Við vorum að horfa á sjónvarpið kvöldið sem amma kveikti í húsinu. Þetta var í mars árið 1974 og ég fimmtán ára gamall. Ég hélt ég hefði misst allt í þessum bruna en hvað vissi ég svosem um missi? Ekkert, ég vissi ekki neitt. Ég átti þó eftir að læra sitthvað.

Ég held að eldsvoðinn hafi breytt okkur, mér og Dom. Þótt ég hafi ekki fundið fyrir neinni breytingu í fyrstu held ég að eitthvað innra með okkur hafi opnast, eða vaknað. Ég held að við höfum allt í einu öðlast skilning á því hversu auðveldlega hlutir geta eyðilagst og glatast og horfið. Þetta var eins og að ganga gegnum dyr; öðrum megin var hlýja og notalega stofan sem við þekktum úr barnæsku en hinum megin útbrunnið tómarúm, fyllt ösku og sóti.

Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að litli árinn sá okkur. Þótt hann hafi verið þarna öll okkar æskusumur, mín og Doms, höfðum við fram til þessa verið einfaldir stráklingar. Einfaldir, hamingjusamir, fáfróðir stráklingar. Og hvað í ósköpunum ætti hann svosem að eiga sameiginlegt með tveimur fáfróðum strákum? En eftir brunann vorum við breyttir. Kannski vorum við svolítið eins og hann. Og þess vegna sá hann okkur, loksins, og taldi sig hafa fundið heimili.

Kvöldið sem bruninn varð hafði mamma komið heim með franskar og við átum þær beint upp úr pokunum, með fæturna uppi á stofuborði og augun límd við sjónvarpið. Þegar ég hugsa til baka er undarlegt að ég skuli muna að við vorum að horfa á Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum. Þegar ég hugsa til baka er það eins og fyrirboði, en ég man að mér fannst myndin ömurleg. Hún átti ekkert skylt við almennilegar stríðsmyndir. Sem dæmi þá fjallaði hún um Þjóðverjana. Sem voru vondu karlarnir! Hvern langar að horfa á bíómynd um vondu karlana? Og þeir höguðu sér ekkert eins og óþokkar. Þeir létu bara eins og venjulegir strákar, þótt það verði að viðurkennast að þetta var frekar dapurlegur hópur. Það var annað sem ég þoldi ekki við myndina. Hver er tilgangurinn með dapurlegri stríðsmynd? Hvar voru hetjudáðirnar? Hvar var spennan? Hvað var málið með alla leðjuna og óreiðuna? Ég gaut augum á Dom sem lá á gólfinu og sleikti edikið innan úr frönskupokanum sínum. Hann fylgdist efins með sjónvarpsskjánum.

„Eru þetta nasistar?“ spurði hann.

„Nei,“ svaraði pabbi. „Þetta eru bara guttar.“

Dom sneri sér við og leit á pabba. „En þetta eru Þjóðverjar!“

Pabbi byrjaði að segja eitthvað en einmitt þá kom amma út úr eldhúsinu og hann þagnaði. Ég held að hann hafi vonast til að hún myndi fá sér sæti og sofna aftur en það gerði hún ekki, heldur stóð bak við sófann, starði á sjónvarpið og hendurnar titruðu af æsingi, hryllingi. „Ó, nei!“ sagði hún. „Nei, nei! Þetta er ekki fallegt! Svo mikil leðja! Ó, blessi hann! Blessi hann! Þetta er ekki fallegt!

Mamma andvarpaði, stóð upp og gekk til ömmu. Amma blikkaði ráðvillt þegar mamma tók um olnbogann á henni.

„Þetta er allt í lagi, Cheryl mín,“ sagði mamma. Þetta er bara kvikmynd.“

Pabbi teygði sig aftur og snerti höndina á ömmu. „Heyrðu mamma,“ sagði hann hljóðlega, „af hverju sestu ekki í stólinn þinn og færð þér tebolla?“

Ruglið í ömmu pirraði mig og ég leit undan.

Ég held að hún hafi tvístigið þarna í smástund; ég heyrði hana muldra og andvarpa. Svo kom auglýsingin á skjáinn, Old Spice, þessi með öldunum, og tónlistin vakti gleði hennar á ný, eins og alltaf. Fyrr en varði var hún sest brosandi í stólinn sinn og þáði tebolla hjá pabba. Við slökuðum öll aðeins á.

Myndin byrjaði aftur og pabbi dæsti. Hann virtist ekki hafa gaman af henni frekar en ég. Næsta auglýsingahlé hófst. Amma muldraði upp úr svefni: „Elsku vinur, varstu hérna allan þennan tíma?“

Pabbi stökk á fætur og nuddaði saman höndunum. „Einmitt, klóið og svo tebolli.“

Hann kyssti mömmu á leiðinni út um dyrnar og hún kallaði á eftir honum að koma með appelsínufyllta Jaffakexið í bakaleiðinni.

Við tókum ekki eftir að hann bakkaði inn í herbergið fyrr en hann stóð við enda sófans og greip í öxlina á mömmu. Hún sló til hans í pirringi, hélt að hann væri eitthvað að grínast. Svo leit hún framan í hann og öll svipbrigði hurfu úr andlitinu á henni.

„Hvað er að?“ spurði hún.

„Farðu með mömmu út í fremri garðinn, Olive. Farðu bara með hana eins rólega og þú getur. Ekki koma aftur inn. Ég ætla upp að sækja Dee.“

Þau horfðu hvort á annað og augu mömmu stækkuðu. „Dave,“ hvíslaði hún, „er þetta reykur?“

Dom stökk upp af gólfinu. Hann hafði verið að teikna myndasöguna sína og hélt á fjólubláum tússlit. Fingurnir á honum voru allir í fjólubláum klessum og andlitið þakið fjólubláum fingraförum. Ég reis á fætur. Sjónvarpsherbergið virtist aldrei eins lítið og þegar allir þrír Finnerty- karlmennirnir stóðu þar uppréttir.

Mig langaði að spyrja: Hvað er að? En eins og vanalega gerði Dom það fyrir mig.

„Pabbi?“ spurði hann. „Er eitthvað …?“

„Heyrið!“ sagði pabbi. „Heyrið þið mig. Dom, hjálpaðu til við að koma ömmu þinni út. Vertu rólegur og láttu sem ekkert sé.“ Hann sneri sér að mér. „Pat, ég ætla upp. Þegar hin eru komin út máttu ekki hleypa þeim aftur inn í húsið. Heyrirðu það? Sama hvað gengur á.“

Ég kinkaði kolli.

Pabbi fór fram á ganginn, leit í átt að eldhúsinu og veifaði okkur að bakdyrunum.

Mamma vakti ömmu, sem tók vanalega góða stund. „Svona Cheryl mín. Komdu á fætur, elskan. Svona nú, stattu upp.“

„Hvert erum við að fara?“ spurði amma, titrandi röddin sljóvguð af einhverju fleiru en svefni. „Erum við orðin of sein í messu?“

„Svolítið, vinan. Við þurfum að flýta okkur. Obbossí. Svona nú.“

Mamma vissi. Ég sá það á því hvernig hún stýrði ömmu framhjá pabba og leit ekki til baka inn ganginn. Dom hljóp á undan. Hann hélt dyrunum fram á ganginn opnum og stóð í anddyrinu, með höndina á snerlinum á bakdyrunum, þegar pabbi öskraði: „STOPP!“

Við frusum öll. Pabbi hélt upp hendinni, eins og til að koma í veg fyrir að við hreyfðum okkur. Hann var ekki þrekinn maður en á þessari stundu virtist hann fylla út í allan ganginn, lifandi hindrun milli okkar og þess sem leyndist í eldhúsinu. „Dom,“ sagði hann, „ekki opna þessar dyr strax! Það er mjög mikilvægt. Hleyptu fyrst öllum inn í anddyrið. Svo skaltu loka gangdyrunum á eftir ykkur og þá máttu opna útidyrnar. Skilið?“

Dom starði stórum brúnum augum á pabba og kinkaði kolli. Mamma ýtti ömmu upp að hlið hans og þau tróðust öll saman í anddyrið og störðu á pabba. Amma fór að nöldra um veskið sitt og mamma greip þétt í hana án þess að segja orð, augu hennar límd við pabba eins og hún væri hrædd um að hann hyrfi. Ég fann lyktina af reyknum. Ég heyrði í logunum. Einhvers staðar á bak við pabba minn var eitthvað feiknastórt að brenna. Pabbi sendi mér samskonar augnaráð og Dom áður og það rann upp fyrir mér hversu alvarlegt þetta var.

Það var kviknað í húsinu okkar. Það brann.

„Patrick,“ sagði pabbi, „lokaðu útidyrunum þegar allir eru komnir út. Það er mjög mikilvægt. Ég ætla upp að sækja systur þína og mér er skítsama hvað gengur á meðan ég er uppi, þú mátt ekki hleypa mömmu þinni eða Dom eða ömmu þinni aftur inn í húsið. Skilurðu það?“

Augu mín hvörfluðu frá honum og litlu munaði að ég dytti um koll, mér brá svo við að sjá eldhúsdyrnar. Ódýr viðurinn glóði, málningin uppbólgin og hvæsandi. Svartar reyktungur smeygðu sér gegnum götin við hurðarhúninn og teygðu sig upp í loftið, dreifðust upp veggina. Ég opnaði munninn til að æpa en áður en ég gat gefið frá mér hljóð ýtti pabbi mér inn í troðið anddyrið og skellti hurðinni í andlitið á mér. Ég starði á spegilmynd mína í glerinu.

Amma heimtaði að fá að yfirgefa þennan símaklefa og mamma æpti á Dom að opna dyrnar. Hann gerði það og þau ultu út í kolamettað loft úthverfanæturinnar og skildu eftir sig kalt tómið að baki mér. Ég var kyrr þar sem ég stóð meðan mamma hljóp öskrandi yfir að húsi Reid-fjölskyldunnar sem voru þau einu við götuna sem áttu síma. Dom sá um ömmu sem var lögð af stað niður götuna til að ná strætisvagninum til Galway.

Ég sá pabba gegnum gárótt appelsínugult glerið í ganghurðinni, þjótandi upp stigann að herbergi Dee. Ég starði gegnum glerið og óskaði þess að hann kæmi aftur niður með Dee í fanginu. Ég get ennþá séð eldhúshurðina fyrir mér eins og hún væri beint fyrir framan mig. Þótt ég hafi aðeins séð hana örskotsstund var það nóg til að festa hvert einasta smáatriði í huga mér.

Ég heyrði pabba koma á fleygiferð niður stigann, sá óreglulegar útlínur hans gegnum appelsínugult glerið og sá að bleiki vöndullinn í fanginu á honum var systir mín. Þegar hann lenti á teppinu fyrir neðan stigann áttaði ég mig á því að ég hafði ekki gert það sem hann bað um. Útidyrnar voru ennþá galopnar og pabbi teygði sig eftir hurðarhúninum.

Pabbi. Nei.

Hjartað hökti í brjóstinu á mér. Ég opnaði munninn til að vara hann við og teygði mig í útidyrnar. Of seinn. Alltof seinn. En, guði sé lof, pabbi hikaði, með höndina á húninum, höfuðið upp að glerinu eins og til að hlusta eftir loftinu fyrir utan. Ég heyrði bælda röddina: „Pat?“

Heimurinn hrökk aftur í gang og ég stóð þarna gapandi. „Bíddu aðeins, pabbi! Bíddu.“ Ég skellti bakdyrunum aftur af þvílíkum krafti að ég hefði fengið skömm í hattinn undir venjulegum kringumstæðum og nánast á sömu stundu henti pabbi upp innri hurðinni. Andlitið á honum var samanherpt í hræðslugrettu, húðin undir augunum strekkt og skjannahvít. Gangurinn að baki honum var fullkomlega eðlilegur fyrir utan svartan reykjarmökkinn sem bylgjaðist fyrir enda hans. Reykurinn óð upp veggina, dreifði sér í bylgjum yfir loftið og í gegnum reykinn glitti í auga, illt auga, sem þandist heitt og rautt við dyrnar inn í eldhúsið okkar. Logarnir sleiktu hurðina letilega, hægfara hitabylgja.

Við þröskuldinn út á pallinn sneri pabbi sér við og leit til baka. Skugga hans bar við eldinn og reykinn og hann var eins og miðaldahetja – eitthvað stærra og meira en bara pabbi minn. Eitt augnablik starði hann inn í eldinn: maður gegn dreka, dauðlegur maður gegn frumöflunum. Svo skellti hann hurðinni á eftir sér, ruddist út á veröndina og ýtti mér á undan sér út í nóttina.

Mamma kom hlaupandi, öskrandi út úr myrkrinu og greip dauðahaldi í pabba og Dee. Dee vaknaði og fór að grenja, mamma tók hana í fangið og bablaði um slökkviliðið og símtöl meðan pabbi ýtti okkur öllum út á gangstíginn. Herra og frú Reid æddu niður götuna frá húsinu sínu, með stelpugerið sitt í eftirdragi, opinmynnt og starandi eins og þau byggjust við að sjá okkur öll í ljósum logum fyrir framan húsið. Þau námu staðar í hrúgu við hliðið og við stóðum öll og störðum á húsið.

„Ég sé ekkert athugavert, Dave,“ herra Reid var í vörn, hélt örugglega að þetta væri einhvers konar grín.

„Jeminn, það er djöfuls skítakuldi.“ Þetta var harða, nefmælta vælið hennar Naomi Reid.

„Þegiðu, Naomi, ókei?“ Álíka ískrandi svar Maureen.

„Þegiðu sjálf.“

„Nei, þú.

„Þegiði, báðar tvær.“ Sharon, horuðust og hræðilegust þeirra allra.

Reid-stelpurnar í allri sinni dömulegu dýrð.

Dom smalaði ömmu aftur upp á veginn og ég var farinn að halda að við hefðum ímyndað okkur þetta allt saman þegar birti skyndilega yfir glerinu í útidyrahurðinni.

„Jesús,“ sagði pabbi.

Stofan, þar sem við höfðum rétt áður verið að borða franskar og horfa á sjónvarpið, var hulin þykkum gardínum. Fyrst sáum við ekkert óvanalegt þar en smátt og smátt baðaðist stofuglugginn glaðlegri birtu, eins og stórt og mikið bál logaði í gríðarmiklu eldstæði. Það voru engin eldstæði í þessum húsum, ó nei, bara ömurlegar astmavaldandi miðstöðvarkyndingar. Ég fylgdist með glaðlegum appelsínugulum hitanum seytla gegnum þykkar gardínurnar og ímyndaði mér drekann fyrir innan, sleikjandi húsgögnin okkar með kraumandi tungunni.

Örþunnur birtuþráður gægðist undan gardínufaldinum. Fyrst var þetta aðeins næfurþunnur gylltur útsaumur – og svo, hviss, varð glugginn að logandi eldhafi. Rétt si svona. Eina mínútuna saklaus gluggatjöld, þá næstu iðandi reykmettað eldlandslag sem fyllti gluggann.

Gluggarnir á efri hæðinni lýstust upp. Fyrst herbergi Dee. Svo okkar.

Okkar.

Ég sá fyrir mér skrifborðið hans Doms. Ég sá teikningarnar hans rúllast upp og sortna; síðu eftir síðu af myndasögunni hans, penslana sem hann hafði stritað fyrir, blýantana. Ég sá fyrir mér glósubækurnar mínar, stílabækur fullar af smásögum, skáldsöguna mína. Handskrifaðar síður í metravís étnar hver á fætur annarri, svertar, samanherptar sitt á hvað, orðin sviðnuð og rísandi upp í sótinu, aldrei lesin framar.

Við vorum að missa allt.

Augu mín brunnu en ég gat ekki blikkað. Ég starði upp í gluggann okkar Doms og sá glitta í hornið á kojunni okkar. Það byrjaði að rjúka úr dýnunni í efri kojunni, dýnunni hans Doms, fyrir augunum á mér og ljósið dansaði á veggnum fyrir aftan kojuna. Það rauk úr jöðrunum á Horslips-plakatinu okkar. Skyndilega kviknaði í því og það fuðraði upp í stórum logum. Svo flaut það niður af veggnum, leystist upp í appelsínugul fiðrildi og svartar fjaðrir.

„Jesús,“ sagði pabbi aftur.

Við heyrðum í honum núna – drekanum – hvernig hann fór rymjandi gegnum húsið, étandi, étandi sig í gegnum húsið án þess að skilja nokkuð eftir handa okkur.

Ég leit á Dom, spegilmynd mína, eineggja tvíburann minn. Hann hafði látið ömmu setjast á garðvegginn og stóð á bak við hana, með hendurnar á öxlunum á henni. Hann starði á svefnherbergisgluggann okkar, andlitið sviplaust, í losti.

„Dom,“ sagði ég.

Hann leit strax til mín. Mig langaði að segja: dótið okkar, Dom. Allt dótið okkar. En eins og vanalega fann ég ekki orðin. Ég man hvernig stór augu hans glitruðu og hvernig skilningurinn breiddist yfir andlitið. Hann leit niður á höndina á sér og tók eitthvað úr vasanum. Það var fjólublái tússliturinn. Hann lyfti honum upp, dapur á svip og yppti svo öxlum eins og til að segja: O, jæja. Við eigum þó þennan.

Skitinn fjólubláan tússlit.

„Ég vil smjör, enga sultu,“ muldraði amma og kom sér þægilega fyrir til að fylgjast með sýningunni. Mamma settist við hlið hennar með Dee steinsofandi í fanginu.

Eitthvað gríðarmikið sprakk inni í húsinu með HVELLI.

„Jesús, María og Jósep,“ sagði pabbi. Hann hörfaði, settist við hlið mömmu og tók um hönd hennar.

Herra og frú Reid og stelpurnar stóðu í röð fyrir aftan þau með hökuna ofan í bringu og augun uppglennt. Dom sveiflaði fótunum yfir vegginn og ég fór til hans og settist hjá honum. Lengst í burtu heyrðist vælið í slökkvibílnum sem þræddi göturnar í áttina til okkar. Og á meðan við biðum, andlit okkar böðuð ljósinu frá eldinum, fylgdumst við með því þegar drekinn gleypti í sig hverja einustu örðu af húsinu okkar.