Við kynntumst í Kennaraháskólanum þar sem við vorum báðar að læra íslenskukennslu og fundum fljótt að við áttum það sameiginlegt að hreinlega elska bækur. Við enduðum á því að skrifa saman B.Ed. ritgerð sem fékk nafnið Bókabeitan og þaðan kemur nafnið á bókaútgáfunni. Ritgerðin fjallaði um það hvernig hægt er að kveikja áhuga barna og unglinga á bókmenntum - hvernig á að beita bókum fyrir börn - því við erum handvissar um að bókstaflega allir geti haft gaman af því að lesa!

Árið 2011 stofnuðum við bókaútgáfuna. Á þessum tíma fannst okkur vanta fjölbreytileika í íslenskar bækur fyrir börn og ungmenni. Við vildum gefa út bækur sem væru mjög aðgengilegar fyrir þennan unga aldurshóp og væru ekki með of mikinn boðskap.  

Við gáfum fyrst út hrollvekjubókaflokkinn Rökkurhæðir, sem við skrifuðum saman, en fljótlega vatt útgáfan upp á sig og allt í einu vorum við farnar að gefa út bækur eftir aðra höfunda. 

Bókabeitan hefur frá upphafi verið drifin áfram af sameiginlegri hugsjón okkar um að búa til mjög vandaðar og skemmtilegar bækur fyrir börn og ungmenni. Við leggjum jafnmikla áherslu á að innihaldið sé áhugavert og skemmtilegt - og að útlit bókanna henti lesendahópnum, t.d. hvað varðar letur, línubil og útlit kápu. 

Þótt við séum lítil bókaútgáfa, erum við afkastamikil og gefum út fjölda titla á hverju ári. Og gefum ekkert eftir þegar kemur að gæðum. 

Bókabeitan gefur út vandaðar bækur undir þremur merkjum:
Töfraland – bækur fyrir yngstu lesendurna
Bókabeitan – skáldsögur fyrir börn og unglinga
Björt bókaútgáfa – ungmennabækur, skáldsögur og handbækur

Við gefum út bækur eftir glæsilegan hóp af afar hæfileikaríkum texta- og myndhöfundum. Hér getur þú kynnst höfundunum okkar. 

Takk fyrir að heimsækja síðuna okkar.

Marta og Birgitta