Marta Hlín Magnadóttir er stofnandi og annar eigandi Bókabeitunnar. Hún er fædd á Ísafirði árið 1970 og alin upp af bókelskandi foreldrum á heimili sem var stútfullt af bókum. Hún lauk píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og eftir að hafa starfað við það og ýmislegt fleira tilfallandi lá leiðin í Kennaraháskóla Íslands. Þar kynntist hún Birgittu en undir lok Meistaranáms í Náms- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2011, með áherslu á bókmenntir, kviknaði hjá þeim hugmyndin að bókaflokknum um krakkana í Rökkurhæðum.
Um svipað leyti og fyrstu tvær bækurnar fóru í prentun stofnuðu þær Bókabeituna. Fyrirtækjarekstur, ritstjórn og þýðingar tóku sífellt meiri tíma en krakkarnir í Rökkurhæðum héldu áfram að banka á og heimta að saga þeirra yrði sögð – enda mjög merkileg saga! Alls urðu bækurnar níu og kom sú síðasta út haustið 2017.
Marta elskar að vinna með rithöfundum, teiknurum og hönnuðum og þá sérstaklega að bókum fyrir börn og ungmenni. Samhliða því sinnir hún þýðingum og almennum fyrirtækjarekstri.