Sesselía Ólafs

Sesselía Ólafs lauk námi í leiklist og leikstjórn í London árið 2012. Síðan þá hefur hún leikið og leikstýrt hérlendis og erlendis, á sviði sem og í kvikmyndum. Sesselía hefur einnig lokið BA gráðu í enskum bókmenntum, gefið út pastelritið Leiðslu og árið 2025 gaf Bókabeitan út hennar fyrstu skáldsögu, Silfurberg.
Sesselía var valin bæjarlistamaður Akureyrar 2023 og er einn stofnenda bæði gríndúettsins Vandræðaskálda og leikhópsins Umskiptinga, en undir þeirra formerkjum hefur hún verið höfundur og í höfundateymum fimm leikverka. Umskiptingar voru tilnefndir til Grímunnar sem Sproti ársins árið 2018 og svo aftur árið 2020 fyrir Galdragáttina sem Barnasýningu ársins.
Þá hefur Sesselía samið handritin fyrir og leikstýrt tveimur stuttmyndum. Sú fyrri heitir Umskipti/Turn, en hún fór á 13 kvikmyndahátíðir og hlaut verðlaun bæði sem besta íslenska hrollvekjan og besta evrópska stuttmyndin.
Sú nýrri heitir svo Betur sjá augu/See No Evil og hefur verið valin á 23 hátíðir og hlotið 14 verðlaun, meðal annars fyrir bestu leikstjórn, besta handrit, bestu fantasíu og bestu mynd hátíðar.