Agnes Wild er fædd 1989 í Mosfellsbæ, hún lauk BA námi í leiklist frá East 15 Acting School í London árið 2013. Síðan þá hefur Agnes starfað sem leikstjóri og leikkona og leikstýrt fjölda barnasýninga um land allt, skrifað leikrit, sjónvarpsþætti og bækur fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Agnes lifir og hrærist í barnamenningu og brennur fyrir að koma vönduðu og fræðandi menningarefni til íslenskra barna og ungmenna. Agnes er ein af stofnendum leikhópsins Miðnætti. Nýverið hóf Agnes störf sem verkefna- og teymisstjóri barna- og ungmenna þjónustu RÚV.
Instagram agneswild
Miðnætti
Leikhópurinn Miðnætti sérhæfir sig í að búa til menningar- og listatengt efni fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur. Þeirra hjartans mál er að efla íslenska barnamenningu með vönduðum og skemmtilegum leiksýningum, sjónvarpsþáttum og bókum.
Leikhópinn Miðnætti stofnuðu leikkonan og leikstjórinn Agnes Wild, tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir og leikmynda- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir. Leikhópurinn var tilnefndur til Grímuverðlaunanna 2017 í flokkunum Barnasýning ársins og Dans og sviðshreyfingar ársins fyrir sýninguna Á eigin fótum og 2020 í flokkunum Dans og sviðshreyfingar ársins fyrir sýninguna Allra veðra von í samstarfi við Hringleik og Barnasýning ársins fyrir sýninguna Tréð í samstarfi við leikhópinn Lalalab.
Síðustu verkefni Miðnættis eru meðal annars:
- Leiksýningin Tjaldið sem er sýnd í Borgarleikhúsinu
- Brúðusýningin Geim-mér-ei sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu
- Leiksýningin Jólaævintýri Þorra og Þuru sem var sýnd í Tjarnarbíói 2019 og 2020
- Sjónvarpsþættirnir Týndu jólin og Þorri og Þura: Vinir í raun í samstarfi við RÚV
- Leiksýningin Djákninn á Myrká í samstarfi við Leikfélag Akureyrar
- Bunraku-brúðusýningin Á eigin fótum sem sýnd hefur verið á Íslandi, Grænlandi, í Póllandi og Eistlandi og var boðið á heimsþing ASSITEJ (samtaka um leikhús fyrir unga áhorfendur) sem fram fór í Japan 2021.
Nánari upplýsingar á www.midnaetti.com
Instagram Miðnættis: midnaettileikhus
Facebooksíða Þorra og Þuru: www.facebook.com/thorriogthura
Facebooksíða Miðnættis: www.facebook.com/midnaettileikhus