Eva Rún Þorgeirsdóttir
Eva Rún Þorgeirsdóttir er fædd árið 1978 í Reykjavík og heillaðist mjög snemma af ævintýraveröld bókanna. Henni fannst best að vera á skólabókasafninu að lesa bækur. Draumurinn um að skrifa kviknaði einmitt fyrst þegar hún var átta ára og hlustaði á Vilborgu Dagbjartsdóttur lesa upp úr bók sinni á skólabókasafninu í Langholtsskóla.
Eva Rún fór snemma að skrifa dagbækur og ljóð, sem síðar urðu að sögum. Þegar hún varð tvítug, útskrifuð úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, ákvað hún að verða blaðamaður og fékk fljótlega sitt fyrsta lausablaðamennskustarf á tímariti.
Eva Rún lærði markaðsfræði í London og verkefnastjórnun í háskólanum Kaospilot í Danmörku og auk þess fékk hún jógakennararéttindi árið 2009 og sérhæfði sig í að kenna börnum jóga og hugleiðslu.
Eva Rún hefur síðustu tuttugu ár starfað við ýmiskonar framleiðslu á sjónvarpsefni og við verkefnastjórn á fjölmörgum menningartengdum viðburðum. Síðastliðin ár hefur hún starfað við fjölbreytt verkefni sem handritshöfundur, framleiðandi og leikstjóri á KrakkaRÚV. Hún hefur meðal annars stýrt allri framleiðslu á Stundinni okkar síðan 2019. Auk þessa hefur Eva Rún kennt krökkum jóga og hugleiðslu í mörg ár og haldið fjölmörg námskeið í skapandi skrifum fyrir börn. Það er ljóst að ástríðan hennar liggur fyrst og fremst í því búa til vandaðar bækur og sjónvarpsefni fyrir börn.
Eva Rún vann Edduna 2021 með samstarfsteymi sínu í Stundinni okkar, fyrir Barna- og unglingaefni ársins.
Fyrri bækur Evu Rúnar eru Auður og gamla tréð og bókaserían um Lukku og hugmyndavélina. Auk þess skrifaði hún hljóðbókina Sögur fyrir svefninn á Storytel.
Bókin Ró er bók um hugleiðslu og hvernig finna má frið og ró innra með sjálfum sér. Bókin er skrifuð fyrir börn - en á reyndar erindi við alla fjölskylduna - og geymir nokkrar einfaldar æfingar sem hægt er að gera heima fyrir.
Bækurnar Stúfur hættir að vera jólasveinn og Stúfur leysir ráðgátu eru gamansögur um góðhjartaða jólasveininn Stúf sem lendir í ævintýrum með vinkonu sinni, henni Lóu, og skapstygga jólakettinum Sigvalda.