Kristín Ragna Gunnarsdóttir útskrifaðist úr grafískri hönnun frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og var gestanemi í málaradeild við sama skóla. Hún er með BA-próf í bókmenntafræði og MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Kristín hefur skrifað 11 barnabækur og er meðhöfundur þriggja myndabóka. Hún hefur hlotið Dimmalimm - íslensku myndskreytiverðlaunin í tvígang fyrir myndabækurnar Örlög guðanna og Hávamál og hefur verið tilnefnd til: Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna, Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Barnabókmenntaverðlauna Vestnorræna-ráðsins og In Other Words verðlaunanna. Tvær bækur Kristínar hafa verið þýddar á önnur tungumál.
Kristín Ragna hefur verið sýningarstjóri nokkurra barnasýninga og sýningin Barnabókaflóðið sem hún er höfundur að og var unnin fyrir Norræna húsið í Reyjavík hefur verið sett upp í Eystrasaltslöndunum. Auk þess hannaði Kristín og teiknaði Njálurefilinn. Kristín hefur verið þátttakandi í Skáld í skólum og List fyrir alla og heimsótt fjöldann allan af skólum út um allt land. Þar að auki hefur hún haldið listasmiðjur og fyrirlestra erlendis og tekið þátt í nokkrum bókamessum. Kristín kennir myndlýsingar við Myndlistaskólann í Reykjavík og ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur fengið Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar tvisvar sinnum, nú síðast 2021. Það ár samdi hún einnig og las í útvarp söguna Svartholið á degi barnabókarinnar, í samstarfi við IBBY á Íslandi og var ritstjóri RisaStórra smásagna í tengslum við Sögur – verðlaunahátíð barnanna.
Facebook síðan Bókakrókur Kristínar
Instagram síðan Bókakrókur Kristínar