Kennarinn sem hvarf

Kennarinn sem hvarf er um krakkana í 6. BÖ sem eiga ekki margt sameiginlegt og semur oft illa en dag einn breytist allt! Bára kennari er horfin og dularfullir atburðir draga krakkana inn í æsispennandi atburðarás

Hérna er hægt að hlaða niður kennsluefni fyrir Kennarann sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Skjalið er stórt en auðvelt að vinna með hluta af því í einu. Hlekkurinn vísar á Dropbox þar sem hægt er að hlaða skjalinu niður.

 

Bergrún Íris hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttir 2019 fyrir óbirt handrit að bókinni.

Í janúar 2020 hlaut Bergrún einnig Fjöruverðlaunin fyrir Kennarann sem hvarf. 

Barnabókaverðlaun Guðrúnar HelgadótturUmsögn dómnefndar barnabókaverðlauna Guðrúnar Helgadóttur:  Bergrún Íris Sævarsdóttir er fyrsti handhafi nýrra barnabókaverðlauna sem kennd eru við Guðrúnu Helgadóttur og eru veitt fyrir frumsamið handrit að barna- eða ungmennabók. Hún fær þau fyrir handritið Kennarinn sem hvarf.

Fjölmörg handrit bárust í samkeppni um verðlaunin og var úr vöndu að ráða fyrir dómnefnd en Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu varð að lokum fyrir valinu. Sagan ber um margt einkenni úr höfundarverki Guðrúnar Helgadóttur með sér, hún er hlý og talar beint til barna, inn í þeirra heim og dæmir ekki. Að mati dómnefndar tekst höfundi áreynslulaust að skapa atburðarás sem er í senn beint úr raunveruleika barna en samt svo sérstök og ævintýraleg að það vekur athygli og spennu. (fengið af vef Rithöfundasambands Íslands).

FjöruverðlauninUmsögn dómnefndar Fjöruverðlaunanna: Bergrún Íris Sævarsdóttir er fjölkunnug mjög enda bæði afbragðs listakona og rithöfundur. Bók hennar, Kennarinn sem hvarf er fimlega byggð spennusaga sem heldur lesendum á aldrinum 9-12 ára föngnum til enda. Spennusagnaformið keyrir söguna áfram en sagan er allt í senn, hröð og skemmtileg og byggð samkvæmt lögmálum hefðbundinnar frásagnar. Söguna segir 12 ára gömul stúlka sem ásamt bekkjarfélögum sínum leita horfins kennara og leysa um leið flóknar þrautir. Persónurnar virðast við fyrstu sýn fremur einfaldar og staðlaðar en þegar á reynir eru þær ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur verða þær lifandi og margræðar þegar á frásögnina líður rétt eins og frásögnin sjálf. Bygging bókarinnar ásamt persónusköpun fleytir þessari heildstæðu sögu hátt og færir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur Fjöruverðlaunin 2020