst mér góð hugmynd að eyðileggja diskinn en ég veit að á honum eru einu gögnin sem til eru um dauða foreldra minna og læt því nægja að fela hann.
                Einhver ber að dyrum. Ég sest á rúmstokkinn og reyni að slétta hárið.
                „Kom inn,“ segi ég.
                Dyrnar opnast en Tobias kemur ekki alla leið inn heldur stendur í gættinni, hálfur úti og hálfur inni. Hann er í sömu gallabuxum og í gær en nú er hann í dökkrauðum bol en ekki svörtum, sem hann hefur líkast til fengið að láni hjá Samlyndingi. Mér finnst skrítið að sjá hann í þessum lit, hann er of skær, en þegar Tobias hallar höfðinu að dyrakarminum sé ég að liturinn lýsir upp bláma augnanna.
                „Samlyndi heldur fund eftir hálftíma.“ Tobias lyftir brúnum og bætir við með leikrænum tilburðum: „Til að ákvarða örlög okkar.“
                Ég hristi höfuðið. „Aldrei grunaði mig að örlög mín yrðu í höndum Samlyndis.“
                „Sama segi ég. Ó, ég kom með dálítið handa þér.“ Hann losar tappann af lítilli flösku og réttir mér dropateljara fullan af tærum vökva. „Kvalastillandi. Taktu inn fullan dropateljara á sex tíma fresti.“
                „Takk.“ Ég kreisti úr dropateljaranum upp í mig. Bragðið er eins og af gamalli sítrónu.
                Tobias krækir þumalfingri í beltislykkju. „Hvernig líður þér, Beatrice?“ spyr hann.
                „Kallaðirðu mig Beatrice?“
                „Mér datt í hug að prófa.“ Hann brosir. „Ekki gott?“
                „Kannski bara þegar sérstaklega stendur á. Á inntökuhátíð eða í Valinu …“ Ég þagna. Ég ætlaði að telja upp fleiri hátíðisdaga en enginn heldur upp á þá nema Ósérplægni. Hugprýði hefur sjálfsagt eigin hátíðisdaga en ég veit ekki hverjir þeir eru. Auk þess er tilhugsunin um að fagna einhverjum dögum svo fáránleg þessa stundina að ég þegi bara.
                „Samþykkt.“ Brosið hverfur af honum. „Hvernig hefurðu það, Tris?“
                Spurningin er ekkert skrítin, ekki eftir allt sem við höfum gengið í gegnum, en ég spennist öll upp við hana og verð smeyk um að hann sjái einhvern veginn inn í hugann á mér. Ég hef ekki enn sagt honum frá Will. Mig langar til þess en ég veit ekki hvernig ég á að koma orðum að því. Tilhugsunin ein um að segja orðin upphátt gerir mér svo þungt um hjartarætur að mér finnst ég hljóta að hrapa niður um gólfið.
                „Ég er …“ Ég hristi höfuðið nokkrum sinnum. „Ég veit það ekki, Fjarki. Ég er vakandi. Ég …“ Ég held áfram að hrista höfuðið. Hann strýkur lófanum um vanga minn og krækir einum fingri á bak við eyrað. Svo hallar hann sér fram og kyssir mig svo að hlýr og kveljandi straumur fer um líkama minn. Ég gríp báðum höndum um handlegginn á honum og held honum föstum eins lengi og ég get. Þegar Tobias snertir mig finn ég ekki eins óþyrmilega fyrir holrúminu í brjósti mínu og maga.
                Ég þarf ekki að segja honum neitt. Ég get bara reynt að gleyma – hann getur hjálpað mér að gleyma.
                „Ég veit,“ segir hann. „Fyrirgefðu. Ég hefði ekki átt að spyrja.“
                Hvernig geturðu með nokkru móti vitað það? hugsa ég rétt sem snöggvast. En eitthvað í svip hans minnir mig á að hann veit vissulega ýmislegt um missi. Hann missti mömmu sína þegar hann var á barnsaldri. Ég man ekki hvernig hún dó, bara að við fórum í jarðarförina hennar.
                Allt í einu man ég hvernig hann hélt dauðahaldi í gluggatjöldin í stofunni heima hjá sér, níu ára gamall eða þar um bil, í gráum fötum og með dökk augun lokuð. Myndin hverfur strax og gæti verið ímyndun frekar en minning.
                Hann sleppir mér. „Ég ætla að leyfa þér að fara á fætur.“
Baðherbergi kvenna er tveimur herbergjum innar. Gólfið er lagt dökkbrúnum flísum og allir sturtuklefarnir eru viðarklæddir og með plasthengi sem skilur þá frá miðganginum. Á skilti á innsta veggnum stendur MUNIÐ: TIL AÐ FORÐAST SÓUN ER SKRÚFAÐ FYRIR VATN Í STURTUM EFTIR FIMM MÍNÚTUR.
                Vatnið er kalt svo að ég hefði ekki viljað fleiri mínútur þótt þær stæðu til boða. Ég þvæ mér í flýti með vinstri hendi en læt þá hægri hanga niður með síðunni. Kvalastillandi lyfið sem Tobias færði mér virkaði strax – sársaukinn í öxlinni dofnaði og breyttist í þungan æðaslátt.
                Þegar ég kem úr sturtunni bíður fatabunki á rúminu mínu. Þetta eru gular og rauðar flíkur frá Samlyndi og eitthvað grátt frá Ósérplægni, litir sem ég sé sjaldnast hlið við hlið. Ef ég ætti að geta myndi ég giska á að einhver úr Ósérplægni hefði lagt fötin þarna handa mér. Svona hugulsemi er þeim eiginleg.
                Ég klæði mig í dökkrauðar gallabuxur – svo síðar að ég þarf að bretta þrisvar upp á skálmarnar – og gráa skyrtu sem er of stór á mig. Ermarnar ná niður á fingurgóma og ég brýt líka upp á þær. Ég finn til þegar ég hreyfi hægri höndina svo ég reyni að hreyfa mig hægt og sem minnst.
                Einhver ber að dyrum. „Beatrice?“ Lág röddin er rödd Susan.
                Ég opna fyrir henni. Hún heldur á matarbakka sem hún setur á rúmið. Ég horfi rannsakandi á hana og reyni að greina missi hennar í svipnum – pabbi hennar, einn af foringjum Ósérplægni, lifði árásina ekki af – en sé bara þá kyrrlátu yfirvegun sem einkennir gamla fylkið mitt.
                „Mér þykir fyrir því að fötin skuli ekki passa á þig,“ segir hún. „Við hljótum að geta fundið skárri föt handa þér ef Samlyndi leyfir okkur að vera áfram.“
                „Þetta er fínt,“ segi ég. „Þakka þér fyrir.“
                „Ég frétti að þú hefðir orðið fyrir skoti. Viltu að ég hjálpi þér með hárið? Eða reimi fyrir þig skóna?“
                Ég afþakka næstum boðið en mér veitir ekki af hjálp.
                „Já, þakka þér fyrir.“
                Ég sest á koll fyrir framan spegilinn og hún tekur sér stöðu fyrir aftan mig. Hún beinir skylduræknum og þrautþjálfuðum augunum að verkinu sem hún er að vinna í stað þess að skoða spegilmynd sína. Hún lítur ekki upp, ekki einu sinni andartak, á meðan hún rennir greiðu í gegnum hárið á mér. Og hún spyr ekki um öxlina á mér, hvernig ég varð fyrir skoti, hvað gerðist eftir að ég fór af felustaðnum í Ósérplægni til að stöðva herminguna. Ég fæ á tilfinninguna að ef ég tálgaði hana inn að innsta kjarna kæmi í ljós að hún væri Ósérplægin út í gegn.
                „Hefurðu eitthvað hitt Robert?“ spyr ég. Robert bróðir hennar valdi Samlyndi í sömu athöfn og þegar ég valdi Hugprýði, svo að hann er einhvers staðar hérna. Ég velti fyrir mér hvort endurfundir þeirra verði eitthvað líkir endurfundum okkar Calebs.
                „Eitt augnablik, í gærkvöldi,“ segir hún. „Ég fór fljótlega svo að hann gæti syrgt með fylkinu sínu eins og ég syrgi með mínu. Það var samt indælt að sjá hann aftur.“
                Ég heyri á raddblænum að hún ætlar ekki að ræða þetta frekar.
                „Sorglegt að þetta skuli hafa gerst þegar það gerðist,“ segir Susan. „Foringjarnir okkar voru í þann mund að gera dálítið dásamlegt.“
                „Í alvöru? Hvað?“
                „Ég veit það satt að segja ekki.“ Susan roðnar. „Ég veit bara að eitthvað var í bígerð. Ég var ekki að forvitnast; ég tók bara eftir ýmsu.“
                „Ég myndi ekki álasa þér fyrir að vera forvitin þótt þú hefðir verið það.“
                Hún kinkar kolli og heldur áfram að greiða mér. Ég brýt heilann um hvað foringjar Ósérplægni – þar á meðal pabbi minn – hafi verið að bralla. Ég get ekki annað en dáðst að fullvissu Susan um að hvað svo sem það var hafi það verið dásamlegt. Ég óska með sjálfri mér að ég geti aftur farið að trúa því um fólk.
                Ef ég gerði það þá einhvern tímann.
                „Hugprýðingar hafa hárið slegið, ekki satt?“ spyr hún.
                „Stundum,“ segi ég. „Kanntu að flétta?“
                Fimir fingur Susan flétta lokka af hárinu á mér í þykka fléttu sem kitlar mig á miðju bakinu. Ég horfi fast á spegilmynd mína þangað til hún hefur lokið verkinu. Ég þakka henni fyrir hjálpina og hún kveður með dálitlu brosi og lokar á eftir sér.
                Ég horfi áfram en sé ekki sjálfa mig. Ég finn enn fyrir fingrum hennar strjúkast við aftanverðan hálsinn á mér, alveg eins og fingur mömmu síðasta morguninn sem við vorum saman. Augu mín fyllast af tárum og ég ræ í gráðið á kollinum og reyni að bægja minningunni burt. Ég er hrædd um að ef ég fari að vola takist mér ekki að hætta því fyrr en ég þorna upp eins og rúsína.
                Ég rek augun í saumabox á kommóðunni. Í því er tvenns konar tvinni, rauður og gulur, og skæri.
                Ég leysi sallaróleg fléttuna í hárinu og greiði mér aftur. Ég skipti í miðju og gæti þess að hárið sé alveg slétt og jafnt. Ég klemmi skærin saman um hárið við hökuna á mér.
                Hvernig get ég litið eins út þegar hún er horfin og allt er breytt? Ég get það ekki.
                Ég klippi eins beint og ég get og tek mið af kjálkanum. Erfiðast er að eiga við hnakkann þar sem ég sé ekki sérlega vel til svo að ég geri mitt besta með snertingunni einni fremur en sjóninni. Lokkar af ljósu hári liggja í hálfhring á gólfinu í kringum mig.
                Ég fer fram án þess að líta aftur í spegilinn.
Þegar Tobias og Caleb koma seinna að sækja mig glápa þeir á mig eins og ég sé ekki sama manneskja og þeir þekktu í gær.
                „Þú ert búin að klippa þig,“ segir Caleb og lyftir brúnum. Hann er dæmigerður Fjölvísingur að því leyti að hann hengir sig í staðreyndir þótt honum líði mjög illa. Hárið stendur upp í loft öðrum megin eftir svefninn og augu hans eru blóðhlaupin.
                „Já,“ segi ég. „Það er … of heitt til að vera síðhærður.“
                „Jæja.“
                Við göngum saman inn ganginn. Það marrar í gólffjölunum undan fótunum á okkur. Ég sakna þess að heyra bergmál af fótataki mínu eins og í höfuðstöðvum Hugprýði; ég sakna svala neðanjarðarloftsins. En mest sakna ég þó alls sem ég óttaðist síðustu vikurnar og er orðið lítilfjörlegt í samanburði við það sem ég óttast núna.
                Við förum út. Útiloftið þrýstist að mér eins og verið sé að kæfa mig með kodda. Lyktin er græn eins og af laufblaði sem er rifið í tvennt.
                „Vita allir að þú ert sonur Marcusar?“ spyr Caleb. „Allir í Ósérplægni, meina ég.“
                „Ekki svo að ég viti,“ segir Tobias og lítur snöggvast á Caleb. „Og ég yrði þér þakklátur ef þú slepptir því að nefna það.“
                „Ég þarf ekki að nefna það. Allir sem hafa augu í höfðinu hljóta að sjá það sjálfir.“ Caleb hvessir augun á hann. „Hvað ertu annars gamall?“
                „Átján.“
                „Og finnst þér ekki að þú sért of gamall til að vera með litlu systur minn?“
                Tobias hlær snöggt. „Hún er ekkert litla þín.“
                „Hættið þessu. Báðir tveir,“ segi ég. Hópur af gulklæddu fólki er fyrir framan okkur og stefnir að breiðu lágreistu húsi eingöngu úr gleri. Ég fæ sting í augun af sólinni sem speglast í öllum rúðunum. Ég skyggi hendinni fyrir augun og geng áfram.
                Dyrnar að húsinu standa upp á gátt. Meðfram veggjum hringlaga gróðurhússins spretta plöntur og tré í vatnstrogum eða litlum tjörnum. Ótal viftur út um allan skálann feykja heitu lofti og ég fer strax að svitna. Ég hætti samt að hugsa um það þegar hópurinn fyrir framan mig þynnist og ég sé afganginn af gróðurhúsinu.
                Í skálanum miðjum vex risastórt tré. Greinar þess teygjast yfir megnið af rýminu og hnúskóttar ræturnar skaga upp og mynda þétt barkarklætt net. Á auðu blettunum milli rótanna skín ekki í mold heldur vatn og málmstangir sem halda rótunum í skorðum. Þetta ætti ekki að koma mér á óvart – Samlyndingar verja ævinni í svona ræktunarafrek og nýta til þess tækni sem þeir fá frá Fjölvísi.
                Johanna Reyes stendur á rótaknippi og hárið fellur yfir örótta helminginn af andlitinu. Ég lærði það í fylkjasögu að Samlyndingar viðurkenna engan opinberan foringja – þeir greiða atkvæði um allt og niðurstaðan er oftast næstum samhljóða. Þeir eru eins og margir bútar af sama huga og Johanna er talsmaður þeirra.
                Samlyndingar sitja á gólfinu, flestir með krosslagða fætur, í hópum og flokkum sem minna mig dálítið á rætur trésins. Ósérplægni situr í þéttri röð fáeinum metrum til vinstri við mig. Ég renni augunum nokkrum sinnum yfir röðina áður en ég átta mig á að hverju ég er að gá: foreldrum mínum.
                Ég kyngi ákaft og reyni að gleyma. Tobias leggur lófann á mjóhrygginn á mér og beinir mér að útjaðri fundarsalarins, fyrir aftan Ósérplægni. Áður en við setjumst leggur hann varirnar við eyrað á mér og segir: „Ég kann vel við hárið á þér svona.“
                Ég kreisti fram dauft bros, halla mér að honum þegar ég er sest og þrýsti handleggnum upp að handlegg hans.
                Johanna lyftir báðum höndum og lýtur höfði. Allar samræður þarna inni steinþagna áður en ég næ að draga andann. Samlyndi situr þegjandi allt í kringum mig, sumir með lokuð augu, aðrir sem bæra varirnar í orðum sem ég heyri ekki og enn aðrir horfa langt út í buskann.
                Sérhvert andartak tekur á taugarnar. Þegar Johanna lítur loksins upp aftur er ég að því komin að bugast.
                „Í dag stöndum við frammi fyrir brýnni spurningu,“ segir hún. „Hún er þessi: Hvernig eigum við sem friðelskandi fólk að haga okkur á þessum átakatímum?“
                Allir Samlyndingar í salnum snúa sér að næsta manni og byrja að tala.
                „Hvernig koma þau nokkrum sköpuðum hlut í verk?“ segi ég þegar þau skvaldra áfram og mínútunum fjölgar.
                „Þeim er alveg sama um skilvirkni,“ segir Tobias. „Þau vilja bara komast að sameiginlegri niðurstöðu. Fylgstu með.“
                Tvær konur í gulum kjólum skammt frá okkur standa upp og slást í hóp með þremur karlmönnum. Ungur maður færir sig ögn svo að litli hringurinn hans rennur saman við næsta hóp og úr verður stór hringur. Hvarvetna í salnum stækka litlu hóparnir og þenjast út og sífellt dregur úr raddkliðnum inni þangað til einungis heyrast þrjár eða fjórar raddir. Ég heyri bara brot af því sem þær segja: „Friður – Hugprýði – Fjölvísi – öruggt skjól – hafa afskipti af –“
                „Þetta er furðulegt,“ segi ég.
                „Mér finnst það fallegt,“ segir hann.
                Ég set upp svip.
                „Hvað?“ Hann hlær dálítið. „Þau taka öll jafnan þátt í fylkisstjórninni; þau bera öll jafna ábyrgð. Og þess vegna stendur þeim ekki á sama; þess vegna eru þau góð. Mér finnst það fallegt.“
                „Það endist varla til frambúðar,“ segi ég. „Þetta hentar Samlyndi, mikil ósköp. En hvað gerist þegar það vilja ekki allir spila á banjó og rækta grænmeti? Hvað gerist þegar einhver gerir eitthvað skelfilegt og það er ekki hægt að leysa málið með því að tala um það?“
                Hann ypptir öxlum. „Ætli við komumst ekki að því.“
                Á endanum stendur einhver í stóru hópunum upp, fikrar sig varlega yfir rætur stóra trésins og gengur til Johönnu. Ég bý mig undir að þau ávarpi okkur hin en í staðinn mynda þau hring með Johönnu og hinum talsmönnunum og tala lágt saman. Ég fæ á tilfinninguna að ég fái aldrei að vita hvað þau eru að segja.
                „Þau ætla ekki að leyfa okkur að rökræða við sig, er það nokkuð?“ segi ég.
                „Ég efast um það,“ segir Tobias.
                Það er úti um okkur.
                Þegar allir hafa sagt það sem þeim liggur á hjarta setjast þeir aftur og Johanna stendur ein eftir í miðjum salnum. Hún hallar sér í áttina að okkur og spennir greipar fyrir framan sig. Hvert eigum við að fara þegar þau vísa okkur burt? Aftur inn í borgina, þar sem engum er óhætt?
                „Fylkið okkar hefur átt í nánum samskiptum við Fjölvísi eins lengi og elstu menn muna. Við þurfum hvert á öðru að halda til að komast af og við höfum alltaf unnið saman,“ segir Johanna. „En við höfum líka átt traust samband við Ósérplægni í gegnum tíðina og okkur þykir ekki rétt að draga að okkur þá vináttuhönd sem hefur svo lengi verið útrétt.“
                Rödd hennar er hunangssæt og orðin minna líka á hunang, hæg og yfirveguð. Ég strýk svitann af enninu með handarbakinu.
                „Við teljum að eina leiðin til að varðveita samband okkar við bæði fylkin sé að halda hlutleysi okkar og forðast afskipti,“ heldur hún áfram. „Þótt þið séuð velkomin hér gerir návist ykkar málið flóknara.“
                Þá er komið að því, hugsa ég.
                „Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að við ætlum að gera höfuðstöðvar fylkisins okkar að griðastað fyrir meðlimi allra fylkja,“ segir hún. „Með nokkrum skilmálum þó. Sá fyrsti er að engin vopn af neinu tagi eru leyfð á svæðinu. Annar skilmálinn er að ef til alvarlegra árekstra kemur, hvort heldur í orðum eða líkamlegum átökum, verða allir þátttakendur í þeim að fara héðan. Í þriðja lagi má ekki ræða ágreiningsmálin hér á yfirráðasvæði Samlyndis, ekki einu sinni undir fjögur augu. Og í fjórða lagi verða allir sem hér dvelja að leggja sitt af mörkum til velferðar samfélagsins með vinnuframlagi. Þetta ætlum við að tilkynna Fjölvísi, Bersögli og Hugprýði við fyrsta tækifæri.“
                Augu hennar hvarfla til okkar Tobiasar og hún horfir áfram á okkur.
                „Ykkur er velkomið að vera hér um kyrrt svo framarlega og því aðeins sem þið getið fylgt reglunum okkar,“ segir hún. „Þannig er ákvörðun okkar.“
                Mér verður hugsað til byssunnar sem ég faldi undir dýnunni og spennunnar á milli okkar Peters annars vegar og Tobiasar og Marcusar hins vegar og munnurinn þornar upp. Ég er ekki góð í því að koma mér hjá árekstrum.
                „Við verðum varla hérna lengi,“ segi ég lágt við Tobias.
                Rétt áðan lék enn dauft bros um varir hans. Núna vísa munnvikin niður og svipurinn er þungbúinn. „Nei, ætli það.“