FYRSTI KAFLI
 
TRIS
ÉG STIKA um klefann okkar í höfuðstöðvum Fjölvísi og orð hennar bergmála í huga mínum: Ég ætla að heita Edith Prior og það er margt sem ég vil fegin gleyma.
                „Svo þú hefur aldrei séð hana áður? Ekki einu sinni á myndum?“ spyr Christina sem hvílir særða fótlegginn á kodda. Hún varð fyrir skoti í örvæntingarfullri tilraun okkar til að sýna allri borginni myndbandið með Edith Prior. Þá höfðum við ekki hugmynd um hvað kæmi þar fram eða að efni myndbandsins myndi splundra grundvellinum sem við byggðum á, fylkjunum og sjálfsmynd okkar. „Er hún amma þín eða frænka eða eitthvað?“
                „Ég sagði nei,“ segi ég og sný við þegar ég kem að veggnum. „Prior er – var – nafn föður míns svo hún hlýtur að vera úr hans ætt. En Edith er Ósérplægninafn og ættingjar pabba hljóta að vera úr Fjölvísi svo að …“
                „Svo að hún hlýtur að vera eldri,“ segir Cara og hallar höfðinu að veggnum. Frá þessu sjónarhorni er hún alveg eins og Will bróðir hennar, vinur minn, sá sem ég skaut. Svo réttir hún úr sér og vofa hans hverfur. „Úr fyrri kynslóð. Formóðir þín.“
                „Formóðir.“ Mér finnst orðið kalt í huga mínum, eins og molnandi
múrsteinn. Ég legg lófann á klefavegginn um leið og ég sný mér við. Veggklæðningin er köld og hvít.
                Formóðir mín og þetta er arfurinn sem hún lét mér eftir: frelsi frá fylkjunum og vitneskjan um að Afbrigðileiki minn skiptir meira máli en mig óraði fyrir. Tilvist mín er merki um að við eigum að fara úr borginni og bjóða hverjum þeim sem eru fyrir utan hana aðstoð okkar.
                „Ég vil fá að vita eitt,“ segir Cara og strýkur lófanum yfir andlitið. „Ég verð að fá að vita hvað við höfum verið hérna lengi. Gætirðu hætt að æða svona um í eina mínútu?“
                Ég stansa á miðju klefagólfinu, lyfti brúnum og horfi á hana.
                „Fyrirgefðu,“ tautar hún.
                „Gerir ekkert til,“ segir Christina. „Við höfum verið hérna alltof lengi.“
                Margir dagar eru liðnir frá því að Evelyn náði tökum á ringulreiðinni í anddyri Fjölvísi með nokkrum stuttaralegum fyrirmælum og lét flytja alla fangana umsvifalaust í klefa á þriðju hæð. Fylkislaus kona kom og gerði að sárum okkar og útbýtti verkjalyfjum og við höfum nokkrum sinnum fengið að borða og farið í sturtu en enginn hefur sagt okkur hvað sé að gerast úti. Alveg sama hvað ég geng fast á þau.
                „Ég hélt að Tobias yrði kominn,“ segi ég og læt fallast á beddann minn. „Hvar er hann?“
                „Kannski er hann ennþá reiður yfir að þú skrökvaðir að honum og fórst á bak við hann með samvinnunni við pabba hans,“ segir Cara.
                Ég sendi henni reiðilegt augnaráð.
                „Fjarki er ekki svo mikil smásál,“ segir Christina, annaðhvort til að ávíta Cöru eða hughreysta mig, ég er ekki viss hvort heldur er. „Það er örugglega eitthvað í gangi sem kemur í veg fyrir að hann komist hingað. Hann sagði þér að treysta sér.“
                Þegar allir voru æpandi í ringulreiðinni og fylkisleysingjarnir ýttu okkur að stiganum greip ég fast í faldinn á skyrtunni hans til að villast ekki frá honum. Hann tók um úlnliðina á mér, ýtti mér burt og þetta er það sem hann sagði: Treystu mér. Farðu þangað sem þér er sagt.
                „Ég reyni það,“ segi ég og það er satt. Ég reyni að treysta honum. En hver einasti hluti af mér, hver einasta fruma og taug, þráir frelsi, ekki bara úr þessum klefa heldur úr fangavistinni í borginni utan við hann.
                Ég verð að sjá hvað er hinum megin við girðinguna.
ANNAR KAFLI
 
TOBIAS
ÉG GET EKKI gengið eftir þessum göngum án þess að rifja upp dagana sem ég var fangi hérna, berfættur og sárkvalinn við minnstu hreyfingu. Og þeirri minningu fylgir önnur, minningin um biðina eftir því að Beatrice Prior gengi í dauðann, um kreppta hnefa mína á hurðinni, um fætur hennar dinglandi niður af handlegg Peters þegar hann sagði mér að hún væri bara undir áhrifum lyfja.
                Ég hata þennan stað.
                Það er ekki eins hreint hérna núna og þegar Fjölvísi réð hér ríkjum; núna sjást ummerki um bardaga, skotgöt í veggjum og glerbrot úr ljósaperum út um allt. Ég geng yfir skítug fótspor og undir flöktandi ljósum að klefanum hennar og mér er hleypt inn umyrðalaust því ég ber tákn fylkislausra – tóman hring – á svörtum borða um handlegginn og svipmót Evelyn á andlitinu. Tobias Eaton var fyrirlitlegt nafn en núna er það máttugt.
                Tris situr á hækjum sér á klefagólfinu, við hliðina á Christinu og skáhallt á móti Cöru. Tris mín ætti að vera föl og lítil – hún er nú einu sinni föl og lítil – en þess í stað er klefinn fullur af henni.
                Uppglennt augu hennar mæta mínum og hún stekkur á fætur, vefur handleggjunum um mittið á mér og grúfir andlitið í bringu mína.
                Ég kreisti öxlina á henni með annarri hendi og strýk hárið á henni með hinni, alltaf jafnhissa á því að hárið hætti á miðjum hálsinum en nái ekki niður á bak. Ég var ánægður þegar hún klippti sig því það var hárgreiðsla fyrir stríðsmann en ekki stelpu og ég vissi að það kæmi sér betur fyrir hana.
                „Hvernig komstu inn?“ segir hún lágt og skýrt.
                „Ég er Tobias Eaton,“ svara ég og hún hlær.
                „Alveg rétt. Ég gleymi því alltaf.“ Hún færir sig fjær, nógu langt til að sjá framan í mig. Úr augum hennar skín hik, rétt eins og hún sé hrúga af laufblöðum sem vindurinn feykir burt fyrr en varir. „Hvað er að gerast? Af hverju komstu ekki fyrr?“
                Hún hljómar örvæntingarfull, biðjandi. Þótt þessi staður búi yfir skelfilegum minningum fyrir mig eru hennar þó ennþá verri: gangan á aftökustaðinn, svik bróður hennar, óttavökvinn. Ég verð að koma henni héðan út.
                Cara lítur áhugasöm upp. Mér líður óþægilega, eins og ég hafi færst til í húðinni og passi ekki alveg í hana lengur. Ég þoli ekki að hafa áheyrendur.
                „Evelyn setti útgöngubann um alla borg,“ segi ég. „Enginn kemst hænufet án hennar leyfis. Fyrir nokkrum dögum hélt hún ræðu um samstöðu gegn kúgurum okkar, fólkinu fyrir utan.“
                „Kúgurum?“ segir Christina. Hún tekur lyfjaglas upp úr vasanum og hvolfir innihaldinu upp í sig – ég býst við að þetta séu verkjalyf út af skotsárinu á fætinum.
                Ég sting höndunum í vasana. „Evelyn – og reyndar mörgum öðrum líka – finnst að við ættum ekki að fara úr borginni bara til að hjálpa einhverju hyski sem tróð okkur hingað til að geta notað okkur seinna. Menn vilja reyna að lækna borgina og leysa vandamál okkar í staðinn fyrir að fara héðan og leysa vandamál annarra. Þeir orða þetta auðvitað ekki svona,“ segi ég. „Mig grunar að þessar skoðanir komi sér mjög vel fyrir móður mína því hún ræður á meðan við erum öll innan borgarmarkanna. Hún missir stjórntaumana um leið og við förum.“
                „Frábært.“ Tris ranghvolfir augunum. „Auðvitað velur hún eigingjörnustu leiðina sem er í boði.“
                „Það er nokkuð til í þessu hjá henni.“ Christina kreppir fingurna um lyfjaglasið. „Ég er ekki að segja að ég vilji ekki fara úr borginni til að gá hvað sé fyrir utan hana en við eigum fullt í fangi með það sem gengur á hérna. Hvernig eigum við eiginlega að hjálpa einhverju fólki sem við höfum aldrei séð?“
                Tris veltir þessu fyrir sér og bítur í innanverða kinnina. „Ég veit það ekki,“ viðurkennir hún.
                Samkvæmt úrinu mínu er klukkan þrjú. Ég hef verið hér of lengi – nógu lengi til að vekja tortryggni Evelyn. Ég sagði henni að ég ætlaði hingað til að slíta sambandinu við Tris, að það tæki ekki langan tíma. Ég er ekki viss um að hún hafi trúað mér.
                „Sko, ég kom aðallega til að vara ykkur við,“ segi ég. „Réttarhöld yfir öllum föngunum fara að hefjast. Þau ætla að sprauta ykkur allar með sannleikslyfi og ef það heppnast verðið þið dæmdar fyrir föðurlandssvik. Ég held að við viljum öll komast hjá því.“
                „Dæmdar fyrir föðurlandssvik?“ Tris grettir sig. „Hvernig geta það talist svik að upplýsa alla borgina okkar um sannleikann?“
                „Það var gert í trássi við foringja ykkar,“ segi ég. „Evelyn og fylgismenn hennar vilja ekki fara úr borginni. Þau kunna ykkur engar þakkir fyrir að sýna myndbandið.“
                „Þau eru alveg eins og Jeanine!“ Höndin á henni rykkist til eins og hana langi að berja í eitthvað en ekkert er nærtækt. „Reiðubúin að gera hvað sem er til að þagga niður sannleikann og til hvers? Til að vera kóngar í pínulitla heiminum sínum? Þetta er fáránlegt.“
                Ég vil ekki segja það en ég er að vissu leyti sammála mömmu. Ég vil ekki standa í neinni þakkarskuld við fólkið fyrir utan borgina, hvort sem ég er Afbrigði eða ekki. Ég er ekki viss um að ég vilji bjóða mig fram til að leysa vandamál mannkynsins fyrir þau, hvað sem það nú þýðir.
                 En ég vil samt fara, á sama örvæntingarfulla hátt og dýr langar að sleppa úr gildru. Tryllt og hamslaust. Reiðubúið að naga í sundur bein.
                „Burtséð frá því,“ segi ég varkár, „þá verðið þið dæmdar ef sannleikslyfið virkar á ykkur.“
                „Ef það virkar?“ spyr Cara og kiprar augun.
                „Afbrigði,“ svarar Tris og bendir á höfuðið á sér. „Manstu?“
                „Mjög athyglisvert.“ Cara stingur lausum hárlokk aftur í hnútinn neðst í hnakkanum. „En ekki dæmigert. Samkvæmt minni reynslu geta fæst Afbrigði streist gegn sannleikslyfinu. Hvernig skyldi standa á því að þú getur það?“
                „Það sama sögðu allir hinir Fjölvísingarnir sem stungu í mig sprautunálum,“ hreytir Tris út úr sér.
                „Getum við einbeitt okkar að aðalatriðunum, ha? Ég vil síður þurfa að hjálpa ykkur að flýja úr fangelsinu,“ segi ég. Allt í einu þarf ég bráðnauðsynlega hughreystingu svo að ég teygi mig eftir hendinni á Tris og hún tekur í höndina á mér. Við erum ekki vön að snerta hvort annað af minnsta tilefni; alltaf þegar við snertumst finnst mér það mikilvægt og þá fer um mig straumur af orku og létti.
                „Jæja þá, jæja þá,“ segir hún heldur blíðari á manninn, „hvað varstu að hugsa?“
                „Ég fæ Evelyn til að láta þig bera vitni fyrsta af ykkur þremur,“ segi ég. „Þá þarftu bara að finna einhverja lygi sem hreinsar bæði Christinu og Cöru af allri sök og segja hana undir áhrifum sannleikslyfsins.“
                „Hvaða lygi ætti að duga til þess?“
                „Mér fannst best að leyfa þér að ákveða það,“ segi ég. „Af því að þú ert betri lygari en ég.“
                Um leið og ég sleppi orðinu finn ég að þetta hitti á snöggan blett á okkur báðum. Hún hefur skrökvað svo oft að mér. Hún lofaði mér að ganga ekki í opinn dauðann í Fjölvísi þegar Jeanine krafðist þess að við fórnuðum Afbrigði en gerði það samt. Hún sagði mér að hún ætlaði að halda sig heima í árásinni á Fjölvísi en svo kom ég að henni í höfuðstöðvum fylkisins, í samstarfi við föður minn. Ég skil af hverju hún gerði þetta allt saman en það þýðir samt ekki að engir brestir séu í sambandinu.
                „Já.“ Hún verður niðurlút. „Allt í lagi, ég finn upp á einhverju.“
                Ég legg höndina á handlegg hennar. „Ég skal tala við Evelyn um réttarhöldin yfir þér. Ég skal reyna að fá þeim flýtt.“
                „Takk.“
                Núna grípur mig löngun sem ég er farinn að þekkja til að slíta mig lausan úr líkamanum og tala beint við huga hennar. Ég átta mig á að þetta er sama þrá og veldur því að mig langar alltaf til að kyssa hana þegar ég sé hana því jafnvel minnsta fjarlægð á milli okkar er óþolandi. Fingur okkar sem spenntust laust fyrir andartaki síðan halda nú dauðahaldi hver um annan, lófi hennar er þvalur af svita en minn með hrjúfum blettum eftir að hafa gripið um of mörg handföng á of mörgum lestum á ferð. Núna virðist hún vera föl og lítil en augu hennar vekja hjá mér hugmyndir um víðáttumikinn himin sem ég hef aldrei séð sjálfur, nema bara í draumi.
                „Gerið mér greiða og varið mig við ef þið ætlið að kyssast. Þá get ég litið undan,“ segir Christina.
                „Við ætlum að gera það,“ segir Tris. Og við gerum það.
                Ég legg fingurna á vanga hennar til að hægja á kossinum, held vörum hennar föstum við mínar svo að ég finni fyrir öllum stöðum þar sem þær snertast og öllum stöðum þar sem þær víkja í sundur. Ég nýt loftsins sem við öndum bæði að okkur andartakið eftir kossinn og hvernig nef hennar strýkst við nefið á mér. Mér dettur í hug dálítið sem mig langar að segja en það er svo persónulegt að ég kyngi því aftur. Andartaki síðar kemst ég að þeirri niðurstöðu að mér sé alveg sama.
                „Ég vildi óska þess að við værum ein,“ segi ég um leið og ég fer út úr klefanum.
                Hún brosir. „Ég óska þess næstum alltaf.“
                Þegar ég loka dyrunum á eftir mér sé ég að Christina þykist vera að gubba, Cara hlær en Tris stendur með hendur niður með síðum.
ÞRIÐJI KAFLI
 
TRIS
„MÉR FINNST ÞIÐ öll vera hálfvitar.“ Hendurnar hvíla í kjöltu minni eins og á sofandi barni. Líkami minn er þungur af sannleikslyfinu. Svitinn safnast saman á augnlokunum. „Þið ættuð að þakka mér fyrir frekar en að yfirheyra mig.“
                „Ættum við að þakka þér fyrir að óhlýðnast fyrirmælum fylkisleiðtoganna þinna? Þakka þér fyrir að reyna að koma í veg fyrir að einn af foringjum fylkisins þíns dræpi Jeanine Matthews? Þú hegðaðir þér eins og svikari.“ Evelyn Johnson hvæsir orðið eins og naðra. Við erum í ráðstefnusalnum í höfuðstöðvum Fjölvísi þar sem réttarhöldin hafa farið fram. Núna hef ég dúsað í fangelsi í að minnsta kosti viku.
                Ég sé Tobias hálffalinn í skugganum fyrir aftan mömmu sína. Hann hefur horft í aðrar áttir frá því að ég settist í stólinn og plastfjötrarnir um úlnliðina á mér voru klipptir í sundur. Eitt andartak mætast augu okkar og ég veit að nú er tími til kominn að byrja að ljúga.
                Það er auðveldara núna þegar ég veit að ég get það. Jafnauðvelt og að ýta þunganum af sannleikslyfinu til hliðar í huganum.
                „Ég er ekki svikari,“ segi ég. „Á þessum tíma trúði ég að Marcus væri að fylgja fyrirmælum Hugprýði og fylkisleysingja. Ég gat ekki tekið beinan þátt í bardögunum og var ánægð með að geta hjálpað til á annan hátt.“
                „Af hverju gastu ekki barist?“ Flúrljós logar fyrir aftan hnakkann á Evelyn. Ég sé ekki framan í hana og get ekki einbeitt mér nema augnablik að nokkrum hlut áður en sannleikslyfið reynir að draga mig aftur niður í hyldýpið.
                „Út af því.“ Ég bít á vörina eins og ég reyni að koma í veg fyrir að orðin brjótist fram. Ég veit ekki hvenær ég varð svona góður leikari en það er líklega ekki sérlega frábrugðið því að segja ósatt og ég hef alltaf verið góð í því. „Af því að ég gat ekki haldið á byssu, ókei? Ekki eftir að ég skaut … hann. Will vin minn. Ég gat ekki haldið á byssu án þess að fá kvíðakast.“
                Evelyn kiprar augun ennþá meira. Mig grunar að jafnvel þar sem hún er meyrust finni hún ekki til neinnar samúðar með mér.
                „Svo að Marcus sagði þér að hann væri að framfylgja fyrirmælum mínum,“ segir hún. „Og þú trúðir honum, jafnvel þótt þú vitir það sem þú veist um fremur stirt samband hans við bæði Hugprýði og fylkisleysingja?“
                „Já.“
                „Ég skil vel af hverju þú valdir ekki Fjölvísi.“ Hún hlær.
                Mér hitnar í vöngum. Mig blóðlangar að berja hana og er handviss um að marga hérna inni langar til þess líka, þótt enginn myndi þora að viðurkenna það. Evelyn heldur okkur öllum föngnum hérna í borginni undir stjórn vopnaðra fylkisleysingja sem fara í eftirlitsferðir um göturnar. Hún veit að sá sem er með byssurnar hefur völdin. Og Jeanine Matthews er dáin og enginn eftir til að láta reyna á yfirráð Evelyn.
                Frá einum harðstjóranum til annars. Núna er þetta heimurinn sem við eigum að venjast.
                „Af hverju sagðirðu ekki neinum frá þessu?“ spyr hún.
                „Ég vildi ekki þurfa að viðurkenna neinn veikleika,“ segi ég. „Og ég vildi ekki að Fjarki vissi að ég ynni með pabba hans. Ég vissi að hann yrði ekki sáttur við það.“ Ég finn ný orð koma fram á varir mínar, knúin áfram af sannleikslyfinu. „Ég færði ykkur sannleikann um borgina okkar og ástæðuna fyrir því að við búum hér. Þótt þú sért mér ekki þakklát fyrir það ættirðu að minnsta kosti að gera eitthvað í málunum í staðinn fyrir að sitja hér í þessari ringulreið sem þú skapaðir og láta eins og hún sé hásæti!“
                Háðsglott Evelyn geiflast eins og hún hafi allt í einu fundið óþægilegt bragð. Hún hallar sér nær mér og ég sé í fyrsta sinn hvað hún er gömul; ég sé hrukkurnar í kringum augun á henni og munninn og sjúklegan fölvann á húðinni eftir áralangan skort og hungur. Hún er samt myndarleg eins og sonur hennar. Langvarandi svelti gat ekki svipt hana því.
                „Ég er að gera ýmislegt í málunum. Ég er að skapa nýja heim,“ segir hún og lækkar róminn ennþá meir, svo að ég heyri varla hvað hún segir. „Ég var í Ósérplægni. Ég hef vitað sannleikann miklu lengur en þú, Beatrice Prior. Ég veit ekki hvernig þú kemst upp með þetta en ég heiti þér því að þú færð engan sess í nýja heiminum mínum, allra síst við hlið sonar míns.“
                Ég brosi dálítið. Ég ætti ekki að gera það en það er erfiðara að bæla niður hreyfingar og svipbrigði en orð á meðan þessi þyngsli fylla æðar mínar. Hún heldur að Tobias tilheyri henni núna. Hún veit ekki sannleikann, að hann á sig sjálfur.
                Evelyn réttir úr sér og krossleggur handleggina.
                „Sannleikslyfið hefur leitt í ljós að þú ert ekki svikari þótt þú kunnir að vera heimsk. Yfirheyrslunni er lokið. Þú mátt fara.“
                „Hvað með vinkonur mínar?“ drafa ég. „Christinu og Cöru? Þær gerðu ekki heldur neitt rangt.“
                „Röðin kemur bráðum að þeim,“ segir Evelyn.
                Ég stend upp þótt ég sé máttlaus og mig sundli af lyfjagjöfinni. Salurinn er fullur af fólki sem stendur þétt saman og ég finn ekki útgönguleiðina lengi vel fyrr en piltur með brúna húð og breitt bros tekur í handlegginn á mér. Uriah. Hann leiðir mig að dyrunum. Allir fara að tala saman.
Uriah leiðir mig inn ganginn og að lyftunum. Dyrnar opnast um leið og hann ýtir á takkann og ég elti hann inn í lyftuna, ennþá dálítið völt á fótunum. „Fannst þér ég ganga of langt þegar ég sagði þetta um ringulreiðina og hásætið?“ spyr ég um leið og dyrnar lokast.
                „Nei. Hún heldur að þú sért fljótfær og örgeðja. Hún hefði kannski orðið tortryggin ef þú værir það ekki.“
                Mér finnst allt innra með mér titra af orku og eftirvæntingu yfir því sem bíður mín. Ég er frjáls. Við munum finna leið út úr borginni. Ég þarf ekki lengur að bíða, ganga um gólf í fangaklefa og heimta svör sem ég fæ ekki frá vörðunum.
                Verðirnir sögðu mér samt hitt og þetta um hið nýja fylkislausa skipulag í morgun. Meðlimir fylkjanna fyrrverandi eiga að færa sig nær höfuðstöðvum Fjölvísi og blanda sér í hópinn sem þar er fyrir, ekki samt fleiri en fjórir meðlimir úr sama fylki í sömu vistarverum. Við eigum líka að blanda saman fötunum okkar. Mér var úthlutað gulri Samlyndisskyrtu og svörtum Bersöglibuxum þegar það tiltekna boð var látið út ganga.
                „Jæja, við erum hérna megin …“ Uriah teymir mig út úr lyftunni. Þessi hæð í höfuðstöðvum Fjölvísi er öll úr gleri, meira að segja veggirnir. Sólargeislarnir brotna í rúðunum og varpa mjóum regnbogum á gólfið. Ég skyggi fyrir augun með annarri hendi og elti Uriah inn í langt, mjótt herbergi með rúmum báðum megin. Við hliðina á hverju rúmi er glerskápur undir föt og bækur og lítið borð.
                „Þetta var áður svefnskáli nýliða í Fjölvísi,“ segir Uriah. „Ég er búinn að taka frá rúm handa Christinu og Cöru.“
                Þrjár stelpur í rauðum blússum sitja á rúmi skammt frá dyrunum – Samlyndisstelpur, gæti ég trúað – og vinstra megin í herberginu liggur roskin kona í einu rúminu, með gleraugu hangandi á öðru eyranu – hugsanlega úr Fjölvísi. Ég veit að ég ætti að hætta að troða fólki í fylki um leið og ég sé það en þetta er gamall ávani og erfitt að uppræta hann.
                Uriah hlammar sér á eitt rúmið í innsta horninu. Ég sest á rúmið við hliðina á honum, fegin að vera loksins orðin frjáls og geta slakað á.
                „Zeke segir að stundum taki það fylkisleysingja dálitla stund að sýkna fólk svo að þær ættu að sleppa út á eftir,“ segir hann.
                Rétt sem snöggvast er ég fegin að vita að allir sem mér þykir vænt um verði lausir úr fangelsi í kvöld. Svo man ég að Caleb dúsir þar enn, því allir vita að hann var skósveinn Jeanine Matthews og fylkisleysingjarnir sýkna hann aldrei. Ég veit hins vegar ekki hvað þeir ætla að ganga langt í að uppræta sporin eftir Jeanine Matthews hér í borginni.
                Mér er alveg sama, hugsa ég. Ég veit samt að það er ekki satt, jafnvel á meðan ég hugsa þetta. Hann er nú einu sinni bróðir minn.
                „Gott,“ segi ég. „Takk, Uriah.“
                Hann kinkar kolli og hallar höfðinu upp að veggnum.
                „Hvernig líður þér?“ spyr ég. „Ég meina … Lynn …“
                Uriah var orðinn vinur Lynn og Marlene áður en ég kynntist þeim og núna eru þær báðar dánar. Mér finnst að ég gæti skilið hann – þegar allt kemur til alls hef ég líka misst tvo vini, Al vegna hörkunnar í inntökuferlinu og Will í árásarhermingunni og vegna vanhugsaðra viðbragða minna. En ég vil ekki láta eins og sálarkvalir okkar séu sambærilegar. Uriah var til dæmis nánari vinum sínum en ég.
                „Ég vil ekki tala um það.“ Uriah hristir höfuðið. „Eða hugsa um það. Ég vil bara halda áfram.“
                „Allt í lagi. Ég skil það. Bara … láttu mig bara vita ef þú þarft …“
                „Já.“ Hann brosir til mín og stendur upp. „Það fer ágætlega um þig hérna, er það ekki? Ég lofaði mömmu að heimsækja hana í kvöld svo að ég verð að fara fljótlega. Æ – ég var næstum búinn að gleyma einu – Fjarki sagðist vilja hitta þig á eftir.“
                Ég rétti úr mér. „Í alvöru? Hvenær? Hvar?“
                „Upp úr tíu, í Þúsaldargarði. Á grasflötinni.“ Hann glottir. „Ekki vera svona æst. Hausinn á þér gæti sprungið.“
FJÓRÐI KAFLI
 
TOBIAS
MAMMA TYLLIR SÉR alltaf á brúnina á öllu – stólum, gluggasyllum, borðum – eins og hana gruni að hún þurfi fyrr en varir að leggja á flótta. Í þetta sinn er það gamla skrifborðið hennar Jeanine í höfuðstöðvum Fjölvísi. Hún hefur tyllt sér á borðbrúnina, styður tánum á gólfið og þokukennd borgarljósin skína fyrir aftan hana. Hún er vöðvum vafin beinagrind.
                „Ég er hrædd um að við þurfum að ræða hollustu þína,“ segir hún en ekki eins og hún sé að ásaka mig um neitt, hún er bara þreytuleg. Rétt sem snöggvast virðist hún svo uppgefin að mér finnst að ég hljóti að geta séð í gegnum hana en svo réttir hún úr sér og mér finnst það ekki lengur.
                „Þegar öllu er á botninn hvolft varst það þú sem hjálpaðir Tris að birta myndbandið,“ segir hún. „Ég veit það, þótt enginn annar viti það.“
                „Sko.“ Ég halla mér fram og styð olnbogunum á hnén. „Ég vissi ekki hvað var í skránni. Ég treysti Tris betur en eigin dómgreind. Annað gerðist ekki.“
                Mig grunaði að mamma ætti auðveldara með að treysta mér ef ég segði henni að ég hefði slitið sambandinu við Tris og það reyndist rétt – hún hefur verið hlýlegri og opnari síðan ég skrökvaði því að henni.
                „En núna ertu búinn að sjá upptökuna,“ segir Evelyn. „Hvað finnst þér núna? Finnst þér að við ættum að fara úr borginni?“
                Ég veit hvað hún vill að ég segi – að ég sjái enga ástæðu til að ganga til liðs við umheiminn – en ég er ekki góður lygari og kýs þess vegna að segja hluta af sannleikanum.
                „Ég hræðist það,“ segi ég. „Ég er ekki viss um að það sé gáfulegt að fara úr borginni þegar maður veit af hættunum sem kunna að bíða utan hennar.“
                Hún horfir hugsandi á mig dálitla stund og bítur í kinnholdið. Ég lærði þann ósið af henni – ég nagaði stundum á mig sár meðan ég beið eftir að pabbi kæmi heim, óviss um hvor útgáfan af honum það yrði, sú sem Ósérplægni treysti og hafði í hávegum eða sú sem barði mig.
                Ég renni tungunni yfir örin af bitsárunum og kyngi minningunni eins og hún væri gall.
                Evelyn rennir sér fram af skrifborðinu og gengur að glugganum. „Mér hafa borist kvíðvænleg skilaboð um uppreisnarhreyfingu í okkar röðum.“ Hún lítur upp og lyftir brúnum. „Fólk myndar alltaf hópa. Það er óumflýjanleg staðreynd. Ég átti bara ekki von á að það yrði alveg strax.“
                „Hvernig hreyfingu?“
                „Hreyfingu sem vill fara úr borginni,“ segir hún. „Þau sendu frá sér einhvers konar stefnuyfirlýsingu í morgun. Þau kalla sig Arftakana.“ Þegar hún sér skilningsleysið skína af mér útskýrir hún málið. „Vegna þess að arfleifð þeirra er upprunalegur tilgangur borgarinnar okkar, skilurðu?“
                „Upprunalegi tilgangurinn – áttu við það sem Edith Prior sagði á myndbandinu? Að við ættum að senda fólk úr borginni þegar Afbrigðin væru orðin nógu mörg?“
                „Já, það líka. En ekki síður að við eigum að búa í fylkjum. Arftakarnir halda því fram að okkur sé ætlað að búa í fylkjum fyrst við höfum gert það frá fyrstu tíð.“ Hún hristir höfuðið. „Sumir munu alltaf óttast breytingar. Við getum bara ekki látið það eftir þeim.“
                Þegar fylkin voru leyst upp leið mér að sumu leyti eins og manni sem er hleypt út eftir langa fangavist. Ég þarf ekki að vega og meta hvort allt sem mér dettur í hug eða þarf að velja fellur að þröngsýnni hugmyndafræði. Ég vil ekki fá fylkin aftur.
                Evelyn hefur samt ekki frelsað okkur eins og hún heldur – hún hefur bara gert okkur öll fylkislaus. Hún óttast hvað við kynnum að velja ef við öðluðumst raunverulegt frelsi. Og það þýðir að burtséð frá því hvað mér kann að finnast um fylkin er ég feginn því að einhver, einhvers staðar, veiti henni andspyrnu.
                Ég set upp tómlátan svip en hjartað í mér berst hraðar en áður. Ég hef þurft að fara varlega til að vekja ekki vanþóknun Evelyn. Ég á auðvelt með að ljúga að öllum öðrum en það er erfiðara að skrökva að henni, einu manneskjunni sem vissi öll leyndarmálin um heimili okkar í Ósérplægni og ofbeldið innan veggja þess.
                „Hvað ætlarðu að gera við þau?“ spyr ég.
                „Ég ætla að ná taumhaldi á þeim, hvað annað?“
                Orðið „taumhald“ fær mig til að rétta úr mér og sitja þráðbeinn. Hér í borginni merkir „taumhald“ sprautur og efnablöndur og að sjá án þess að sjá; það merkir hermingar eins og þá sem kom mér næstum til að drepa Tris eða hina sem breytti Hugprýði í her.
                „Með hermingum?“ segi ég hægt.
                Hún grettir sig. „Auðvitað ekki! Ég er ekki Jeanine Matthews!“
                Það fýkur í mig við reiðilegt svarið. „Mundu að ég þekki þig varla neitt, Evelyn,“ segi ég.
                Henni bregður við áminninguna. „Leyfðu mér þá að segja þér að ég mun aldrei grípa til herminga til að fá mitt fram. Dauðinn væri betri kostur.“
                Kannski beitir hún þá dauðanum – það þaggar sannarlega niður í fólki ef það er drepið og myndi kæfa byltinguna áður en hún hæfist. Hverjir sem Arftakarnir kunna að vera þarf að vara þá við og það sem fyrst.
                „Ég get komist að því hverjir þetta eru,“ segi ég.
                „Því trúi ég vel. Hvers vegna hefði ég annars átt að segja þér frá þeim?“
                Það gætu verið margar ástæður fyrir því. Til að prófa mig. Til að standa mig að verki. Til að fóðra mig á röngum upplýsingum. Ég veit hver móðir mín er – hún er kona sem trúir því að tilgangurinn helgi meðalið, alveg eins og faðir minn, og sama á stundum við um mig.
                „Ég skal þá gera það. Ég skal hafa uppi á þeim.“
                Ég stend upp og fingur hennar grípa um handlegginn á mér, brothættir eins og trjákvistir. „Þakka þér fyrir.“
                Ég neyði mig til að horfa á hana. Augun standa þétt fyrir ofan nefið sem endar í krók, alveg eins og nefið á mér. Húðin er miðlungsdökk, dekkri en húðin á mér. Ég sé hana snöggvast fyrir mér í gráum fötum Ósérplægni, með þykkt hárið nælt aftur með ótal hárspennum, sitjandi á móti mér við kvöldverðarborðið. Ég sé hana samanbogna fyrir framan mig að laga skakkt hneppta skyrtuna áður en ég fer í skólann og standandi við gluggann að skima eftir bíl pabba á sviplausri götunni, með spenntar greipar – nei, samankrepptar hendur og brúna hnúana hvíta af átakinu. Á þeim tíma vorum við sameinuð í óttanum en nú þegar hún er ekki lengur hrædd langar mig hálfvegis til að komast að því hvernig það væri að vera sameinaður henni í styrkleika.
                Ég finn sáran sting eins og ég hafi svikið hana, þessa konu sem var áður eini bandamaður minn, og sný mér undan áður en ég get tekið þetta allt aftur og beðið hana afsökunar.
                Ég geng út úr höfuðstöðvum Fjölvísi ásamt hópi manna og skilningsvana augu mín skima ósjálfrátt eftir fylkjalitum þótt þeir séu ekki lengur til. Ég er í grárri skyrtu, bláum gallabuxum, svörtum skóm – nýjum fötum, en undir þeim leynast Hugprýðitattúin mín. Ég get ekki afmáð það sem ég valdi. Allra síst þau.