Birgitta Elín Hassell er stofnandi og annar eigandi Bókabeitunnar. Hún fæddist í Keflavík árið 1971 og getur státað af því að hafa búið í öllum póstnúmerum í Reykjavík nema einu. Birgitta var ekki gömul þegar hún komst að því að ævintýraheimar eru til í raun og veru og innganginn í þá alla er að finna á næsta bókasafni.
Í barnadeildinni á efri hæð Aðalsafnsins í Þingholtsstræti fann Birgitta sínar eigin ævintýradyr og hóf að skrifa sögur. Leynilögregluævintýri í Egyptalandi, mannætubörn í fjölbýlishúsalyftum og ofurhetjuprinsessur lifnuðu við í stílabókum sem eru því miður löngu týndar.
Birgitta fann dyrnar aftur þegar hún kynntist Mörtu í Kennaraháskólanum árið 2005 og saman sköpuðu þær bókaflokkinn um krakkana í Rökkurhæðum. Samtals urðu þetta níu bækur áður en fyrirtækjarekstur, þýðingar og ritstjórn gleyptu allan tíma þeirra Birgittu og Mörtu.
Starf bókaútgefandans er það allra besta sem Birgitta veit. Það sameinar gleðina yfir vönduðum texta, dásamlegum myndum og gefandi samskipti við rithöfunda, teiknara, þýðendur, umbrotsfólk, hönnuði, erlenda og innlenda útgefendur og ótal aðra sem eiga það sameiginlegt að elska bækur og texta og ævintýri og vilja deila þeirri gleði með sem flestum.