Benný Sif Ísleifsdóttir er Eskfirðingur að upplagi og í hjarta, en býr nú í Kópavogi ásamt manni sínum og fimm fullorðnum og hálffullorðnum börnum. Hún er íslensku- og þjóðfræðingur að mennt og er í stjörnumerkinu voginni.
Benný hefur alla tíð verið mikill bókaormur og lestrarhestur og hefur lesið miklu fleiri bækur en hún hefur skrifað. Hún heldur því fram að það sé mannbætandi að lesa og finnst þess vegna að allir ættu að taka sér bók í hönd og gleyma sér við lestur. Helst alla daga!
Jólasveinarannsóknin er fyrsta barnabók Bennýjar en auk þess hefur hún skrifað eina bók fyrir fullorðna lesendur, skáldsöguna Grímu, sem fékk Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2018 og Bjartur gefur út.