Hilmar Örn Óskarsson er fæddur 1975 í Reykjavík. Hann ólst upp í Breiðholti, fyrst í Bökkunum en síðan Seljahverfi. Grunnskólanámi lauk hann í Breiðholtsskóla og stúdentsprófi í Fjölbrautaskóla Breiðholts. Hann ber ennþá sterkar taugar til Breiðholtsins þrátt fyrir að hann búi nú í miðbænum.

„Það er hægt að taka strákinn úr Breiðholtinu en ekki Breiðholtið úr stráknum“

Hilmar hafði snemma mikinn áhuga á bókum og móðir hans heldur því fram að honum hafi legið svo á að læra lestur að hann hafi kennt sér það sjálfur áður en formleg skólaganga hófst. Það kom því engum á óvart að hann skyldi leggja stund á, og ljúka B.A. gráðu í bókmenntafræði.

Hilmar á fjögur börn á aldrinum tíu ára til tvítugs sem eru stundum pínd til að lesa handrit í vinnslu og gefa álit ef þau vilja fá mat að borða.

Hilmar gekk til liðs við Bókabeituna 2011 og skömmu síðar leit fyrsta bókin um Kamillu Vindmyllu dagsins ljós. Bækurnar um Kamillu eru fjórar talsins en auk þess skrifaði Hilmar bókina um Funa og Öldu Földu ásamt unnustu sinni Helgu Þóru Ármann. Hann þýddi einnig tvær fyrstu bækurnar um Tapper tvíburana eftir Geoff Rodkey.

Nokkrar sniðugar staðreyndir um Hilmar:
Hann er lofthræddur
Hann er með svart belti í Taekwondo sem hann kennir bæði börnum og fullorðnum
Hann hefur óþrjótandi áhuga á hryllingsmyndum
Hann syngur á meðan hann vaskar upp