Fanney fæddist að kvöldi Þorláksmessu, árið 1987, í miðjum jólagjafainnkaupum. Hún ólst upp á sveitabæ í Flóanum, gekk í Gaulverjabæjarskóla en síðar Fjölbrautaskóla Suðurlands og Háskólann í Reykjavík.
Til sextán ára aldurs starfaði Fanney á sveitabæ foreldra sinna, tamdi og þjálfaði hesta og vakti yfir fjárbúum í sauðburði. Meðfram háskólanámi starfaði hún sem aðstoðarmaður Ragnars Aðalsteinssonar hrl., veturinn 2012. Eftir útskrift úr lögfræði starfaði Fanney sem lögfræðingur hjá Lögmönnum Suðurlandi og síðar sem héraðsdómslögmaður hjá Rétti-Aðalsteinsson & Partners ásamt því að sinna stundakennslu á sviði mannréttinda í Háskólanum á Bifröst og fræðaskrifum.
Síðla árs 2016 lagði Fanney inn héraðsdómslögmannsréttindi sín og hélt af stað í ferðalag um Afríku, Asíu og Eyjaálfu, ásamt eiginmanni sínum, Steinþóri Runólfssyni. Eftir ár á faraldsfæti komu þau sér fyrir í Ástralíu þar sem Steinþór lagði stund á nám í utanspítalalækningum og Fanney hófst handa við uppbyggingu ævintýraheims sem byggir á kenningu réttarheimspekingsins John Rawls um fávísisfeldinn; kenningu um hvernig byggja megi samfélag á grunni sanngirni og réttlætis og þar með veita öllum þegnum samfélagsins jafnan rétt til að blómstra.
Fríríkið kom út haustið 2021. Hún er fyrsta bók af fjórum í bókaflokki um ævintýraheim Fanneyjar.
Huruma er önnur bók af fjórum og ráðgert að hún komi út haustið 2022.
Við heimkomu frá Ástralíu keyptu þau hjónin sveitabæ á bökkum Hólsár í Rangárþingi ytra. Þar stundar Fanney nú sjálfsþurftabúskap, hrossarækt og ritstörf og gengst því helst við starfsheitinu; blekbóndi.